Sólskinshestur
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. |
Sólskinshestur er skáldsaga eftir Steinunni Sigurðardóttur, gefin út 2005 af Máli og menningu. Hún segir frá ævi og ástum Lillu Haraldardóttur. Bókin hefur nú verið gefin út sem hljóðbók á netinu og er það í fyrsta skipti í sögu íslenskra bókmennta sem það er gert.
Tími og umhverfi
breytaSagan sveiflast milli ýmissa skeiða í ævi aðalpersónunnar, Lillu. Út frá ýmsum sögulegum fyrirbærum sem nefnd eru, s.s. Kanasjónvarpsins, Karnabæ og Kaffi Mokka, má gera ráð fyrir að hún fæddist á 6. áratug 20. aldar. Innri tími bókarinnar er annars vegar 2-3 dagar í nútímanum, og hins vegar misjafnlega löng tímabil úr fortíð Lillu.
Sögusviðið er Miðbær, Vesturbær og Austurbær Reykjavíkur, Fljótshlíð, Kaupmannahöfn og Hafnarfjörður.
Persónur
breytaLilla Haraldsdóttir (Lí): Aðalpersóna sögunnar. Lilla var dóttir Haraldar og Ragnhildar og eldri systir Mumma. Hún fæddist og ólst upp í húsi fjölskyldunnar á Sjafnargötu í Reykjavík. Á unglingsárum átti hún í sambandi við Signora Lukasson, sem átti eftir að hafa áhrif á hana allt hennar líf. Hún gerðist líknarhjúkrunarkona. Hún giftist og eignaðist tvær dætur, Unni og Ásu, með manni sínum, og fluttist um tíma til Kaupmannahafnar. Lilla lýsti sjálfri sér sem litlausri meðalmanneskju.
Signora Lukasson: Kærasti Lillu frá unglingsárum. Signora (Signora er ítalskt orð sem þýðir „frú“ og Lilla notaði yfir Lukasson. Raunverulegt nafn hans kom aldrei fram.) var athafnamaður og bjó lengi vel á Ítalíu. Hann átti sumarbústað í Fljótshlíð, sem gaf til kynna höfðingsskap hans. Aðeins með Signora fannst Lillu hún öðlast lit, t.d. valdi hann á hana einu flíkina sem hún átti í lit á unglingsárunum.
Ragnhildur: Ragnhildur bjó á þeim tíma sem Sólskinshestur gerist á Sjafnargötu í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum, Haraldi, og tveimur börnum, Lillu og Mumma. Hún var barnalæknir og þótti afbragsgóð í díagnósu. Hún var mjög tileinkuð starfi sínu og hafði lítinn tíma aflögu til að sinna fjölskyldu sinni. Hún var afar meðvituð um ástand heimsmála, sérstaklega af vandamálum barna víða um heim.
Ung að aldri átti Ragnhildur skáld að unnusta sem lést ungur. Hún giftist síðar Haraldi, en virtist alltaf fremur ástfanginn af fyrri elskhuga sínum. Eftir missinn einbeitti hún sér að námi og starfi. Brúðkaup hennar og Haraldar, sem einnig var læknir, virtist fremur vera af hagnýtum ástæðum til komið, en af raunverulegri ást. Þau eignuðust svo tvö börn, en sinntu þeim frekar lítið.
Persóna Ragnhildar einkenndist að mörgu leyti af andstæðum. Hún var skráður meðlimur í Sjálfstæðisflokknum, en var jafnframt harður andstæðingur veru erlends herliðs á Íslandi. Vandamál barna voru hennar helsta hugarefni, en samt sinnti hún eigin börnum illa. Henni þótti vænt um og virti eiginmann sinn, en elskaði þó ávallt annan. Hún var hörð í mörgum viðhorfum sínum, en kippti sér þó lítið við það að uppgötva samkynhneigð eigin sonar. Og hún var köld og ófélagslynd í framkomu, en laðaði engu að síður að sér fólk.
Í seinni hluta sögunnar mýktist persóna Ranghildar. Hún dró úr vinnu og fór að sinna fjölskyldu sinni meira. Síðustu orð hennar til dóttur sinnar, Lillu, voru „góða ferð besta barn“, og fengu Lillu loks til að finnast hún vera móðir sín.
Haraldur: Eiginmaður Ragnhildur, og faðir Lillu og Mumma. Hann var svæfingarlæknir og var oftast við vinnu. Hann veitti eigin börnum aldrei nægan tíma, en sýndi dætrum Lillu þó mikla umhyggju. Hann átti unnustu sem dó ung, og virtist alltaf hafa elskað hana fremur en Ragnhildi. Hann lést af völdum óbeinna reykinga frá Ragnhildi.
