Selsvör
Selsvör var vör og uppsátur fyrir báta í landi Sels við Ánanaust austan við Bráðræðisholt sem nú er hluti Vesturbæjar Reykjavíkur. Þar er núna endurvinnslustöð Sorpu. Jörðin Sel var í Seltjarnarneshreppi til 1835 þegar hún var flutt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Í Selsvör var á árunum frá 1900 til 1940 urðunarstaður þar sem sorpi var sturtað fram af sjávarkambinum niður í fjöruna. 1940 var farið að nota annan urðunarstað vestar þar sem nú er Eiðisgrandi. Við Selsvör byggði Pétur Hoffmann Salómonsson kofa þar sem hann bjó frá 1948 til 1960 og lifði af hrognkelsaveiðum og því sem hann fann þar á haugunum. Hann varð frægur fyrir Selsvararorrustuna 1943 þar sem hann sagðist hafa barist við bandaríska hermenn og haft betur, eins og fram kemur í vinsælum dægurlagatexta eftir Jónas Árnason „Hoffmannshnefar“.