Salt er tegund efnasambands á formi kristals sem myndað er með jónatengjum og er auðleyst í vatni. Þekkt dæmi um salt er borðsalt (oftast kallað einfaldlega „salt“) sem er samsett úr jákvætt hlaðinni natrínjón og neikvætt hlaðinni klórjón. Borðsalt er meðal annars unnið úr sjó, en seltustig sjávar stafar af uppleystu salti. Salt sem er unnið úr sjó er kallað sjávarsalt til aðgreiningar frá steinsalti sem er unnið úr halítkristöllum í setlögum. Önnur þekkt dæmi um sölt eru sápa, kalínsýaníð (eitt form blásýru), saltpétur og mónósódíumglútamat (MSG).

Kalíndíkrómat er salt með skærum rauðgulum lit.

Jónir sem mynda salt geta verið ýmist ólífrænar, eins og klóríð (Cl-), eða lífrænar, eins og asetat (CH3COO-). Þær geta verið einatóma, eins og flúoríð (F-), eða fjölatóma eins og súlfat (SO42-).

Hægt er að flokka sölt á ýmsa vegu. Sölt sem mynda hýdroxíðjónir þegar þau eru leyst upp í vatni eru kölluð alkalísölt eða basasölt, en sölt sem mynda vetnisjónir eru kölluð sýrusölt. Sölt sem mynda hvorki basa né sýru nefnast hlutlaus sölt. Tvíjónir eru sameindir sem innihalda katjónir (jákvætt hlaðnar jónir) og anjónir (neikvætt hlaðnar jónir), en eru ekki skilgreindar sem sölt. Dæmi um tvíjónir eru amínósýrur, umbrotsefni, peptíð og prótín.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. Voet, D. & Voet, J. G. (2005). Biochemistry (3. útgáfa). Hoboken, New Jersey: John Wiley & Sons Inc. bls. 68. ISBN 9780471193500. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. september 2007.
   Þessi efnafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.