Paul Kagame

4. og núverandi forseti Rúanda

Paul Kagame (f. 23. október 1957) er rúandskur stjórnmálamaður og forseti Rúanda síðan árið 2000. Áður en Kagame varð forseti var hann leiðtogi uppreisnarhreyfingar sem batt enda á þjóðarmorðið í Rúanda árið 1994. Þótt Kagame hafi ekki orðið forseti fyrr en með afsögn Pasteur Bizimungu árið 2000 var hann jafnan talinn hinn eiginlegi leiðtogi ríkisins frá 1994 til 2000 sem varaforseti og varnarmálaráðherra Rúanda.

Paul Kagame
Kagame árið 2014.
Forseti Rúanda
Núverandi
Tók við embætti
22. apríl 2000
ForsætisráðherraBernard Makuza (2000–2011)
Pierre Habumuremyi (2011–2014)
Anastase Murekezi (2014–2017)
Édouard Ngirente (2017–)
ForveriPasteur Bizimungu
Persónulegar upplýsingar
Fæddur23. október 1957 (1957-10-23) (66 ára)
Tambwe, Rúanda-Úrúndí (nú Rúanda)
StjórnmálaflokkurFöðurlandsfylking Rúanda (RPF)
MakiJeannette Kagame
BörnIvan, Ange, Ian, Brian
StarfHermaður, stjórnmálamaður

Æviágrip breyta

Kagame fæddist til fjölskyldu Tútsa í suðurhluta Rúanda. Þegar hann var tveggja ára batt bylting enda á pólitíska yfirburði Tútsa í Rúanda og fjölskylda Kagame flúði því til Úganda, þar sem hann varði æskuárum sínum. Á níunda áratugnum barðist Kagame með uppreisnarher Yoweri Museveni og varð hátt settur herforingi eftir að Museveni varð forseti Úganda. Kagame gekk síðan til liðs við Föðurlandsfylkingu Rúanda (RPF), sem gerði innrás í Rúanda árið 1990. Leiðtogi samtakanna, Fred Rwigyema, lést stuttu eftir að innrásin hófst og Kagame leysti hann af. Árið 1993 hafði Föðurlandsfylkingin lagt undir sig stóran hluta af Rúanda og samdi um vopnahlé við ríkisstjórnina. Þegar Juvénal Habyarimana forseti Rúanda var myrtur árið 1994 hófust grimmileg fjöldamorð ofstækisfullra Hútúmanna á um milljón Tútsum og Hútúum sem reyndu að verja þá. Kagame hélt stríðinu því áfram á ný og tókst að binda enda á þjóðarmorðið þegar Föðurlandsfylkingin steypti Hútú-stjórninni af stóli og tók völdin í Rúanda.

Eftir sigur Föðurlandsfylkingarinnar varð Kagame varaforseti Rúanda og stjórnaði sem slíkur rúandska hernum og viðhélt lögum og reglu á meðan aðrir embættismenn hófust handa við að endurbyggja ríkið. Margir hermenn Föðurlandsfylkingarinnar frömdu morð á hútúum til að hefna sín fyrir þjóðarmorðið.[1] Kagame sagðist vera á móti þessum drápum en honum tókst þó ekki að koma í veg fyrir þau. Síðar var réttað yfir fáeinum þessara hermanna. Eftir valdatöku RPF flúði fjöldi Hútúa frá Rúanda og settist að í flóttamannabúðum í Saír og öðrum nágrannaríkjum. Þeirra á meðal voru hernaðarsamtökin Interahamwe, skipuleggjendur þjóðarmorðsins, sem hugðu á gagnárás inn í Rúanda til að endurheimta völdin. Föðurlandsfylkingin gerði árásir á flóttamannabúðirnar árið 1996 og neyddi marga Hútúana til að snúa heim. Um 200.000 manns létust í árásunum á flóttamannabúðirnar.

Samhliða árásunum á Hútúabúðirnar stóð Kagame fyrir tveimur innrásum í Saír. Í fyrri innrásinni (1996–97) steyptu rúandskir og úgandskir hermenn einræðisherranum Mobutu Sese Seko af stóli og komu uppreisnarmanninum Laurent-Désiré Kabila (sem breytti nafni landsins í Lýðstjórnarlýðveldið Kongó) til valda. Kagame gerði aðra innrás næsta ár gegn ríkisstjórn Kabila (og síðar sonar hans, Joseph) eftir að Kabila rak herafla Rúanda- og Úgandamanna úr landinu. Stríðið stigmagnaðist og varð að meiriháttar styrjöld sem endaði ekki fyrr en með friðarsáttmála árið 2003.

Sem forseti hefur Kagame lagt áherslu á þróun landsins og hratt af stað herferð til þess að gera Rúanda að miðtekjulandi fyrir árið 2020. Árið 2013 hafði landið náð miklum framförum, þar á meðal í heilsugæslu og menntun. Auk þess blómstraði einkageirinn, spilling var nánast upprætt og glæpatíðni lækkaði verulega.[2] Kagame hefur haldið góðu sambandi við Austur-Afríkuríkin og við Bandaríkin en samband hans við Frakkland var hins vegar stirt til ársins 2009. Sambandið við Kongó er einnig spennuþrungið þrátt fyrir vopnahléð sem samið var um árið 2003. Í skjölum sem lekið hefur verið af Sameinuðu þjóðunum er Kagame sakaður um að styðja tvo uppreisnarhópa í Kongó, en Kagame hefur neitað ásökuninni. Nokkur ríki hættu að greiða fé í þróunarhjálp til Rúanda vegna ásakananna. Kagame er vinsæll í Rúanda og meðal sumra erlendra eftirlitsmanna en mannréttindahópar hafa þó sakað hann um að stunda bælingu á pólitísku andófi. Hann vann forsetakjörið í Rúanda árið 2003 og var endurkjörinn árið 2010. Kagame var endurkjörinn á ný árið 2017 og samkvæmt nýjum stjórnarskrárbreytingum gæti hann setið áfram sem forseti allt til ársins 2034.[3]

Kagame var formaður Afríkusambandsins frá 2018 til 2019.[4]

Tilvísanir breyta

  1. Konráð Guðjónsson (8. febrúar 2015). „Hetjan sem bjargaði Rúanda er minni hetja en þú hélst“. Kjarninn. Sótt 5. júlí 2020.
  2. „Er lýðræði dragbítur á hagvöxt?“. Morgunblaðið. 29. september 2013. Sótt 22. maí 2018.
  3. Uwiringiyimana, Clement (29. október 2015). „Rwandan parliament agrees to extend Kagame's rule“. Reuters.
  4. „Kagame takes over AU leadership, commits to visa-free regime“. Africa News. Sótt 28. janúar 2018.


Fyrirrennari:
Pasteur Bizimungu
Forseti Rúanda
(22. apríl 2000 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti