Íslenskar mállýskur
(Endurbeint frá Skaftfellskur einhljóðaframburður)
Mállýskur eru ekki áberandi í íslensku, Ísland er talið nær mállýskulaust og skiptist ekki greinilega upp í mállýskusvæði. Hins vegar eru til nokkur svæðisbundin framburðarafbrigði.[1]
Svæðisbundin framburðarafbrigði
breyta- Harðmæli þekkist á Norðurlandi, einkum í Eyjafirði og Þingeyjarsveit. Þegar lokhljóðin p, t, og k koma fyrir í miðju orði eða í lok orðs eru þau borin fram með fráblæstri. Orðið vita er þá borið fram „vitha“ /vɪːtʰa/ en ekki „vida“ /vɪːta/ eins og flestir aðrir landsmenn gera, það kallast linmæli. Harðmæli gerir þó ekki þessi lokhljóð fráblásin ef þau koma á eftir órödduðum hljóðum, allir bera spila fram sem „sbila“ /spɪːla/ en enginn „sphila“ /spʰɪːla/.[2]
- Raddaður framburður þekkist á austanverðu Norðurlandi og norðanverðu Austurlandi. Þá er bolti borið fram sem „bol-ti“ /pɔltʰɪ/ en ekki „bohldi“ /pɔl̥tɪ/ og seinka borið fram sem „sein-ka“ /seiŋkʰa/ en ekki „seihn-ga“ /seiŋ̊ka/.[2]
- hv-framburður þekkist á Suðurlandi. Flestir Íslendingar bera hvar fram sem „kvar“ /kʰvaːr/, en í hv-framburði er orðið borið fram „h(v)ar“ (/xaːr/, /xvaːr/ eða /xʷaːr/).[2]
- bð-, gð-framburður þekkist á austanverðu Norðurlandi. Þar kemur fram lokhljóð á undan [ð], hafði er þá borið fram „habði“.[2]
- ngl-framburður þekkist á Norðurlandi. Þar er borið fram lokhljóð í [ngl], líkt og stafsetningin bendir til. Orð eins og dingla er þá borið fram „dín-gla“ /tiŋkla/ en ekki „dínla“ /tiŋla/.[2]
- rn-, rl-framburður þekkist í Austur-Skaftafellssýslu. Í stað þess að bera barnið fram sem „bardnið“ eða „badnið“, og karlinn fram sem „kardlin“ eða „kadlin“, þá kemur ekkert lokhljóð fyrir og framburðurinn verður „bar-nið“ /parnɪð/ og „kar-lin“ /kʰarlɪn/.[2]
- Vestfirskur einhljóðaframburður kemur fyrir á Vestfjörðum og notar einhljóð en ekki tvíhljóð á undan sumum nefhljóðum. Orðið banki borið fram sem „ban-ki“ /paɲ̊cɪ/ en ekki „bánki“ /pauɲ̊cɪ/, orðið lengur er borið fram sem „le-ngur“ /lɛŋkʏr/ en ekki „leingur“ /leiŋkʏr/.[2]
- Skaftfellskur einhljóðaframburður er það einkenni á framburði, að stafirnir a, e, i, o, u, og ö eru bornir fram sem einhljóð á undan „gi“ (t.d. er orðið „lögin“ borið fram sem „lö-jin“ /ˈlœːjɪn/ frekar en „lau-jin“ /ˈlœijɪn/, og „snagi“ er borið fram sem „sdna-ji“ /stnaːjɪ/ en ekki „sdnæ-ji“ /stnaijɪ/).[2] En þessi framburður er á undanhaldi.
Annar framburðarmunur
breyta- Flámæli var framburðarbreyting sem varð útbreidd á fyrri hluta 20. aldar á Íslandi, sér í lagi á Vesturlandi og Suðurlandi.[3] Sérhljóðin i og u lækkuðu í framburði svo að vinur hljómaði eins og venör og skyr hljómaði eins og sker, á meðan sérhljóðin e og u hækkuðu í framburði svo að spölur hljómaði eins og spulur.[4]
- Tvinnhljóðun er nokkuð ný. Þar kemur fram blísturshljóð í orðum eins og tjald og það borið fram sem „tsjald“ /ʦʰjalt/.[2]
Tenglar
breyta- Yfirlitsgrein um íslenskar mállýskur. Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason.
- Eiríkur Rögnvaldsson (2013). „Hljóðfræði og hljóðritun“ (PDF).
Tilvísanir
breyta- ↑ Íslenska: í senn forn og ný
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 2,8 Eiríkur Rögnvaldsson (2013). „Hljóðfræði og hljóðritun“ (PDF).
- ↑ Íslenska alfræðiorðabókin. Örn og Örlygur. 1990.
- ↑ „Hvað þýðir „hljóðkerfisbreyting" og hvernig er henni háttað í íslensku máli?“. Vísindavefurinn.