Syneta var tankskip sem fórst á 26. desember 1986 við Skrúðinn. Skipið var að koma frá Liverpool á Englandi til Íslands og var upprunalega á leið til Vestmannaeyja en áætlun var breytt og ákveðið að fara til Eskifjarðar. Syneta sigldi meðfram Austfjörðum. Skipið átti að taka loðnulýsi og flytja til Rotterdam í Hollandi og Dunkirk í Frakklandi. Tólf voru í áhöfn skipsins, sex Bretar og sex frá Grænhöfðaeyjum. Sjö lík rak á land.

Ljóðið Syneta eftir Bubba Morthens við lag Martin Hoffman fjallar um strand Synetu og segir söguna um strandið út frá sjónarhóli skipverjanna sem fórust. Það endar svona:

Ef þú siglir um sumar vinur
og sérð við Skrúðinn brimsorfin sker.
Viltu biðja þeim fyrir er fórust
þeim fimm sem aldrei skiluðu sér.

Rétt fyrir miðnætti á jóladag strandaði Syneta við norðausturhorn Skrúðsins og sendi út neyðarkall kl. 23:15. Neyðarkallið var svona "Ran aground north of Seley, sinking, require immediate assistance". Þetta var vitlaus staðsetning, skipið var við Skrúð. Kl. 01:30 kom fyrsta björgunarskipið á vettvang en þeim fjölgaði og urðu 12 og einnig kom björgunarþyrla á staðinn. Veður var vont, mikið öldurót, straumur og eljagangur og komust björgunarbátar aldrei að skipinu. Brak úr skipinu barst að björgunarskipunum sem mynduðu hálfgerða girðingu norður við Skrúð. Lík skipverja fundust eitt af öðru um nóttina og voru þau í björgunarvestum en illa klædd. Einn skipverja fannst með lífsmarki en meðvitundarlaus og helblár. Hann lést skömmu seinna. Alls fundust lík 9 skipverja en 2 af þeim runnu úr björgunarvestum aftur í sjóinn. Skipverjarnir Manuel Joao Nascemento, Domingo Manuel Rocha og Ramino Fortes Silva frá Grænhöfðaeyjum voru jarðsettir í Gufuneskirkjugarði. Lík fjögurra bresku skipverjanna voru send til Bretlands en vitað er að stýrimaður hét Richard Cape og 2. stýrimaður hét Mark Brooks. Skipverjinn sem fannst með lífsmarki var Kevin Dixon frá Hull. Yfirvélstjóri skipsins var Bob Wakefield og 2. vélstjóri var Alan Brown. Christopher Campbell frá Bracknell í Berkshire er talinn hafa verið á vakt þegar skipið strandaði.

Sjópróf voru haldin í Hull 1987. Ekki er vitað hver ástæða var fyrir strandinu en í brjóstvasa eins skipsverja fannst bréf þar sem hann segir frá bilun í skipinu og að ekki væri hægt að sigla því nema á 5 mílna hraða og sjálfstýring væri biluð. Ein skýring á strandinu er talin vera að skipstjóri hafi ekki vitað staðsetningu skipsins og talið sig vera fyrir mynni Reyðarfjarðar og siglt beint í strand á Skrúð.

Heimildir

breyta