Reykjadalur (Þingeyjarsýslu)

Reykjadalur er dalur í Suður-Þingeyjarsýslu, inn af Aðaldal. Fljótsheiði liggur að dalnum að vestan en austan við hann er Laxárdalsheiði, sem skilur milli Reykjadals og Laxárdals, og síðan Mývatnsheiði.

Dalurinn er vel gróinn og nokkuð þéttbýll. Þar hefur ekki runnið hraun eins og í dölunum í nágrenninu. Um hann fellur Reykjadalsá og rennur í Vestmannsvatn, sem er í mynni dalsins. Úr því rennur svo Eyvindarlækur í Laxá í Aðaldal.

Í Reykjadal er skólasetrið Laugar í landi Litlu-Lauga og þar er dálítið þorp með ýmiss konar þjónustu, svo sem verslun og veitingastað, hótel og ferðaþjónustu. Þar er einnig lögleg keppnis sundlaug, heitur pottur og mjög góð íþróttaðastaða. Þar er líka Framhaldsskólinn á Laugum, heimavistarskóli þar sem rúmlega 100 nemendur stunda nám. Félagsheimili sveitarinnar er á Breiðumýri, þar skammt fyrir norðan. Við Vestmannsvatn hafa lengi verið starfræktar sumarbúðir á vegum þjóðkirkjunnar.

Reykjadalur er nú í Þingeyjarsveit en var áður sérstakt sveitarfélag, Reykdælahreppur. Þar áður voru Reykjadalur og Aðaldalur einn hreppur, Helgastaðahreppur. Kirkja sveitarinnar er á Einarsstöðum og áður var einnig kirkja á Helgastöðum.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.