Opinberun Hannesar
Opinberun Hannesar er kvikmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson byggð á smásögu Davíðs Oddssonar, Glæpur skekur húsnæðisstofnun. Kvikmyndin vakti mikla athygli og varð fyrir mikilli gagnrýni. Hún er jafnvel talin hafa komið óbeint við sögu við einkavæðingu Landsbankans.
Opinberun Hannesar | |
---|---|
Leikstjóri | Hrafn Gunnlaugsson |
Handritshöfundur | Hrafn Gunnlaugsson |
Leikarar | |
Frumsýning | 1. janúar, 2004 (sjónvarpi) |
Lengd | 84 mín. |
Tungumál | íslenska |
Aldurstakmark | L |
Opinberun Hannesar og styrkirnir
breytaMikill fyrirgangur var við fjármögnun myndarinnar frá upphafi. Kvikmyndasjóður var á þessum árum undir stjórn Þorfinns Ómarssonar og undir stjórn hans hafnaði Kvikmyndasjóður fjárstuðningi við myndina þegar sótt var um 60 milljón króna styrk.[1] Stuttu síðar rak þáverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, Þorfinn úr starfi, en hann var síðan ráðinn á ný eftir að sérskipuð nefnd hafði fjallað um málið.[2] Þorfinnur veitti þó styrk til gerðar Opinberunar Hannesar rétt fyrir afsögn sína og var sá styrkur 22 milljónir. Sú styrkveiting fór fyrir Ríkisendurskoðanda.[3] Seinna sama ár var Kvikmyndasjóður lagður niður og stofnuð var Kvikmyndamiðstöð Íslands og auglýst eftir nýjum forstöðumanni en Laufey Guðjónsdóttir var ráðin í starfið haustið 2003.
Um líkt leyti komu Björgólfur Guðmundsson og sonur hans, Björgólfur Thor til sögunnar og styrktu myndina um 10 milljónir króna til viðbótar. Þetta var á sama tíma og Davíð Oddsson, höfundur sögunnar sem myndin er unnin eftir, var að velja sér kaupanda að Landsbankanum.[4] Fór lítið fyrir þessari staðreynd í aðdraganda einkavæðingarinnar. Styrkurinn var sagður fjárfesting á dreifingarrétti myndarinnar í Þýskalandi.[5] Auk alls þessa keypti Ríkissjónvarpið sýningarréttinn á 10 milljónir.
Þegar hinir ýmsu álitsgjafar fóru í saumana á myndinni, eftir að hún var frumsýnd, þótti flestum þeirra sem myndin hefði kostað öllu minna en framleiðendur höfðu fengið til gerðar hennar.
Gagnrýni
breytaMyndin var smá í sniðum; tekin á litla handhæga tökuvél, lýsing lítil sem engin og leikarar fáir. Þótti mörgum þessar staðreyndir renna stoðum undir þá kenningu að myndin væri í heild sinni ekki dýr og hefði verið meira en ofgreitt fyrir hana af almannafé. Þá vakti það undrun að hún var sýnd í Ríkissjónvarpinu daginn áður en hún var frumsýnd í kvikmyndahúsum sem var líklega aðalástæðan fyrir að hún fékk litla sem enga aðsókn. Myndin varð fyrir mikilli gagnrýni. Hún þótti einstaklega lítilfjörleg, gagnrýnendur voru á einu máli og þótti lítið til myndarinnar koma, nema Sæbjörn Valdimarsson, kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins, sem var mjög hrifinn og gaf henni þrjár stjörnur.[6] Hallgrímur Helgason skrifaði nokkrum dögum síðar:
- Á nýársdagskvöld var frumsýnd í Ríkissjónvarpinu kvikmyndin Opinberun Hannesar og daginn eftir hafði þeim á Mogganum tekist að finna mann sem var tilbúinn að fórna mannorði sínu og gefa myndinni þrjár stjörnur.[7]
Hrafn um Opinberun Hannesar
breytaÍ viðtali við Fréttablaðið árið 2007 tjáði Hrafn sig um Opinberun Hannesar. Hann sagði orðrétt:
- Mér finnst Opinberun Hannesar frábær mynd, kannski ein besta mynd sem ég hef gert. Í sérhverri mynd reynir maður að fara einhverja aðra og ögrandi leið. Þarna vildi ég gera mynd sem byrjaði eins og venjuleg mynd en færi síðan smátt og smátt að líta út eins og fréttamynd, eða raunveruleikaþáttur; myndavélin hristist, fór úr fókus, hljóðtruflanir og allur skollinn. Ég hef líklega aldrei legið jafn mikið yfir hljóðinu í nokkurri mynd til að fá þessi truflandi áhrif, þar sem hljóðið er skýrt en allt í einu sundrast það nánast.[8]
Tilvísanir
breyta- ↑ Þorfinnur segir ráðherra ofsækja sig; grein í Fréttablaðinu 2003
- ↑ Framkvæmdastjóri snýr tvíefldur aftur; grein í Fréttablaðinu 2002
- ↑ Niðurstöður væntanlegar; grein í Fréttablaðinu 2003
- ↑ Er eftirlit með Hrafni Gunnlaugssyni nægilegt?; af Logs.is
- ↑ Fréttir af fólki; grein í Fréttablaðinu 2004
- ↑ Völd og veifiskatar; grein í Morgunblaðinu 2004
- ↑ Jónastríðið; grein í Fréttablaðinu 2004
- ↑ Hugsa aldrei um áhorfendur; grein í Fréttablaðinu 2008
Tenglar
breyta- Opinberun Hannesar; af IMDB
- Frelsið skal verja með boðum og bönnum; grein í Morgunblaðinu 2003
- Enn ágreiningur um uppgjör Opinberunar; grein í Fréttablaðinu 2004
- Villimaður í viðjum blómlegs eftirlitsiðnaðar; grein í Fréttablaðinu 2003
- Opinberun Hannesar; grein í Fréttablaðinu 2004
- Davíð var sagður höfundur handrits; grein í Fréttablaðinu 2003
- Sjónvarpssamningur við Hrafn er í óvissu; grien í Fréttablaðinu 2003
- Óskað eftir að Hrafn skili inn uppgjöri; grein í Fréttablaðinu 2004
- Vond opinberun; grein í Fréttablaðinu 2008