Seinna Kongóstríðið

Seinna Kongóstríðið, stundum kallað afríska heimsstyrjöldin eða Afríkustríðið mikla[1], hófst í ágúst árið 1998 í Austur-Kongó, aðeins rúmu ári eftir að fyrra Kongóstríðinu lauk. Stríðinu lauk formlega í júlí árið 2003, þegar bráðabirgðastjórn Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó komst til valda. Þótt friðarsáttmáli hafi verið undirritaður árið 2002 héldu vopnuð átök áfram víðs vegar um landið, sérstaklega í austurhlutanum, og sums staðar er þeim enn ekki lokið í raun.[2]

Kongóskir hermenn árið 2001.

Níu Afríkuríki og um það bil 25 stríðandi fylkingar tóku þátt í stríðinu.[3] Árið 2008 höfðu um 5,4 milljónir manna látið lífið í stríðinu og eftirmálum þess, aðallega af völdum sjúkdóma og vannæringar.[4] Síðara Kongóstríðið er því mannskæðasta stríð á heimsvísu síðan á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar.[5] Um tvær milljónir til viðbótar voru hraktar að heiman og flúðu til nágrannaríkja Kongó.[2][6]

Þrátt fyrir að formlegur endi hafi verið bundinn á stríðið árið 2003 með sáttmála stríðandi fylkinga um stofnun sameiginlegrar þjóðstjórnar létust um 1000 manns daglega árið 2004 úr vannæringu og sjúkdómum vegna eftirmála átakanna.[7] Stríðið snerist meðal annars um verslun með steinefni og aðrar auðlindir í hinu gjöfula Kongóríki.[8][9][10]

Stríðið hófst stuttu eftir fyrra Kongóstríðið, þar sem uppreisnarmaðurinn Laurent-Désiré Kabila hafði með stuðningi Rúanda og Úganda steypt af stóli einræðisherranum Mobutu Sese Seko.[11] Stuðningurinn sem Kabila hlaut frá Rúöndum og Úgöndum leiddi þó fljótt til þess að Kongóbúum fór að þykja hann handbendi erlendra stjórnmálamanna. Til að afsanna þetta flýtti Kabila sér að losa sig við rúandska og úgandska bandamenn sína og bað hermenn bandamanna sinna að hverfa frá Kongó árið 1998. Paul Kagame, forseti Rúanda, hafði vonast eftir því að Kabila yrði honum auðsveipur og varð fyrir vonbrigðum við þetta. Í ágúst 1998 gerðu Rúandamenn aðra innrás í Kongó til stuðnings uppreisnarmönnum í austurhluta landsins.[11]

Átökin entust í um sex ár og á þeim tíma drógust enn fleiri Afríkuríki inn í stríðið: Simbabve, Namibía, Angóla, Tjad og hugsanlega Súdan gripu inn í styrjöldina til stuðnings kongósku ríkisstjórninni. Stríðið fór þó fljótt að snúast um ýmsa dýrmæta málma sem finna má í Austur-Kongó. Það var stríðandi fylkingum í hag að átökin stæðu sem lengst því á meðan þeim stóð gátu þær nýtt sér auðlindirnar og grætt á þeim.[11] Stríðinu lauk formlega séð árið 2003 með valdatöku þjóðstjórnar undir forystu Joseph Kabila (sonar Laurent-Désiré, sem var myrtur árið 2001) en fólk hélt áfram að deyja af völdum skæruliða og sjúkdóma í mörg ár í viðbót.[12] Flest dauðsföllin voru af völdum sjúkdóma sem hefði verið hægt að fyrirbyggja fremur en af völdum ofbeldis.[13]

Tilvísanir

breyta
 1. Bergljót Arnalds (19. janúar 2008). „Eins demantur er annars dauði“. mbl.is. Sótt 9. október 2018.
 2. 2,0 2,1 Soderlund, Walter C.; DonaldBriggs, E.; PierreNajem, Tom; Roberts, Blake C. (1. janúar 2013). Africa's Deadliest Conflict: Media Coverage of the Humanitarian Disaster in the Congo and the United Nations Response, 1997–2008. Waterloo: Wilfrid Laurier University Press.
 3. Bowers, Chris (24. júlí 2006). „World War Three“. My Direct Democracy. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. maí 2018.
 4. „Congo war-driven crisis kills 45,000 a month-study“. Reuters. 22. maí 2018.
 5. Bavier, Joe (22. janúar 2007). „Congo war-driven crisis kills 45,000 a month: study“. Reuters. Sótt 22. maí 2018.
 6. „Congo Civil War“. GlobalSecurity.org.
 7. „1,000 a day dying in Congo, agency says“. Canadian Broadcasting Corporation. 10. desember 2004.
 8. „Children of the Congo who risk their lives to supply our mobile phones“. The Guardian. 7. desember 2012.
 9. Rayner, Gordon (27. september 2011). „Is your mobile phone helping fund war in Congo?“. The Daily Telegraph. London.
 10. „„Kven­lík­am­inn er víg­völl­ur" – Friðar­verðlauna­haf­arn­ir komn­ir til Ósló­ar“. mbl.is. 9. desember 2018. Sótt 9. desember 2018. „Stríðið í Kongó er ekki kynþátta­stríð eða trú­ar­stríð. Það er stríð um auðlind­ir lands­ins og þær auðlind­ir eru notaðar um all­an heim.“
 11. 11,0 11,1 11,2 Vera Illugadóttir (2018). „Milljónir féllu í afrískri heimsstyrjöld“. RÚV.
 12. „Ákærðir fyrir morðið á Kabila“. mbl.is. 6. apríl 2002. Sótt 22. maí 2018.
 13. „Skæðasta stríð frá seinni heimsstyrjöld“. mbl.is. 7. janúar 2006. Sótt 22. maí 2018.