Sandar er eyðibýli í Dýrafirði, áður kirkjustaður, prestssetur og höfuðból. Sandar voru við sunnanverðan fjörðinn, suðvestan undir Sandafelli, og er Þingeyri reist í landi Sanda.

Sandar koma við sögu í Sturlungu en þar bjó höfðinginn Oddur Álason. Þeir Órækja Snorrason höfðu verið vinir en árið 1234 fór Órækja að Oddi, sem þá var staddur á Eyri við Arnarfjörð, og bar eld að bænum. Oddur og sex menn aðrir brutust út og reyndu að verjast en Oddur var felldur. Einn þeirra sem var þarna með honum hét Bárður Þorkelsson. Hann bjó seinna á Söndum og var kallaður Sanda-Bárður. Jörðin var þó í eigu Hrafns Oddssonar, sem þá var unglingur. Þegar Þórður kakali Sighvatsson kom til Vestfjarða 1242 var Bárður einn sá fyrsti sem gekk til liðs við hann og gaf hann Þórði bú sitt. Þótti það geysistórmannlegt, eins og segir í Sturlungu. Nokkru síðar, þegar hagur Þórðar fór heldur að batna, launaði hann fyrir sig með því að gefa Bárði Svefneyjar á Breiðafirði.

Seinna sátu margir merkir prestar á Söndum og má þar nefna séra Ólaf Jónsson skáld, sem var prestur þar frá 1596 til 1627. Hann orti fjölda sálma, oft undir óvenjulegum bragarháttum, og samdi lög við þá líka og er því eitt elsta íslenska tónskáldið sem þekkt er með nafni. Á árunum 1708-1735 var séra Jón Þórðarson dettir prestur á Söndum. Hann var sagður göldróttur og var sagt að þegar hann fór frá Söndum hefði hann lagt það á að fáir skyldu fara auðugir frá Söndum þaðan í frá.

Kirkjan og bærinn á Söndum eru sögð hafa staðið upphaflega niður við sjó, á eyrunum innan við Sandaá, en verið flutt ofar vegna ágangs sjávar. Kirkjan var helguð heilögum Nikulási í kaþólskum sið. Kirkjan var flutt til Þingeyrar árið 1911 og prestssetrið einnig. Þingeyrarhreppur keypti jörðina Sanda árið 1938 og eftir sameiningu sveitarfélaga er hún í eigu Ísafjarðarbæjar. Allmargar hjáleigur voru í landi Sanda og var ein þeirra Þingeyri, á samnefndri eyri norðan undir Sandafjalli. Þar mun hafa verið þingstaður til forna og eru þar friðlýstar tóftir. Verslun hófst snemma á Þingeyri og kauptún fór að myndast þar um miðja 19. öld.

Á Söndum er nú miðstöð hestamennsku á Vestfjörðum og þar er ný reiðhöll, kappreiðabraut og önnur aðstaða fyrir hestamenn. Töluvert skógræktarsvæði er i landi Sanda og er skógræktin þar hluti af verkefninu Landgræðsluskógar.

Um 2008 voru uppi hugmyndir um að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og var þá land Sanda annað tveggja svæða sem helst þóttu koma til greina.

Heimildir

breyta
  • „Tónlistarsaga Reykjavíkur. Lúterski kirkjusöngurinn. Sótt 28. ágúst 2010“.