Carl Franz Siemsen var kaupmaður í Reykjavík. Hann rak verslun í Reykjavík en flutti síðan til Hamborgar og þá tók bróðir hans Edvard við rekstrinum og rak verslunina til ársins 1878. Edvard giftist Sigríði Þorsteinsdóttur.

Carl Franz og kona hans Caroline voru frá Slesvík og fædd í Glücksborg. Carl Franz Siemsen rak póstferðir milli Íslands og Danmerkur á árunum 1840-1845.

Carl Franz byggði Siemsenshús (síðar Hafnarstræti 23) árið 1839. Það stóð norðan Hafnarstrætis og við hlið þess rann lækurinn til sjávar. Siemsenshús var rifið árið 1974.

Fyrsta dæmið um notkun einkamyntar eða verðmerkja á íslandi er árið 1846 en það eru vörupeningar sem gefnir voru út af Carl Franz Siemsen en hann verslaði einnig í Færeyjum og giltu sömu peningar þar. [1]

Carl Franz Siemsen var umboðsmaður fyrir ýmsa erlenda vísindamenn og söfn. Árið 1844 var honum falið að ná í geirfugl og bauð hann bændum í Höfnum 300 krónur fyrir dauðan eða lifandi geirfugl. Það varð til þess að 4. júní 1844 fóru fjórir af stað til Eldeyjar og sáu þar tvo geirfugla sem sátu á klettasnös og sneru þá úr hálsliðnum. [2]

Tenglar breyta

Tilvísanir breyta

  1. Íslenskur einkagjaldmiðill og ýmis greiðsluform – Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 01.01.1988, Bls. 199-222
  2. Geirfuglinn, Lesbók Morgunblaðsins, 13. tölublað (03.04.1949)