Thomas E. Dewey

Bandarískur stjórnmálamaður (1902–1971)

Thomas Edmund Dewey (24. mars 1902 – 16. mars 1971) var bandarískur stjórnmálamaður og lögmaður sem var 47. fylkisstjóri New York, frá 1943 til 1954.

Thomas E. Dewey
Dewey árið 1944.
Fylkisstjóri New York
Í embætti
1. janúar 1943 – 31. desember 1954
VararíkisstjóriThomas W. Wallace
Joe R. Hanley
Frank C. Moore
Arthur H. Wicks (starfandi)
Walter J. Mahoney (starfandi)
ForveriCharles Poletti
EftirmaðurW. Averell Harriman
Persónulegar upplýsingar
Fæddur24. mars 1902
Owosso, Michigan, Bandaríkjunum
Látinn16. mars 1971 (68 ára) Miami, Flórída, Bandaríkjunum
DánarorsökHjartaáfall
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiFrances Hutt (d. 1928; d. 1970)
Börn2
HáskóliMichigan-háskóli (BA)
Columbia-háskóli (LLB)
StarfLögmaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Hann var frambjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna árin 1944 og 1948. Dewey tapaði fyrri kosningunum fyrir Franklin D. Roosevelt og hinum seinni á móti Harry S. Truman. Flestar skoðanakannanir höfðu spáð Dewey auðveldum sigri í kosningunum 1948 og ósigur hans gegn Truman var því ein óvæntasta kosninganiðurstaða í bandarískri stjórnmálasögu.

Æviágrip

breyta

Thomas Dewey fæddist árið 1902 í Owosso í Michigan. Faðir hans var leiðtogi Repúblikanaflokksins í sýslunni, ritstjóri og póstmeistari staðarins. Dewey vann ungur við blaðaútburð og í sykurverksmiðju í Owosso, auk þess sem hann vann í prentsmiðju föður síns. Hann vann sér inn fé til að ganga í Michigan-háskóla og var ritstjóri stúdentablaðs skólans á námsárum sínum þar. Dewey útskrifaðist árið 1923 og flutti til New York, þar sem hann hóf nám við lagadeild Columbia-háskóla. Hann útskrifaðist þaðan árið 1925 og hóf lögmannsstörf í New York.[1]

Árið 1931 var Dewey skipaður aðstoðarsaksóknari í New York. Dewey skar upp herör gegn glæpastarfsemi í borginni, meðal annars mafíuforingjanum Lucky Luciano, og varð landsþekktur í Bandaríkjunum fyrir frammistöðu sína.[2][3] Árið 1935 skipaði Herbert H. Lehman, fylkisstjóri New York, Dewey saksóknara og veitti honum sérstakar valdheimildir til að taka á fjárglæpastarfsemi sem viðgekkst í fylkinu. Dewey ávann sér miklar vinsældir með framgöngu sinni í baráttu gegn glæpastarfsemi borgarinnar. Hann var kjörinn saksóknari í Manhattan-umdæmi New York árið 1937.[2]

Árið 1938 völdu Repúblikanar Dewey sem frambjóðanda sinn í fylkisstjórakosningum New York. Dewey tapaði naumlega gegn sitjandi fylkisstjóranum Lehman með aðeins um 60 þúsund atkvæða mun. Vinsældir Dewey voru það miklar að hann var aftur valinn sem frambjóðandi flokksins í fylkisstjórakosningum árið 1942 og vann hann þá afgerandi sigur með um 600 þúsund atkvæða meirihluta. Hann var endurkjörinn árið 1946 með enn fleiri atkvæðum.[2]

Dewey sóttist eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna árið 1940 en lét í lægra haldi fyrir Wendell Willkie, sem tapaði kosningunum gegn sitjandi forsetanum Franklin D. Roosevelt.[2]

Dewey sóttist aftur eftir tilnefningu flokksins í forsetakosningunum 1944 og varð í þetta sinn fyrir valinu. Hann gagnrýndi utanríkisstefnu Roosevelt í tilteknum málum, einkum ákvörðun hans um að taka upp stjórnmálasamband við Sovétríkin.[4] Í þessum kosningum tapaði Dewey fyrir Roosevelt, sem naut mikillar alþýðuhylli, en hlaut þó meira fylgi en margir höfðu búist við.[2]

Forsetakosningarnar 1948

breyta
 
„Til hvers að vera að halda kosningarnar?“ spyr Dewey á skopmynd af þeim Truman í aðdraganda kosninganna 1948. Langflestar skoðanakannanir spáðu Dewey afgerandi sigri, en hann tapaði kosningunum að lokum.

Dewey hlaut tilnefningu Repúblikanaflokksins í annað skipti í forsetakosningunum árið 1948. Varaforsetaefni hans í kosningunum var Earl Warren, fylkisstjóri Kaliforníu. Dewey bauð sig þar fram gegn Harry S. Truman, sem hafði tekið við forsetaembætti eftir dauða Franklins D. Roosevelt árið 1945. Á þessum tíma naut Truman þverrandi vinsælda og Demókrataflokkurinn var þríklofinn á milli stuðningsmanna Trumans, íhaldssamra suðurríkjademókrata undir forystu Stroms Thurmond, og vinstrisinna undir forystu Henry A. Wallace. Því þóttu yfirgnæfandi líkur á því að Dewey myndi vinna kosningarnar og verða næsti forseti Bandaríkjanna.[5]

Þar sem sigur Dewey þótti nánast öruggur rak hann máttlitla kosningabaráttu þar sem hann lagði höfuðáherslu á að koma Demókrötum frá völdum. Hann talaði lítið um stefnumál sín og kosningabarátta hans einkenndist öðru fremur af orðhengilshætti og slagorðum á borð við „To err is Truman“. Truman rak hins vegar þróttmikla kosningabaráttu þar sem hann ferðaðist um öll Bandaríkin og gagnrýndi Dewey og Repúblikana fyrir aðgerðaleysi og einangrunarstefnu.[5]

Þegar kom á kjördag árið 1948 vann Truman óvæntan sigur gegn Dewey með um tveggja milljóna atkvæða forskoti.[5] Truman vann í 39 fylkjum og hlaut 303 atkvæði í kjörmannaráðinu en Dewey vann í 16 fylkjum og hlaut 189 kjörmannaatkvæði.[6] Áður en úrslit kosninganna lágu fyrir hafði dagblaðið The Chicago Tribune verið búið að prenta forsíðufrétt með fyrirsögninni „Dewey sigrar Truman“ þar sem svo litlar líkur þóttu á því að Dewey myndi tapa. Ranga fyrirsögnin varð alræmd sem dæmi um fljótfærni í bandarískri blaðamennsku.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. „Dewey er þaulreyndur stjórnmálamaður“. Morgunblaðið. 27. júní 1948. bls. 7–8.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „Thomas Dewey“. Tíminn. 16. febrúar 1948. bls. 5.
  3. „Erlent yfirlit: Dewey“. Tíminn. 6. maí 1944. bls. 1; 4.
  4. Ivor Montagu (5. júlí 1948). „Thomas E. Dewey“. Mjölnir. bls. 3.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 317. ISBN 978-9935-9194-5-8.
  6. Jón Þ. Þór 2016, bls. 318.