Framhaldsskólinn á Laugum

Framhaldsskóli á Íslandi

Framhaldsskólinn á Laugum í Þingeyjarsveit er íslenskur framhaldsskóli. Skólinn var stofnaður haustið 1925 en hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1988. Skólameistari hans er Sigurbjörn Árni Arngrímsson.

Framhaldsskólinn á Laugum
Nemendur við Framhaldsskólann á Laugum í útikennslu

Merki Framhaldsskólans á Laugum


Einkunnarorð Metnaður, trúmennska, tillitssemi og glaðlyndi.
Stofnaður 1925
Skólameistari Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Nemendur 100
Nemendafélag NFL
Staðsetning Laugum í Reykjadal
650 Laugar
Ísland
Gælunöfn Laugaskóli, FL
Gælunöfn nemenda Laugameistarar
Heimasíða www.laugar.is
www.nfl.is

Skólahald á Laugum breyta

Frá upphafi skólahalds á Laugum árið 1925 hafa um 7000 manns stundað nám, fyrst í lýðsskóla, síðan alþýðuskóla, þá héraðsskóla og loks í Framhaldsskólanum á Laugum eins og hann heitir nú. Framhaldsskólinn á Laugum er heimavistarskóli og þangað koma nemendur alls staðar að af landinu.

Tildrög stofnunar Laugaskóla má rekja til hinnar svokölluðu Þingeysku menningarbyltingar sem stóð frá sjöunda áratug 19. aldar til þriðja áratugs 20. aldar, en þá var skólinn stofnaður. Segja má að forverar skólans hafi verið fjórir. Fyrstur var stofnaður Hléskógaskóli en hann starfaði ekki lengi og kenndu margir slæmri staðsetningu um. Seinna var skólahúsið fært að Ljósavatni og var þá stofnaður Ljósavatnsskóli og starfaði hann í 11 ár. Unglingaskólinn á Breiðumýri var svo stofnaður árið 1918 og Lýðsskólinn á Laugum var arftaki hans.

Á fundi hjá Sambandi Þingeyskra ungmennafélaga (síðar HSÞ), 24. apríl 1925, var samþykkt tillaga þess efnis að allar deildir sambandsins ynnu að stofnun héraðsskóla. Í framhaldi af því var farið að huga að stað fyrir skólann. Upphaflega var horft til Grenjaðarstaðar, en á endanum var ákveðið að hinn nýi skóli skyldi rísa á Laugum í Reykjadal. Á Laugum var nægilegt heitt vatn og Sigurjón Friðjónsson á Litlu-Laugum gaf land undir skólann. Var Arnór Sigurjónsson, sonur Sigurjóns, fyrsti skólastjóri þess skóla.

Skólinn er nú með heimavistir fyrir 150 nemendur.

Nám breyta

Framhaldsskólinn á Laugum starfar eftir áfangakerfi, en í því felst að námsefni í einstökum námsgreinum er skipt niður í afmarkaða áfanga sem kenndir eru í eina námsönn og lýkur með prófi eða öðru námsmati í annarlok. Allt nám í skólanum er metið til eininga.

Námsbrautir við Framhaldsskólann á Laugum eru fjórar:

1. Náttúrufræðibraut til stúdentsprófs

2. Félagsfræðibraut til stúdentsprófs

3. Starfsnám í íþróttafræði og íþróttagreinum

4. Almenn námsbraut

5. Kjörsviðsbraut

Að jafnaði stunda um 100 nemendur nám við skólann ár hvert.

Skólahúsin breyta

Húsakostur Laugaskóla er mikill og hefur skólasvæðið byggst upp jafnt og þétt á þeim rúmu 80 árum sem skólinn hefur starfað.

Fyrstur var reistur Gamli skóli eins og hann er kallaður í dag, en einungis tvær burstir og sundlaug í kjallara hans, árið 1925. Þriðja burstin var reist árið 1928. Íþróttahúsið Þróttó var reist árið 1931 og var það um tíma stærsta íþróttahús landsins. Dvergasteinn með heimavist og nýjum smíðasal var reistur árið 1949 og kennaraíbúðir við Dvergastein árið 1957. Norðurálma við Gamla-Skóla með nýjum matsal og heimavistum var reist árið 1961 og kom húsið að góðum notum við Landsmót UMFÍ sem haldið var á Laugum þá um sumarið. Fjall var byggt árið 1967 með heimavist og íbúðarhúsnæði, nýtt Íþróttahús reist árið 1978 og loks Tröllasteinn árið 2000 en í honum eru herbergi fyrir allt að 70 nemendur. Árið 2005 var svo reist vegleg útisundlaug. Árið 2012 var vistin Álfasteinn tekin aftur í notkun eftir hún hafði verið lagfærð.

Félagslíf breyta

 
Ein af hefðum við skólann er að nýnemar syndi yfir tjörnina á Laugum

Við skólann starfar nemendafélag, Nemendafélag Framhaldsskólans á Laugum (NFL) sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1925 þegar skóli var stofnaður á Laugum. Fyrsta veturinn starfaði ungmennafélag við Laugaskóla og að vori kom fram sú tillaga að stofna sérstakt félag nemenda. Fékk það félag nafnið Nemendasamband Laugaskóla og var formlega stofnað 13. apríl 1926. Markmið félagsins voru í upphafi þau að efla gengi skólans, að auka skilning nemenda á íslenskri alþýðumenningu og að auka samheldnieldri og yngri nemenda skólans. Það sér um félagslíf við skólann, ýmis hagsmunamál nemenda og tengsl við aðra skóla.

Haustið 1926 var ráðist í blaðaútgáfu og hafa ýmis blöð komið út á vegum félagsins síðan þá. Fyrstu árin var gefið út Ársrit Nemendasambands Laugaskóla og eru eintök af því til varðveislu á bókasafni Framhaldsskólans á Laugum. Þar er að finna góðar heimildir um starfið í skólanum fyrstu ár hans.

Ýmsar hefðir eru í félagslífi nemenda á Laugum og eiga margar þeirra sér langa sögu. Ein þeirra langlífustu er sú að nýnemar sem það vilja syndi yfir tjörnina á Laugum og séu þannig formlega orðnir Lauganemar. Þá stendur NFL fyrir Tónkvíslinni sem er árleg söngkeppni meðal nemenda skólans annars vegar og hins vegar meðal grunnskóla úr Þingeyjarsýslum.

Tengt efni breyta

Tenglar breyta