Franska nýbylgjan
Franska nýbylgjan (franska: Nouvelle Vague) er heiti á hreyfingu í franskri kvikmyndagerð á 6. og 7. áratug 20. aldar sem var að hluta til undir áhrifum frá ítalska nýraunsæinu. Það sem einkenndi frönsku nýbylgjuna var höfnun á hefðbundnum frásagnaraðferðum kvikmyndarinnar og meðvituð brot á þeim reglum sem gilt höfðu í kvikmyndagerð fram að því (t.d. að leikarinn mætti ekki horfa beint í vélina og reglur um lengd milli klippinga). Margir af þekktustu leikstjórum frönsku nýbylgjunnar, s.s. Jean-Luc Godard, François Truffaut, Éric Rohmer, Claude Chabrol og Jacques Rivette, störfuðu sem gagnrýnendur fyrir tímaritið Cahiers du cinéma. Þeir litu á kvikmyndina sem höfundarverk með ákveðin höfundareinkenni, á sama hátt og skáldsagan.