Eiríkur hinn smámælti og halti

Eiríkur Eiríksson (12162. febrúar 1250), oft nefndur Eiríkur hinn smámælti og halti en einnig Eiríkur 9. (sjálfur kallaði hann sig Eirík 3.) var konungur Svíþjóðar tvisvar, fyrst í bernsku 1222-1229 og svo aftur frá 1234 til dauðadags.

Innsigli Eiríks konungs.

Eiríkur var einkasonur Eiríks Knútssonar konungs og Ríkissu, dóttur Valdimars mikla Knútssonar Danakonungs. Hann fæddist eftir lát föður síns. Páfinn vildi að Eiríkur tæki við af föður sínum en Jóhann Sörkvisson, sem þá var 15 ára, var kjörinn konungur því sænskum aðalsmönnum leist ekki á að hafa ómyndugan konung í hásæti í mörg ár. Jóhann dó hins vegar 10. mars 1222 og þá var Eiríkur tekinn til konungs. Frændur hans og aðrir aðalsmenn. stýrðu ríkinu og þar bar mest á Knúti langa Hólmgeirssyni.

Árið 1229 var Eiríki steypt af stóli eftir orrustuna við Olustra og Knútur langi lét krýna sig konung. Eiríkur flúði til Danmerkur á náðir Valdimars sigursæla móðurbróður síns og dvaldi þar næstu fimm árið. En árið 1234 dó Knútur og Eiríkur sneri þá aftur og var konungur til dauðadags 1250.

Kona Eiríks var Katrín Súnadóttir, dótturdóttir Sörkvis yngri. Þau voru barnlaus. Systir Eiríks, Ingibjörg, hafði gifst Birgi Magnússyni, síðar jarli, árið 1236 og var elsti sonur þeirra, Valdimar, kjörinn konungur að Eiríki látnum. Hann var þá um ellefu ára gamall og var faðir hans ríkisstjóri og hélt í raun um stjórnartaumana í Svíþjóð þar til hann lést 1266.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Jóhann Sörkvisson
Svíakonungur
(12221229)
Eftirmaður:
Knútur langi
Fyrirrennari:
Knútur langi
Svíakonungur
(12341250)
Eftirmaður:
Valdimar Birgisson