Mummi Haraldsson: Sonur Haraldar og Ragnhildar og yngri bróðir Lillu. Mummi ólst upp á Sjafnargötu með fjölskyldu sinni. Hann reyndist samkynhneigður og átti ýmsa kærasta, meðal annars hinn karlmannlega Stanko frá Svartfjallalandi. Hann sýndi dætrum Lillu mikla umhyggju.
Magda: Magda var þýsk dagmóðir og vinnukona sem gekk Lillu og Mumma að miklu leyti í móðurhlutverk. Hún fór þó meðan börnin voru enn ung.
Nellí Rósa: Nellí var alkóhólisti og mikil ógæfukona. Börnin í hverfinu stríddu henni mikið, en Lilla vorkenndi henni, heimsótti hana og tengdist henni tilfinningalegum böndum. Lilla kom að líki Nellíar eftir að Nellí hafði framið sjálfsvíg. Hún átti eina dóttur, Dóru, sem tekin var frá henni.
Dór(a): Dóttir Nellíar og kennslukona í hannyrðum. Dóra var tekin burt vegna drykkjarvandamála móður sinnar og alin upp annars staðar. Á fullorðinsárum heimsótti Lilla hana og lýsti því fyrir henni að Dóra hefði í huga sínum verið eina vinkona sín, þrátt fyrir að hafa aldrei áður borið hana augum.
Halla: Búðarkona sem Lilla leitaði stundum til í æsku.
Lísa: Hrekkjusvín úr grunnskóla Lillu sem stríddi meðal annars Lillu og Nellí.
Stanko: Vöðvastæltur kærasti Mumma frá Svartfjallalandi.
Geðlæknirinn góði: Ónefndur geðlæknir sem veitti Ragnhildi meðferð.
Guðmann rakari: Rakari sem vakti reiði Lillu þegar hann klippti burt fléttur hennar.
Samskipti persóna
breytaSamband og samskipti Lillu við Ragnhildi og Harald: Ragnhildur og Haraldur eyddu mestöllum tíma sínum í vinnu á spítalanum og höfðu því lítinn tíma aflögu fyrir Lillu. Vegna lítillar umhyggju foreldra sinna upplifði Lilla þau aldrei sem mömmu og pabba. Hún kallaði þau til dæmis aldrei annað en Harald og Ragnhildi alla sína barnæsku. Haraldur gaf sér þó einstaka sinnum tíma fyrir Ragnhildi en það var ekki fyrr en á dánarbeði sínu, þegar hann kallaði Lillu barnið sitt, sem Lilla upplifði Harald sem pabba sinn. Álíka atvik átti sér líka stað með Ragnhildi. Þótt samband þeirra hefði verið stirt, þá voru þó nokkur samskipti milli Lillu og foreldra sinna á fullorðinsárum hennar.
Samband Ragnhildar og Haraldar: Lítil ástríða ríkti milli þeirra, ef til vill vegna þess að hjarta þeirra var ætlað öðrum en hvoru öðru. Ragnhildur hafði verið ástfangin af skáldi sem hafði dáið ungt og Haraldur af brosmildri hnátu sem hann missti. Samband Ragnhildar og Haraldar virtist einkennast af gagnkvæmri virðingu við hvort annað sem læknar. Þar sem þau áttu erfitt með að leika hjón var það skiljanlegt að þeim gekk ekki betur með hlutverk sitt sem foreldrar. Það voru óbeinar reykingar frá Ragnhildi sem urðu Haraldi að bana.
Samband systkinanna: Systkinin urðu strax í æsku mjög náin hvort öðru, líklega vegna þess hve litla athygli þau fengu frá foreldrum sínum og sú staðreynd að hvorugt þeirra átti aðra (raunverulega) vini. Samband þeirra hélst ávallt sterkt, og Lilla velti því fyrir sér hvort hún hefði eignast börn frekar fyrir samkynhneigðan bróður sinn, sem var ólíklegur til að eignast eigin börn, en fyrir sjálfa sig.
Samband Lillu við Nellí og Dór(u): Lilla virtist líta á Nellí sem umhyggjusömu móðurina sem hún átti aldrei og leitaði til hennar til að fá umhyggju, og ef til vill einnig til að veita henni félagsskap þar sem dóttir Nellíar, Dóra, var tekin frá henni. Lilla gerði Dóru að ímyndaðri vinkonu sinni en kallaði hana ávallt Dór vegna ókláraðs handverks sem hún hafði séð hjá Nellí og bar þessa stafi. Lilla skrifaði Dór(u) bréf sem hún lokaði í skrifborði sínu og fékk þannig vissa sálarró við að tjá sig við einhvern, þó það hafi verið ímynduð vinkona. Lilla leitaði loks Dór(u) uppi þegar hún var orðin fullorðin til þess að sjá hvernig líf hennar hefði orðið. Lilla sá þá að Dór(a) bjó í draumahverfinu hennar og átti eiginmann frá draumalandinu hennar, Tékklandi.
