Fyrra Kongóstríðið

Fyrra Kongóstríðið (1996–1997) var erlend innrás í Saír (nú Austur-Kongó) sem steypti einræðisherranum Mobutu Sese Seko af stóli og kom hans í stað til valda uppreisnarleiðtoganum Laurent-Désiré Kabila. Kveikjan að innrásinni var óstöðugleiki sem myndast hafði í austurhluta Saír í kjölfar þjóðarmorðsins í Rúanda. Staða hinnar gerspilltu ríkisstjórnar Mobutu í Kinsasa hafði veikst til muna og margir bæði innan og utan Saír hugsuðu sér gott til glóðarinnar með því að losa sig við hann.

Rúandskar flóttamannabúðir í austurhluta Saír árið 1994.

Eftir ósigur Mobutu var Saír endurnefnt Lýðstjórnarlýðveldið Kongó (République Démocratique du Congo) en fátt breyttist í reynd. Kabila var fljótur að espa upp bandamenn sína frá Rúanda og Úganda sem höfðu komið honum til valda. Af ótta við að valdarán yrði framið gegn sér rak hann alla rúandska og úgandska hermenn úr landinu en með þessu hratt hann af stað síðara Kongóstríðinu, sem byrjaði næsta ár. Sumir sagnfræðingar líta frekar á bæði stríðin sem eina styrjöld.[1]

Mobutu Sese Seko hafði setið við völd sem einræðisherra í Saír frá árinu 1965 sem bandamaður vesturveldanna í kalda stríðinu. Hann hafði glatað fjárhagslegum stuðningi þeirra eftir hrun Sovétríkjanna árið 1991 og þegar kom fram á tíunda áratuginn rambaði Saír á barmi gjaldþrots.[2]

Árið 1994 varð þjóðarmorðið í Rúanda, nágrannaríki Saír til austurs, til þess að um tvær milljónir Hútúa (þar á meðal helstu skipuleggjendur þjóðarmorðsins úr hernaðarhreyfingunni Interahamwe) flúðu til austurhluta Saír og settust þar að í gríðarstóðum flóttamannabúðum. Þjóðarmorðinu hafði lokið þegar uppreisnarfylking Tútsa, RPF, undir stjórn Pauls Kagame, lagði undir sig Rúanda en þjóðarmorðingjarnir lögðu nú á ráðin um að gera gagnárás inn í Rúanda og endurheimta völdin.[2] Til þess að kæfa þessar áætlanir í fæðingu gerðu ný stjórnvöld Rúanda ásamt bandamönnum sínum í Úganda innrás í Saír árið 1997 en dulbjuggu innrásina sem kongóska byltingu gegn Mobutu. Innrásarmennirnir veittu uppreisnarmanninum Laurent-Désiré Kabila stuðning sinn og gerðu hann að andliti og leiðtoga innrásarhersins.[2] Ljóst er þó að Paul Kagame og Rúandamenn fóru fyrir innrásinni á bak við tjöldin.

Eftir sjö mánuði kom her Kabila til höfuðborgarinnar Kinsasa og rak Mobutu á flótta. Mobutu fór í útlegð og lést stuttu síðar í Marokkó.[3] Kabila lýsti sjálfan sig forseta landsins þann 17. maí 1997 og breytti nafni þess aftur í Kongó líkt og það hafði heitið fyrir valdatíð Mobutu. Með valdatöku Kabila er jafnan talað um lok fyrra Kongóstríðsins en átökunum var þó langt því frá lokið. Kagame og bandamenn hans höfðu vonast eftir því að Kabila yrði þeim auðsveip strengjabrúða sem myndi veita þeim greiðan aðgang að auðlindum Saír en Kabila var ekki á þeim buxunum. Hann skipaði rúöndskum og úgöndskum bandamönnum sínum að hverfa frá Kongó en Kagame brást við með því að ráðast á ný inn í landið næsta ár og hratt þannig af stað seinna Kongóstríðinu.

Tilvísanir

breyta
  1. Til dæmis: Reyntjens, Filip. The Great African War: Congo and Regional Geopolitics, 1996–2006. Cambridge: Cambridge UP, 2009. p. 194
  2. 2,0 2,1 2,2 Vera Illugadóttir (2018). „Milljónir féllu í afrískri heimsstyrjöld“. RÚV.
  3. Howard W. French (8. september 1997). „Mobutu Sese Seko, Zairian Ruler, Is Dead in Exile in Morocco at 66“. The New York Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. desember 2016. Sótt 30. desember 2016.