Rudolf Höss
Rudolf Franz Ferdinand Höss (25. nóvember 1900 – 16. apríl 1947) var þýskur foringi í SS-sveitum nasista og yfirmaður í Auschwitz-útrýmingarbúðunum á árunum 1940 til 1943.
Rudolf Höss | |
---|---|
Fæddur | Rudolf Franz Ferdinand Höss 25. nóvember 1901 |
Dáinn | 16. apríl 1947 (45 ára) |
Dánarorsök | Tekinn af lífi með hengingu |
Þjóðerni | Þýskur |
Flokkur | Nasistaflokkurinn |
Maki | Hedwig Hensel (g. 1929) |
Börn | 5 |
Æviágrip
breytaHann hafði ætlað sér að verða prestur áður en hann var kvaddur í herinn til að berjast í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið gekk hann í Freikops, einkaher sem var skipulagður af liðsforingjum úr þýska hernum úr stríðinu. Árið 1922 gekk Höss í þýska nasistaflokkinn og síðar í Artamenen sem var félag öfgafullra þjóðernissinna sem fyrirlitu borgarlífið og vildi hverfa aftur til einfaldari tíma bænda. Eftir ódæðisverk þar var hann dæmdur til fimm ára fangelsvistar árið 1923.
Í júnímánuði árið 1934 bauð Heinrich Himmler honum vinnu hjá öryggissveitum nasista, betur þekkt sem SS-sveitirnar, og eftir eilítið hik þáði hann það. Seinna sama árs fór hann til Dachau, sem voru fyrstu þrælabúðir þriðja ríkisins. Árið 1938 þáði hann stöðu sem búðastjóri í Sachsenhausen sem voru þrælabúðir 34 km norður af Berlín. Þar stjórnaði hann einni aftökusveit þeirra búða. 30. apríl árið 1940 var honum boðið yfirmannastarf í Auschwitz.
Talið er að um 1.000.000 til 3.000.000 manns hafi verið myrtar í Auschwitz-útrýmingarbúðunum á meðan Höss fór með stjórn þar frá 1940 til 1943.[1]
Eftir seinni heimsstyrjöldina var Höss handtekinn. Réttað var yfir honum í Varsjá, hann dæmdur til dauða og loks hengdur þann 16. apríl 1947.
Í dægurmenningu
breytaHöss er aðalpersónan í kvikmyndinni The Zone of Interest, sem kom út í leikstjórn Jonathans Glazer árið 2023. Kvikmyndin fjallar um daglegt líf Höss-fjölskyldunnar á heimili þeirra við hliðina á Auschwitz-útrýmingarbúðunum. Í kvikmyndinni er áhersla lögð á illsku helfararinnar, og firringu þeirra sem framkvæmdu hana, með því að sýna hvernig aðeins einn veggur aðskilur munaðarlíf Höss-fjölskyldunnar frá fjöldamorðunum sem framin eru inni í búðunum.[2][3]
Tilvísanir
breyta- ↑ Pétur Ólafsson (1. júní 2005). „Frelsi viljans í Þriðja ríkinu“. Sagnir. bls. 22.
- ↑ Alma Mjöll Ólafsdóttir (7. apríl 2024). „Nasistar og nútíminn á hvíta tjaldinu“. Heimildin. Sótt 10. júlí 2024.
- ↑ Júlía Aradóttir (6. mars 2024). „Tímamótaverk sem spyr hvers konar manneskjur geta leyft hryllingi að gerast“. RÚV. Sótt 10. júlí 2024.