Robert Walpole
Robert Walpole, 1. jarlinn af Orford, (26. ágúst 1676 – 18. mars 1745), kallaður Sir Robert Walpole til ársins 1742, var breskur stjórnmálamaður sem er venjulega talinn fyrsti forsætisráðherra Bretlands. Deilt er um það hvenær hann komst til áhrifa en yfirleitt er talað um að valdatíð hans spanni árin 1721–42. Walpole gegndi embætti forsætisráðherrans lengur en nokkur annar. Sagnfræðingurinn W. A. Speck sagði um Walpole:
Robert Walpole | |
---|---|
Forsætisráðherra Bretlands | |
Í embætti 4. apríl 1721 – 11. febrúar 1742 | |
Þjóðhöfðingi | Georg 1. Georg 2. |
Eftirmaður | Jarlinn af Wilmington |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 26. ágúst 1676 Houghton, Norfolk, Englandi |
Látinn | 18. mars 1745 (68 ára) Middlesex, Englandi, Bretlandi |
Stjórnmálaflokkur | Viggar |
Maki | Catherine Shorter (g. 1700; d. 1737) Maria Skerret (g. 1738; d. 1738) |
Börn | 6, þ. á m. Robert, Edward og Horace |
Foreldrar | Robert Walpole og Mary Burwell |
Starf | Aðalsmaður, stjórnmálamaður |
Þekktur fyrir | Að vera fyrsti forsætisráðherra Bretlands |
Undirskrift |
20 ára stjórnartíð hans er jafnan með réttu talin eitt mesta afrek í breskri stjórnmálasögu... Stundum er hún útskýrð með því hve snilldarlega hann meðhöndlaði stjórnarkerfið eftir árið 1720, [og] með því hvernig hann blandaði á einstakan hátt saman þeim völdum sem krúnan átti eftir og hinum síauknu völdum alþýðuþingsins.[1]
Walpole var úr röð Vigga og úr landeignarstéttinni en hann gekk fyrst á breska þingið árið 1701 og gegndi mörgum ábyrgðarembættum. Hann var úr lágaðlinum og sótti stuðning sinn til hástéttarmanna af landsbyggðinni. Sagnfræðingurinn Frank O'Gorman sagði um Walpole að forysta hans á þinginu hafi einkennst af „orðræðu sem bar vott um skynsemi og sannfæringarkraft, getu hans til að hrófla bæði við hug og tilfinningum manna, og umfram allt af undraverðu sjáfstrausti hans.“[2] Stefnumál Walpole voru hófsöm á flestan hátt: hann einbeitti sér að friði, lægri sköttum og auknum útflutningi auk þess sem hann leyfði aukið andóf af hálfu mótmælenda. Hann forðaðist deilumál og miðvegurinn sem hann tróð laðaði til hans fjölda hófsemismanna úr röðum Vigga og Íhaldsmanna.[3] Harry T. Dickinson sagnfræðingur segir um Walpole:
Walpole var einn mesti stjórnskörungur í sögu Bretlands. Hann lék lykilhlutverk í því að viðhalda flokki Vigganna, gæta erfðaraðar Hanover-ættarinnar og verja gildi dýrlegu byltingarinnar. ... Hann kom Viggunum í lykilstöðu í breskum stjórnmálum og kenndi síðari ráðherrum hvernig átti að stofna til vinnusambands milli krúnunnar og þingsins.[4]
Tilvísanir
breyta- ↑ W.A. Speck, Stability and Strife: England 1714–1760 (1977) p 203
- ↑ Frank O'Gorman, The Long Eighteenth Century: British Political and Social History 1688–1832 (1997) p 71
- ↑ Julian Hoppit, A Land of Liberty? England 1689–1727 (2000) p 410
- ↑ H. P. Dickinson, "Walpole, Sir Robert," in David Loads, editor, Readers Guide to British History (2003) p 1338
Fyrirrennari: Fyrstur í embætti |
|
Eftirmaður: Jarlinn af Wilmington |