Rómantíkin

listastefna
(Endurbeint frá Rómantíska stefnan)

Rómantíkin, rómantíska stefnan eða rómantíska tímabilið var listastefna sem var ríkjandi í evrópskri list og menningu frá lokum 18. aldar til miðrar 19. aldar, um það bil frá 1800 til 1850. Einkenni rómantísku stefnunnar voru áhersla á tilfinningar og einstaklingshyggju, upphafning náttúrunnar og efasemdir um iðnvæðinguna, og upphafning fortíðar með áherslu á miðaldir fremur en klassíska tímabilið.[1] Tímabilið tók við af upplýsingunni og var að sumu leyti viðbragð við iðnbyltingunni[2] og vísindalegri rökhyggju.[3] Rómantíska stefnan birtist í listsköpun; myndlist, tónlist og bókmenntum, en má líka sjá stað í sagnaritun, menntun og vísindum á þessum tíma. Rómantískir hugsuðir höfðu áhrif á þróun stjórnmálastefna á 19. öld, eins og íhaldsstefnu, frjálslyndisstefnu, róttækni og þjóðernishyggju.[4]

Ferðalangur við þokuhaf eftir Caspar David Friedrich frá 1818.

Stefnan lagði áherslu á tilfinningalífið sem uppsprettu fagurfræði, með áherslu á sterkar tilfinningar eins og hrifningu, ást, ótta og hrylling. Hið háleita var fagurfræðilegt viðmið sem var hægt að finna í óhamdri og villtri náttúru.[5][6] Hún leitaði fanga í alþýðumenningu og lagði líka áherslu á óundirbúna sköpun (eins og spunatónlist). Stefnan skilgreindi sig í andstöðu við upplýsinguna með áherslu sína á fornöldina og endurvakti miðaldahyggju til að flýja þéttbýlisvæðingu og iðnvæðingu sem einkenndi vestræn samfélög 19. aldar í síauknum mæli.

Helstu áhrifavaldar rómantísku stefnunnar voru þýska Sturm und drang-hreyfingin sem kom fram á síðari hluta 18. aldar og lagði áherslu á innsæi og tilfinningar,[7] og franska byltingin sem hafði áhrif á stjórnmálaskoðanir menntafólks um allan heim. Margir af fyrstu rómantísku hugsuðunum voru byltingarsinnar þótt þeir væru sjálfir af yfirstétt.[8] Rómantískir listamenn og gagnrýnendur lögðu áherslu á listamanninn sem „hetju“ sem lyfti samfélaginu á hærra og göfugra plan. Stefnan lagði þannig áherslu á frelsi einstaklingsins til að skapa út frá eigin ímyndunarafli, óháð formrænum reglum sem áður giltu um listsköpun. Sumir voru undir áhrifum frá söguhyggju í anda Hegels og trúðu því að „tíðarandinn“ væri óumflýjanlegur. Á seinni hluta 19. aldar kom raunsæið fram sem viðbrögð við rómantísku stefnunni.[9] Hnignun rómantísku stefnunnar stafaði af mörgum breytingum sem urðu á síðari hluta 19. aldar í menningu og listum, samfélagi og stjórnmálum.[10]

Sverrir Kristjánsson, sagnfræðingur, sagði um rómantísku stefnuna í grein sinni um Bjarna Thorarensen, sem nefndist: Fannhvítur svanur:

Rómantíska stefnan, svo sem hún birtist í upphafi 19. aldar, var tvíhverf í eðli sínu og öllum háttum: hún var andsvar tilfinninga og skáldlegs hugarflugs við flatbotna skynsemisstefnu og nytjatrú, tefldi fram kug og þjóðtungu gegn heimsborgarahætti 18. aldar. Í pólitískum og félagslegum efnum var hún einnig svo tvíbent, að oft brá til beggja vona, hvort hún yrði þjónusta afturhalds eða tendraði neista byltingar, enda dæmin til um hvorutveggja. Í heimi listarinnar gekk hún sér, einkum í Þýskalandi, til húðar í taumlausri einstaklingshyggju og sénídýrkun, svo hátt varð flug hennar, að hún eygði ekki lengur þann jarðneska veruleika, sem var þó hennar móðurskaut.

Tilvísanir

breyta
  1. Damrosch, Leopold (1985). Adventures in English Literature (enska). Orlando, Florida: Holt McDougal. bls. 405–424. ISBN 0153350458.
  2. Encyclopædia Britannica. Romanticism. Retrieved 30 January 2008, from Encyclopædia Britannica Online. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. október 2005. Sótt 24. ágúst 2010.
  3. Casey, Christopher (30. október 2008). "Grecian Grandeurs and the Rude Wasting of Old Time": Britain, the Elgin Marbles, and Post-Revolutionary Hellenism“. Foundations. Volume III, Number 1. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. maí 2009. Sótt 14. maí 2014.
  4. Morrow, John (2011). Stedman Jones, Gareth; Claeys, Gregory (ritstjórar). Romanticism and political thought in the early 19th century (PDF). bls. 39–76. doi:10.1017/CHOL9780521430562. ISBN 978-0-511-97358-1. Sótt 10. september 2017.
  5. Coleman, Jon T. (2020). Nature Shock: Getting Lost in America. Yale University Press. bls. 214. ISBN 978-0-300-22714-7.
  6. Barnes, Barbara A. (2006). Global Extremes: Spectacles of Wilderness Adventure, Endless Frontiers, and American Dreams (enska). Santa Cruz: University of California Press. bls. 51.
  7. Hamilton, Paul (2016). The Oxford Handbook of European Romanticism (enska). Oxford: Oxford University Press. bls. 170. ISBN 978-0-19-969638-3.
  8. Blechman, Max (1999). Revolutionary Romanticism: A Drunken Boat Anthology (enska). San Francisco, CA: City Lights Books. bls. 84–85. ISBN 0-87286-351-4.
  9. "'A remarkable thing,' continued Bazarov, 'these funny old Romantics! They work up their nervous system into a state of agitation, then, of course, their equilibrium is upset.'" (Ivan Turgenev, Fathers and Sons, chap. 4 [1862])
  10. Szabolcsi, B. (1970). „The Decline of Romanticism: End of the Century, Turn of the Century-- Introductory Sketch of an Essay“. Studia Musicologica Academiae Scientiarum Hungaricae. 12 (1/4): 263–289. doi:10.2307/901360. JSTOR 901360.
   Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.