P.C. Knudtzon (19. mars 1789- 17. nóvember 1864) var stórkaupmaður og athafnamaður í Reykjavík og í Kaupmannahöfn. Hann fæddist í Kristiansund og ólst upp í Slésvík og fluttist með fjölskyldu sinni árið 1780 til Noregs. Faðir hans Nikolai Henrik Knudtzon var einn umsvifamesti kaupmaðurinn í Kristiansund um 1800. P.C. Knudtzon var tvíkvæntur, fyrri kona hans var frænka hans Marie Thomsen (1.10.1788-25.7.1831) og seinni kona hans var Lucinde Gotschalck (17.3.1818-12.12.1888). Hann erfði Norðborgarverslun tengdaföður síns Thomsens kaupmanns frá Als. Peter Christian Knudtzon var kallaður grósserinn og var ásamt Carl Franz Siemsen og Ditlev Thomsen í hópi umsvifamestu kaupmanna í Reykjavík kringum 1815.

Peter Christian Knudtzon

Knudtzon lét reisa tvær myllur í Reykjavík til að mala rúgmjöl. Var önnur þeirra reist árið 1830 við Hólavelli (Suðurgötu 20) en hin sem var kölluð hollenska myllan reist á horni Bakarastígs, (nú Bankastræti) og Þingholtsstrætis árið 1847. Hólavallamyllan var rifin um 1880 og hollenska myllan árið 1902. Árið 1892 keypti Jón Þórðarson kaupmaður lóðina það sem hollenska myllan stóð og reisti á henni hús úr grágrýti sem er Þingholtsstræti 1. Knudtzon kom bökunarofni fyrir í einni af húsum sínum í Þingholtinu og fékk til landsins bakara af þýskum ættum sem hét Tönnies Daniel Bernhöft og var fæddur árið 1797. Bernhöft veitti bakaríinu forstöðu og keypti það seinna.

Knudtzon keypti Krýsuvík árið 1833 og seldi aftur 1835 en fyrirætlanir munu hafa verið um að vinna þar brennistein.

Jón Sigurðsson flutti til Reykjavíkur 1829 og bjó hjá föðurbróður sínum Einari Jónssyn borgara en Einar var verslunarstjóri hjá P. C. Knudtzon. Jón var búðarstrákur hjá frænda sínum í eitt ár. Sumarið 1840 stóð Jón Sigurðsson í ritdeilu á síðum Kaupmannahafnarblaða við P. C. Knudtzon, þar sem Jón krafðist fullkomins verslunarfrelsis fyrir íslendinga og voru það fyrstu pólitísku afskipti Jóns.

Sonur Knudtzon tók við versluninni en seldi Landsbankanum eigurnar á Íslandi 1895.

Heimildir

breyta