Nýaldartónlist er tónlistarstefna sem á rætur að rekja til hugleiðslu og þeirrar hugmyndafræði að allt í heiminum sé tengt á einhvern hátt. Einnig er tónlistarstefnan oft tengd við heimspeki nýaldarstefnunnar (e. New Age spirituality) sem varð til á Vesturlöndum á seinni hluta tuttugustu aldarinnar. Markmiðið með tónlistinni er að skapa ró og seiðandi andrúmsloft. Hljómsveitir tíðkast ekki í þessum bransa, heldur eru það stakir tónlistarmenn sem gera allt og eru plötur eftir þá oft spilaðar til að róa taugarnar í jóga, nuddi, hugleiðslu og lestri. Einnig trúa sumir að tónlist af þessu tagi sé afar hjálpleg og veiti ekki aðeins listræna fullnægingu, heldur geti einnig hjálpað til við alls kyns lækningar og meðferðir.

Þá er einnig mikill fjöldi fólks sem vill aðeins hlusta á nýaldartónlist sér til skemmtunar og yndisauka og til að slaka á heima við. Lög sem samin eru undir áhrifum stefnunnar eru oft tileinkuð náttúrunni og eiga að tákna einhvers konar svaðilfarir um náttúruna. Ekki er óalgengt að plötutitlar lýsi einhvers konar ferðum og hugtök eins og Máninn, lífið og andar eru algeng í nöfnum verkanna. Notkun hljóðfæra er sérstök á þann hátt að næstum allt virðist leyfilegt. Hægt er að heyra í öllu frá blokkflautu til hljóðgervla og stundum er þessu tvennu jafnvel blandað saman. Söngur hefur lengi vel ekki tíðkast í nýaldarlögum en þó hafa söngraddir orðið vinsælli á síðastliðnum árum. Þá líkist söngurinn oft eins konar kyrjun frumbyggja eða sækir innblástur í goðafræði Kelta og Engilsaxa. Svo virðist sem lengd skipti litlu máli og geta einstök lög orðið hálftími eða jafnvel meira að lengd.

Tónlistin er oft tengd við hina svokölluðu Nýaldarstefnu en það er bæði trúarleg og félagsleg stefna sem fer mjög gegn kristni og siðum hennar. Stefnan er einhvers konar samblanda austurlenskra trúarbragða svo sem hindúisma og búddisma og vestrænna fræða um hið yfirnáttúrulega. Ummerki eru um þessa stefnu frá 18. og 19. öld en hún náði fyrst miklum vinsældum á 7. áratug síðustu aldar.

Uppruna nýaldartónlistarstefnunnar má rekja til fjölmargra ólíkra stefna. Ef hlustað er á margar plötur eftir marga mismunandi tónlistarmenn gæti stefnan vel virðst vera ekkert annað en rólegur hrærigrautur allra þeirra stefna sem komu á undan. Það er vegna þess að notast er við svo mörg mismunandi hljóðfæri og svo fá allir tónlistarmennirnir innblástur frá mismunandi stefnum og flytjendum. Nýaldartónlist er komin af allavega fimmtán mismunandi tónlistarstefnum og þær gætu vel verið fleiri.

Erfitt er að segja til um nákvæmlega hvenær Nýaldartónlist kom fyrst inn á markaðinn. Þó er ein plata sem oft er sögð marka upphaf stefnunnar en sú plata kallast Spectrum Suite eftir Steven Halpern. Þeirri niðurstöðu gæti hafa verið náð vegna þess að þetta var ein fyrsta platan sem gekk út á fagrar og róandi laglínur, spilaðar í algeru taktleysi. Þó taktinn vantaði, flokkaðist þetta safn nótna undir tónlist og platan var sett í nýaldarflokkinn.

Skilgreining

breyta

Nýaldartónlist er ekki skilgreind út frá þeim hljóðfærum sem notast er við, heldur er frekar litið á tilfinningarnar sem tónlistin vekur innra með hlustandanum. Hún getur annað hvort verið spiluð á strengjahljóðfæri, rafhljóðfæri, blásturshljóðfæri eða allt í einu. Oftast eru listamennirnir einir á ferðum en stundum para þeir sig saman og sumir nýta sér heilu sinfóníuhljómsveitirnar til að spila verk sín. Hljóðfæri sem notuð eru ná frá klassískum hljóðfærum á borð við fiðlu og píanó, til alls kyns rafhljóðfæra og framandi, austurlenskra hljóðfæra eins og sítars og tabla. Tónlistarmenn af þessari stefnu sækja innblástur í alls kyns öðruvísi stefnur. Þar á meðal eru klassísk tónlist, raftónlist, framsækið rokk, sýrurokk, djass og nýbylgjutónlist sem allt eru mjög ólíkar tónlistarstefnur.

Iðkun

breyta

Þó nýaldartónlist sé samin og spiluð um allan heim eru tvö lönd sem standa upp úr í iðkunn hennar. Annars vegar er það Írland sem er vel skiljanlegt þar sem trúarbrögð nýaldarsinna eiga rætur sínar að rekja þangað og einnig þar sem alls kyns írskir söngvar og kyrjanir eru höfð til fyrirmyndar í söng nýaldartónlistar. Einnig er þaðan einn þekktasti tónlistarmaður stefnunnar. Sá tónlistarmaður, eða tónlistarkona öllu heldur, kallast Enya og er fædd og uppalin Gweedore á Írlandi í fjölskyldu tónlistarfólks. Lög hennar hafa meðal annars verið spiluð í hinum vinsæla þríleik Peters Jackson, Hringadróttinssögu. Enya hefur einnig unnið fern Grammy-verðlaun fyrir bestu nýaldarplötuna en það er besti árangur nýaldartónlistamanns fyrir utan hinn Bandaríska Paul Winter, sem hefur líka unnið fern verðlaun með hljómsveit sinni auk þess að hafa unnið tvenn einsamall.

Hins vegar eru það Bandaríkin þar sem langmest er gefið út af nýaldarplötum. Einnig hafa bandaríkjamenn hreppt nítján Grammy-verðlaun af tuttugu og sjö sem hafa verið afhent. Auk þess býr Kitaro, einn virtasti austurlenski listamaður stefnunnar þar og er einn af þeim sem geta kallast frumkvöðlar nýaldartónlistarstefnunnar.

Heimildir

breyta