Texel er stærst og vestust Vesturfrísnesku eyjanna undan norðurströnd Hollands. Með 169 km2 er hún reyndar stærst allra frísnesku eyjanna. Texel tilheyrir héraðinu Norður-Hollandi.

Fáni Gervihnattarmynd
Upplýsingar
Hérað: Norður-Holland
Höfuðstaður: Den Burg
Flatarmál: 169,82 km²
Mannfjöldi: 13.715
Þéttleiki: 23
Vefsíða: www.texel.nl

Lega og lýsing

breyta

Texel er vestust Vesturfrísnesku eyjanna og er sú eina sem ekki liggur í austur/vesturstefnu. Stefnan er norðaustur/suðvestur og skilur aðeins mjótt sund suðurodda Texel við meginlandið. Jafnmjótt sund skilur Texel við nágrannaeyjuna Vlieland í norðri. Báðar mynda þær nokkurs konar tappa sem lokar Ijsselmeer af. Minna er af sandi á Texel en hinum eyjunum, sennilega vegna lögunar sinnar. Sökum þess að eyjan er miklu breiðari en hinar eyjarnar í eyjaklasanum, hefur gróður náð að festa sig vel þar. Á Texel er því stundaður mikill landbúnaður, í meira mæli en á nokkurri annarri frísneskri eyju. Byggð er mikil á Texel. Þar eru sjö þorp, þeirra helst er Den Burg. Íbúar eru 13.800 og er Texel því langfjölmennust Vesturfrísnesku eyjanna.

Söguágrip

breyta
 
Ferjuhöfnin í Oudeschild

Fram að 1170 var Texel hluti af meginlandinu og skagaði út í Norðursjó. En í stormflóði í nóvember það ár (kallað Allerheiligenfloet) ruddi sjórinn sér leið í gegnum skagann og skildi Texel eftir sem eyju. Eyjan var miklu minni en nú og flæddi yfir hana reglulega. Brátt náðu menn að þurrka stóra hluta hennar og setjast þar að á ný. Íbúarnir lögðu litla varnargarða og héldu áfram að vinna land. 1415 hlaut Texel borgarréttindi, en flestir íbúar bjuggu þá í bænum Den Burg. Á 17. öld var lagður garður til nágrannaeyjarinnar í norðri, Eierland, sem var miklu minni. Næstu tvö hundruð árin var landið þurrkað milli eyjanna og fleiri garðar lagðir. Þannig varð Eierland hluti af Texel og myndar nyrsta oddann í dag. Öll vesturströndin var þá ein samfelld sandströnd. En í stormflóði 1851 rauf sjórinn gat á þremur stöðum. Við það mynduðust votlendin De Muy og De Slufter, sem í dag eru griðastaðir fugla. Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði, bjuggu margir Georgíumenn á Texel. Í apríl og maí 1945 gerðu þeir uppreisn gegn nasistum, enda stríðslok í nánd. Þeir börðust við þýska hermenn, jafnvel eftir að stríðinu lauk formlega. Georgíumenn máttu sín þó lítils við skipulagða Þjóðverja og voru stráfelldir. 3.000 þeirra létu lífið, ásamt 117 almennum hollenskum borgurum. Þeir voru síðustu fórnarlömb stríðsins í Evrópu. Eftir því sem á leið 20. öldina varð Texel æ vinsælli meðal ferðamanna. Ferjusiglingar ganga til Den Helder, hafnarbæjarins sem liggur gegnt suðurodda Texel. Á eyjunni er bílaumferð leyft, gagnstætt því sem gerist á nágrannaeyjunum. Þar er einnig þétt net hjólreiða- og göngustíga.

Náttúra

breyta
 
Þjóðgarðurinn Duinen van Texel

Den Hoge Berg er hæsta hæðin á Texel, þótt hún sé ekki nema 15 metra há. 1968 var hæðin friðuð. Þar er eina skordýraverndarsvæði Hollands, en skordýrin njóta góðs af heitum sandinum. Den Hoge Berg er rétt suðaustan við bæinn Den Burg. Árið 2002 var stofnaður þjóðgarðurinn Duinen van Texel þar sem sandöldurnar eru verndaðar. Garðurinn samanstendur af gjörvallri vesturströnd eyjarinnar og er 22 km langur. Einn skógur er á Texel innan af sandöldunum meðfram vesturströndinni. Fuglaverndarsvæðin De Muy og De Slufter eru einnig á vesturströndinni. Þetta eru votlendi sem laða að ógrynni fugla. Sjaldgæfasta varptegundin er flatnefur, en þar finnast einnig ýmsar tegundir vaðfugla.

Skoðunarverðir staðir

breyta
 
Dæmigert sauðahús á Texel
 
Ecomare-stöðin við Den Koog

Sauðahús er mörg á Texel. Sauðfé er úti allan veturinn, en getur leitað skjóls í svotilgerðum sauðahúsum. Hús þessi eru opin til norðausturs, því aðalvindáttin á eyjunni er suðvesturátt. Nokkur þessara húsa eru friðuð. Ecomare er sjávarsafn í þorpinu De Koog. Þar má sjá ýmislegt um dýra- og plöntulíf eyjarinnar, ásamt vistfræði Vaðhafsins og Norðursjávar. Þar er einnig nokkurs konar uppeldisstöð fyrir meidda fugla og seli. Árlega hjúkrar stofnunin um 25 kópa, sem eftir það fá frelsi. 20 fullorðnir selir eru í stórri laug í stöðinni, en það eru dýr sem ekki gátu vanist frelsinu. Ecomare er ákaflega vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Á Texel er safn sem helgar sig sjó- og strandrán (Maritiem & Jutters Museum). Þar fræðast menn um siglingar og strandrán sem menn stunduðu gjarnan fyrr á öldum við skipastrand. Á Eierland, nyrst á Texel, stendur eftirmynd af tröllvaxinni manneskju (Moai) sem Páskaeyjan í Kyrrahafi er fræg fyrir.


Heimildir

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Texel (Insel)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2011.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Texel“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2011.