Dragferja er eins konar flatbátur, aflangur timburfleki eða fljótandi bryggja, sem dregin er yfir vatnfall á streng, er festur er niður beggja megin árinnar. Á strengnum er hert og slakað eftir því sem þarf með vindu, sem niður er sett við annan enda hans. Strengurinn er festur í þá hlið ferjunnar, sem snýr upp í móti straumi, og aftrar því þannig, að ferjuna hreki ofan eftir ánni, en ferjan er hægt og jafnt dregin yfir ána eftir strengnum. Ferjan getur verið svo stór eða lítil sem nauðsynlegt er á þeim eða þeim stað. Þar sem umferð var mikil að sumarlagi yfir stórar ár þurfti ferjan að vera svo stór, að hún gæti í einu tekið nokkra klyfjaða hesta. Dragferja er ólík kláfferju því hún er dregin á vatni en kláfferja er dregin eftir streng sem liggur í lofti.

Dragferja við Blöndu

breyta

Lokið var við smíði dragferju yfir Blöndu árið 1915 og var hún starfrækt á sumrin þangað til hún fórst árið 1943. Ferjustaður var rétt utan við bæinn Syðra-Tungukot (nú Brúarhlíð) en þar var djúpur hylur 50-60 m breiður. Ferjan var starfrækt á sumrin en dregin upp á haustin í svonefndan ferjubás og geymd þar yfir veturinn. Ferjan var eins og bátur með djúpan kjöl og var á henni tvöfaldur botn. Efri botninn var sléttur og þar var laus hleri sem hægt var að lyfta upp ef þurfti að ausa vatni sem safnaðist milli botnanna. Á báðum hliðum ferjunnar voru þungir hlerar sem voru notaðir sem göngubrú í og úr ferjunni. Hliðarhlerarnir voru dregnir upp með kaðli sem var í trissu sem fest var við aðra hlið þeirra. Í ferjunni voru tveir þverbitar og var annar fram undir stafni. Á hann var fest stórt handsnúðið járnspil sem ferjustreng úr margþættum vírkaðli var vafið um. Ferjustrengurinn var festur báðum megin við ána, frá árinu 1925 með steyptum stöplum með járnlykkjum báðum megin árinnar. Þegar ferjað var yfir ána stóð ferjumaður við spilið og sneri sveif. Dragferjan yfir Blöndu tók 7 hesta og 3-4 menn. Ferjumaður var skyldugur til að ferja hvenær sem óskað var nema svo mikil flóð væru í ánnni að það væri ófært. Greiða þurfti ferjutoll fyrir flutninginn yfir ána. Eftir óhapp sem varð árið 1918 þannig að ferjustrengur slitnaði þá voru settir tveir strengir, annar vafinn um spilið en hinn tengdur ferjunni með blökkum. Ferjan liðaðist sundur þar sem hún var geymd yfir nótt árið 1943 og flutu botnarnir niður með ánni.

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta