Níkol Pasjínjan
Níkol Vovají Pasjínjan (armenska: Նիկոլ Վովայի Փաշինյան; f. 1. júní 1975) er armenskur stjórnmálamaður og blaðamaður sem hefur verið forsætisráðherra Armeníu frá 8. maí 2018. Hann komst til valda eftir armensku „flauelsbyltinguna“ árið 2018. Stjórnartíð Pasjínjans hefur einkum einkennst af áframhaldandi átökum Armeníu við nágrannaríkið Aserbaísjan. Ríkin tvö háðu stríð sín á milli árið 2020 um umdeilt landsvæði í Nagornó-Karabak sem endaði með ósigri Armena.
Níkol Pasjínjan | |
---|---|
Նիկոլ Փաշինյան | |
Forsætisráðherra Armeníu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 8. maí 2018 | |
Forseti | Armen Sarkíssían Alen Símonjan (starfandi) Vahagn Khatsjatúrjan |
Forveri | Karen Karapetjan (starfandi) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 1. júní 1975 Ijevan, armenska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum |
Þjóðerni | Armenskur |
Stjórnmálaflokkur | Borgarasambandið |
Maki | Anna Hakobjan |
Börn | 4 |
Háskóli | Ríkisháskólinn í Jerevan |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaÁrið 2008 vakti Pasjínjan þjóðarathygli þegar hann leiddi fjöldamótmæli á móti kjöri Sersj Sargsjans á forsetastól Armeníu. Ofbeldi braust út í mótmælunum sem kostuðu tíu manns lífið. Í kjölfarið fór Pasjínjan í felur í eitt ár en gaf sig síðan fram og var ákærður fyrir morð. Árið 2011 var honum veitt friðhelgi. Hann hélt í kjölfarið áfram að leiða mótmælahreyfingar gegn spillingu og gölluðu lýðræði í Armeníu og var kjörinn á armenska þingið árið 2011.[1]
Við upphaf ferils síns í stjórnmálum hafði Pasjínjan verið stuðningsmaður Levons Ter-Petrosjan, fyrsta forseta Armeníu, en hann snerist síðar gegn honum og stofnaði eigin stjórnmálaflokk, Borgarasambandið.[2] Pasjínjan varð leiðtogi Yelk-bandalagsins, bandalags stjórnarandstöðuflokka sem hlaut níu þingsæti af 105 eftir þingkosningar árið 2017.[1]
Í apríl árið 2018 brutust út mótmæli á ný þegar Sersj Sargsjan, sem hafði þá gegnt tveimur kjörtímabilum sem forseti, gerðist forsætisráðherra til þess að halda völdum. Árið 2015 hafði stjórnarskrá Armeníu verið breytt til að færa mestallt framkvæmdavaldið frá forseta til forsætisráðherra og þings.[3] Sargsjan hafði lofað því að með þessum breytingum væri hann ekki að leggja grunn að lengdri valdasetu sinni og því vakti það mikla reiði almennings þegar hann var tilnefndur forsætisráðherra.[2]
Mótmælin 2018 urðu sú fjölmennustu í Armeníu frá árinu 1988 og Pasjínjan steig fram sem sýnilegasti leiðtogi og helsti skipuleggjandi þeirra. Mótælin, sem hlutu nafnið „flauelsbyltingin“, leiddu til þess að Sargsjan neyddist til að segja af sér[4] og flokkur hans, Lýðveldisflokkurinn, var nauðbeygður til að tilnefna Pasjínjan nýjan forsætisráðherra þrátt fyrir að flokkur hans hefði ekki mörg sæti á þinginu.[2] Þegar armenska þingið greiddi atkvæði um tilnefningu Pasjínjans í embætti forsætisráðherra þann 1. maí var honum hafnað, sem reitti mótmælendur mjög til reiði.[5][6][7] Þegar þingið kaus aftur um tilnefningu Pasjínjans þann 8. maí var hún samþykkt með 59 atkvæðum gegn 42 og Pasjínjan varð þannig forsætisráðherra Armeníu.[8][9]
Eftir að Pasjínjan tók við stjórnartaumunum boðaði hann til kosninga til að styrkja stöðu sína á þinginu. Í kosningunum, sem fóru fram í desember 2018, vann flokkur Pasjínjans stórsigur og hlaut ríflega 70 prósent atkvæða. Lýðveldisflokkur Sargsjans féll hins vegar út af þingi.[10]
Átök við Aserbaísjan
breytaÍ september árið 2020 brutust út hernaðarátök milli Armeníu og nágrannaríkisins Aserbaísjan um héraðið Nagornó-Karabak, sem er innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Aserbaísjans en er byggt Armenum sem stjórna sér sjálfir í hinu óviðurkennda Artsak-lýðveldi. Stríðið stóð í um sex vikur og kostaði alls um 6.000 mannslíf, bæði Armena og Asera, hermanna og óbreyttra borgara.[11] Armenum gekk ekki vel í hernaðinum gegn Aserum og því neyddist Pasjínjan í nóvember til að undirrita samning um vopnahlé með milligöngu Rússa þar sem Armenar urðu að láta af hendi talsvert af landi til Asera.[12]
