Perlachturninn er 70 metra hár turn í miðborg Ágsborgar í Þýskalandi og er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Hann var reistur sem varðturn en er hluti af Péturskirkjunni í dag.

Perlachturninn og Péturskirkjan. Tvær byggingar, ein heild.
Perlachturm og ráðhús í nótt.

Saga Perlachturnsins

breyta

Perlachturninn var reistur árið 989 sem varðturn. Hann var ekki hluti af borgarmúrunum, heldur var hugmyndin að hann væri hvortveggja varð- og brunavarnaturn. Turninn var upphaflega ekki jafn hár og hann er núna. Á 13. öld var Péturskirkjan í Ágsborg reist á reitnum. Í stað þess að reisa háan kirkjuturn, var kirkjan sameinuð Perlachturninum. Neðst í turninum var auk þess sett upp hliðarkapella kirkjunnar. Árið 1348 var þung brunabjalla sett upp í turninn sem vó 3,5 tonn og var hún notuð sem viðvörunarklukka. Eingöngu lögreglustjórinn mátti hringja bjöllunni á hættutímum. Þessi regla hélst allt til 1805. Árið 1526 var turninn hækkaður upp í 63 metra. Þá fékk hann klukku með stórum vísum, ásamt lítilli bjöllu sem sló á korters fresti. Snemma á 17. öld var turninn enn hækkaður og náði þá núverandi hæð, 70 metrum. Hann fékk þá einnig litla hvolfþakið. Í heimstyrjöldinni síðari voru flugvélafallbyssur settar efst á turninn. Í febrúar 1945 varð turninn fyrir sprengju í loftárás og brann efri hluti hann út. Viðgerðum lauk 1950. Í Perlachturninum er útsýnispallur fyrir ofan klukknahúsið. Til að komast þangað þarf að príla 258 þrep. Þegar Alparnir sjást vel, er flaggað gulum fána á turninum til merkis að útsýnið er sérlega gott. Árið 2000 var klukknaspil sett efst í turninn sem leikur á hverjum degi þjóðlög og tónlist eftir Mozart en faðir Mozarts fæddist í borginni.

Turamichele

breyta

29. september ár hvert er opnað fyrir lítið klukknaspil neðarlega í turninum. Klukknaspilið heitir Turamichele, sem er afbökun á heitinu Turm Michel (Turn Míkjáll). Þetta er stytta af heilögum Mikjál sem rekur kölska á hol með spjóti. Klukknaspilið fer í gang á heila tímanum, en einungis á þessum eina degi, sem er Mikjálsdagurinn. Spilið er gífurlega vinsælt meðal skólakrakka, sem fá að fara á þessum degi til að sjá og heyra spilið.

Turnhlaupið

breyta

Árlega fer fram turnhlaup (Perlachturn-Lauf). Keppendur eru látnir hlaupa upp stigana upp í 70 metra hæð. Metið eru 47,28 sekúndur í karlaflokki, en 1:08,05 í kvennaflokki.

Péturskirkjan

breyta

Perlachturninn er samfastur Péturskirkjunni (St. Peter am Perlach). Hún var reist síðla á 12.öld beint fyrir aftan Perlachturninn og eru byggingarnar samfastar. Perlachturninn var þá meðal annars notaður sem klukkuturn fyrir Péturskirkjuna. Í siðaskiptunum fékk kirkjan að vera nokkurn veginn í friði fyrir múgnum. Þar af leiðandi eru í henni nokkur gömul listaverk. Þegar Ágsborg var innlimað Bæjaralandi 1806, vildu Bæjarar rífa kirkjuna. En íbúar stofnuðu samtök henni til verndar og náðu að bjarga henni. Það var þó ekki fyrr en 1913 að stjórn Bæjaralands gaf út formlegan samning þess efnis að kirkjan fengi að standa. Péturskirkjan stórskemmdist í loftárásum 1944. Viðgerðir fóru þegar fram og lauk þeim 1954. Kirkjan er pílagrímskirkja í kaþólskum sið og er starfrækt af Jesúítum. Mesta listaverk kirkjunnar er málverkið María hnútaleysir (Maria Knotenlöserin), sem var málað af Hieronymus Langenmantel árið 1700.

Heimildir

breyta