Títus

(Endurbeint frá Titus)

Titus Flavius Vespasianus (30. desember 3913. september 81), þekktur sem Títus, var keisari í Rómaveldi frá 79 til 81. Hann tók við völdum af föður sínum Vespasíanusi. Yngri bróðir hans, Dómitíanus, tók við völdum eftir hans dag.

Títus
Rómverskur keisari
[[Mynd:|200px|]]
Valdatími 79 – 81

Fæddur:

30. desember 39
Fæðingarstaður Róm

Dáinn:

13. september 81
Dánarstaður Róm
Forveri Vespasíanus
Eftirmaður Dómitíanus
Maki/makar Arrecina Tertulla
Marcia Furnilla
Börn Julia Flavia
Faðir Vespasíanus
Móðir Domitilla eldri
Fæðingarnafn Titus Flavius Vespasianus
Keisaranafn Titus Flavius Caesar Vespasianus Augustus
Ætt Flavíska ættin

Títus var fæddur í Róm árið 39, sonur Vespasíanusar og Domitillu eldri. Yngri bróðir hans var Dómitíanus sem síðar varð keisari. Títus varð ungur hershöfðingi og starfaði í Germaníu og á Bretlandi. Árið 66 hófst uppreisn gyðinga í Judeu og var Vespasíanus þá sendur, af Neró keisara, til að kveða hana niður. Stuttu síðar var Títus sendur með liðsauka til Judeu til að aðstoða föður sinn. Árið 68 höfðu Títus og Vespasíanus náð stærstum hluta Judeu á sitt vald en áttu þó eftir að ná Jerúsalem, stærsta vígi gyðinganna, þegar fréttir bárust af dauða Nerós. Hernaðaraðgerðum í Judeu var þá slegið á frest og við tók borgarastyrjöld þar sem Galba, Otho og Vitellius börðust um völdin. Eftir nokkra mánuði á valdastóli var Galba myrtur af stuðningsmönnum Othos og nokkrum mánuðum síðar framdi Otho sjálfsmorð eftir að Vitellius sigraði hann í bardaga. Herdeildirnar í Judeu og Egyptalandi hylltu þá Vespasíanus sem keisara. Vespasíanus fór þá til Ítalíu og sigraði her Vitelliusar, sem var skömmu síðar tekinn af lífi.

Títus varð eftir í Judeu og árið 70 hóf hann umsátur um Jerúsalem. Umsátrið varaði í nokkra mánuði og að sögn var mannfallið gríðarlegt. Þar að auki voru tugir þúsunda teknir til fanga og seldir í þrældóm auk þess sem borgin var rænd af Rómverjum og lögð í rúst. Títus fagnaði síðar sigrinum í Róm og Títusarboginn var reistur honum til heiðurs.

Ólíkt Dómitíanusi var Títus valdamikill á meðan faðir þeirra var keisari. Hann var m.a. skipaður yfirmaður lífvarðasveitar keisarans auk þess sem hann var konsúll nokkrum sinnum. Hann var því hylltur sem keisari, án nokkurrar mótstöðu, þegar Vespasíanus lést árið 79.

Títus hafði aðeins verið keisari í um tvo mánuði þegar eldfjallið Vesúvíus gaus, og lagði borgirnar Pompeii og Herculaneum í rúst. Títus lét í kjölfarið skipuleggja hjálparstarf auk þess sem hann gaf sjálfur háar fjárhæðir til að aðstoða fórnarlömb hamfaranna.

Á valdatíma Títusar var Flavíska hringleikahúsið, betur þekkt sem Colosseum, opnað. Bygging þess hafði hafist á valdatíma Vespasíanusar árið 70 og var opnuninni fagnað með miklum hátíðarhöldum sem entust í hundrað daga.

Títus lést svo árið 81 úr hitasótt, eftir aðeins tvö ár á valdastóli, og við keisaratigninni tók þá Dómitíanus, yngri bróðir Títusar. Dánarorsök Títusar er ókunn en fornir sagnaritarar kenndu margir Dómitíanusi um að hafa átt sök á dauða hans eða að hann hafi að minnsta kosti ekki látið hlúa að Títusi á meðan hann var veikur. Slíkar getgátur þykja þó ekki áreiðanlegar þar sem Títus var almennt vel liðinn sem keisari en Dómitíanus var óvinsæll.


Fyrirrennari:
Vespasíanus
Keisari Rómar
(79 – 81)
Eftirmaður:
Dómitíanus


   Þessi fornfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
   Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.