Samband Lillu við kærastann: Lilla talaði um kærastann sem hinn tillitsama verndara. Allt sem hann gerði virtist í hennar augum vera gert af tilliti til hennar. Það var með honum sem Lilla áttaði sig á hversu góð hún var í hlutverki barns, en það hlutverk hafði hún ekki fengið að leika áður. Hún sagði hann einan hafa gefið sér lit í lífinu, en samt sem áður sagði hún honum upp. Þegar þau hittust aftur löngu síðar var ljóst að þau þráðu enn hvort annað, og hann bauð henni til sín í sumarbústað sinn í Fljótshlíðinni. Lilla elskaði aldrei annan mann eins og hún elskaði hann, jafnvel ekki eiginmann sinn.
Samband Lillu við eiginmann (meðan hjónaband varði) og dætur: Samband Lillu og eiginmanns hennar byrjaði ágætlega, en samskipti þeirra voru yfirborðsleg, þar sem þau töluðu um lítið annað en dæturnar og heimilishald. Þau virtust bæði hafa verið búin að fá nóg hvort af öðru, því um leið og dæturnar uxu úr grasi skildu þau og virtust bæði sátt með það. Samband Lillu og dætra hennar var mjög náið þegar þær voru litlar, og virtist Lilla hafa ætlað að gefa þeim það sem hún sjálf fékk aldrei frá eigin foreldrum.
Mál og Stíll
breytaKímni og kaldhæðni einkenna að mörgu leyti Sólskinshest. Læknirinn Haraldur dó af völdum óbeinna reykinga frá lækninum Ragnhildi. Leikir systkinanna Lillu og Mumma voru oft háðslegir. Og lýsingar Steinunnar af leikjum Mumma og samkynhneigðra vina hans eru oft með kómískum hætti:
„Ég kalla Ragnhildi hommatótemið (ekki upphátt) þegar vinirnir setjast við fótskör hennar í bókstaflegri merkingu, snyrta táneglur og útrýma líkþornum. Þeir líta á hana sem hetju og kunna sögur af því hvernig hún bjargaði litlum systrum og bræðrum með yfirskilvitlegri díagnósu og hárnákvæmri meðferð. Svo hefur hetjan guðdómlegar skoðanir og hægt er að tala um allt við hana, eins og þeir segja andaktugir.“ (Steinunn Sigurðardóttir (2005). Sólskinshestur. Mál og menning. ISBN 9979-3-2694-8.)
Sólskinshestur er mjög ljóðræn bók. T.d. eru nokkur ljóð í bókinni og víða er textinn settur óvenjulega upp í ljóðrænum tilgangi:
„Tíðin verður tvenn og þrenn ...
og tíðin verður ný ... Það kemur ekki mál við mig
ég ann þér fyrir því.
Áfram þjóta árin sem óðflugaský
Tíðin verður tvenn og þrenn og tíðin verður ný
Það kemur ekki mál við mig. Ekki ...
... ég ann þér fyrir ...“ (Steinunn Sigurðardóttir (2005). Sólskinshestur. Mál og menning. ISBN 9979-3-2694-8.)
Umfjöllunarefni sögunnar
breytaÝmsar fjölbreyttar tilfinningar koma við í sögunni, en sérstaklega er fjallað um ástina og sorgina, hamingjuna fólgna í að elska og sorgina við ástarmissi, hvort sem þar er verið að tala um ást milli elskuhuga eða innan fjölskyldu. Í raun hafa allar aðalpersónur sögunnar orðið fyrir einhvers konar ástarharmi: Samband Lillu og Signora endaði sorglega og þeim tókst ekki að ná saman aftur í lok bókar, bæði Ragnhildur og Haraldur elskuðu í raun frekar fyrri elskhuga en hvort annað, Mummi átti erfitt með að finna sig í ástarmálum, heittelskað barn Nellíar var tekið frá henni, o.s.frv.
Titill bókarinnar, „Sólskinshestur“, merkir hestur sem ekki fer út nema í sólskini og er því jafnan í vernduðu umhverfi, laus við áföll og áhyggjur. Lilla upplifði sig ekki sem sólskinshest, enda átti hún að mörgu leyti erfitt líf.
Boðskapur
breytaBoðskapur sögunnar er ef til vill sá að maður eigi að lifa lífinu til fulls, að njóta hverrar stundar. Tíminn líður hraðar en maður heldur og áður en maður veit af getur öllu verið af lokið.