Ríkissa Valdimarsdóttir

Ríkissa Valdimarsdóttir (11901220) eða Ríkissa af Danmörku var dönsk konungsdóttir og drottning Svíþjóðar frá 1210 til 1216.

Ríkissa drottning. Mynd á legsteini sem ætlaður var á gröf hennar en aldrei settur þar vegna þess að hún dó og var grafin í Danmörku.

Ríkissa var dóttir Valdimars mikla Knútssonar Danakonungs og Soffíu af Minsk. Hún hét eftir móðurömmu sinni, Ríkissu af Póllandi. Þegar Eiríkur Knútsson Svíakonungur taldi sig fastan í sessi eftir að hafa fellt fyrirrennara sinn, Sörkvi yngri Karlsson, í orrustu 1210, vildi hann byggja upp friðsamleg og góð samskipti við Danmörku, sem áður hafði stutt Sörkvisætt í átökunum við Eiríksætt. Því bað hann um hönd Ríkissu, systur Valdimars sigursæla, sem þá hafði tekið við ríkjum í Danmörku.

Sagnir herma að þegar Ríkissa kom til Svíþjóðar hafi það komið henni mjög á óvart að henni var ætlað að sitja hest en ekki ferðast með vagni eins og hún var vön í hinni flötu Danmörku en hirðmeyjar hennar ráðlögðu henni að taka upp siði hins nýja heimalands síns en reyna ekki að innleiða danska siði.

Þegar Eiríkur dó 1216 áttu þau eingöngu dætur á lífi en Ríkissa var þunguð og nokkrum mánuðum síðar eignaðist hún son sem nefndur var Eiríkur. Þá hafði Jóhann Sörkvisson þegar verið kjörinn konungur og Ríkissa og börn hennar hröktust í útlegð til Danmerkur. Þar dó Ríkissa 1220 en tveimur árum síðar var Eiríkur sonur hennar tekinn til konungs í Svíþjóð eftir lát Jóhanns.

Dætur Ríkissu og Eiríks sem upp komust voru þær Soffía, sem giftist Hinrik 3. af Mecklenburg, og Ingibjörg, sem giftist Birgi jarli, ríkisstjóra Svíþjóðar, og var móðir Svíakonunganna Valdimars Birgissonar og Magnúsar hlöðuláss.

Heimildir

breyta