Samþykkt Pasjínjans á vopnahléinu olli verulegri ólgu í Armeníu og margir Armenar úthrópuðu Pasjínjan sem „svikara“ fyrir að láta undan kröfum Asera.[13] Í febrúar 2021 gagnrýndu æðstu yfirmenn armenska hersins Pasjínjan fyrir að skella skuldinni af ósigrinum alfarið á herinn og hvöttu Pasjínjan til að segja af sér.[12] Pasjínjan neitaði að verða við þeirri kröfu, sakaði herinn um að reyna að fremja valdarán gegn sér og vék Oník Gasparjan, yfirmanni hersins, úr embætti.[14]
Vegna spennu og óvissu í kjölfar ósigursins gegn Aserbaísjan boðaði Pasjínjan til nýrra kosninga þann 20. júní 2021.[15] Þegar kosningarnar voru haldnar náði ríkisstjórn Pasjínjans að halda meirihluta sínum á þingi, en kosningaþátttaka var mjög dræm.[16]
Mannskæð átök brutust aftur út milli Armeníu og Aserbaísjans í september 2022 og Pasjínjan sakaði Asera um að hafa hernumið hluta landsins eftir umfangsmiklar og mannskæðar árásir. Pasjínjan biðlaði jafnframt til Sameiginlegu öryggissáttmálastofnunarinnar, varnarbandalags fyrrum sovétlýðvelda, að hjálpa til við að tryggja fullveldi Armeníu og reka Asera á brott.[17] Pasjínjan gagnrýndi Rússa vegna skorts á stuðningi þeirra við Armeníu í maí 2023 og sagði að til greina kæmi að Armenía segði sig úr Sameiginlegu öryggissáttmálastofnuninni.[18]
Aserbaísjan lagði Artsak-lýðveldið alfarið undir sig undir lok ársins 2023.[19] Pasjínjan kenndi Rússum um ósigurinn og sagði þá hafa vanrækt varnarbandalag sitt við Armeníu í átökunum við Aserbaísjan.[20] Pasjínjan lét frysta aðild Armeníu að Sameiginlegu öryggissáttmálastofnuninni í febrúar 2024.[21]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Þórgnýr Einar Albertsson (3. maí 2018). „Enn skekur mótmælaaldan Armeníu“. Fréttablaðið. bls. 12.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Atli Ísleifsson (18. nóvember 2018). „Segir andrúmsloftið í Armeníu nú minna á það í kringum fall Sovétríkjanna“. Vísir. Sótt 14. september 2022.
- ↑ „Armenía: Friðsamleg mótmæli leiddu til stjórnarskipta á þingi“. Varðberg. 18. nóvember 2018. Sótt 14. september 2022.
- ↑ Þórgnýr Einar Albertsson (24. apríl 2018). „Karapetjan tekur við af Sargsjan“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. september 2022. Sótt 12. nóvember 2022.
- ↑ Þórgnýr Einar Albertsson (2. maí 2018). „Þingið hafnaði Níkol Pasjinjan“. Vísir. Sótt 14. september 2022.
- ↑ „Armenska þingið hafnaði Pashinyan“. mbl.is. 1. maí 2018. Sótt 14. september 2022.
- ↑ „Önnur tilraun í Armeníu 8. maí“. mbl.is. 2. maí 2018. Sótt 14. september 2022.
- ↑ „Pashinyan kjörinn forsætisráðherra“. mbl.is. 8. maí 2018. Sótt 14. september 2022.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (8. maí 2022). „Pashinjan kjörinn forsætisráðherra“. RÚV. Sótt 14. september 2022.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (14. janúar 2019). „Pashinyan skipaður forsætisráðherra“. RÚV. Sótt 16. september 2022.
- ↑ „Átök brjótast út að nýju í Nagornó-Karabak“. mbl.is. 12. desember 2020. Sótt 16. september 2022.
- ↑ 12,0 12,1 Kristján Róbert Kristjánsson (25. febrúar 2021). „Allt á suðupunkti í Armeníu“. RÚV. Sótt 16. september 2022.
- ↑ Gunnar Reynir Valþórsson (12. nóvember 2018). „Forsætisráðherra Armena úthrópaður sem svikari“. Vísir. Sótt 12. nóvember 2022.
- ↑ Atli Ísleifsson (2. mars 2021). „Pashinyan kveðst reiðubúinn að flýta kosningum“. Vísir. Sótt 14. september 2022.
- ↑ Atli Ísleifsson (18. mars 2021). „Pashinyan boðar til kosninga“. Vísir. Sótt 14. september 2022.
- ↑ Árni Sæberg (20. júní 2021). „Pashinyan heldur velli í Armeníu“. Vísir. Sótt 14. september 2022.
- ↑ Samúel Karl Ólason (14. september 2022). „Armenar leita eftir hjálp“. Vísir. Sótt 16. september 2022.
- ↑ „Telur Rússland hafa vanrækt skyldur sínar“. mbl.is. 22. maí 2022. Sótt 29. maí 2022.
- ↑ „Uppfyllti „drauminn" um að hrekja Armena á brott“. mbl.is. 15. október 2023. Sótt 15. október.
- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (25. september 2023). „Forsætisráðherra hótar að leita nýrra bandamanna í stað Rússa“. RÚV. Sótt 8. febrúar 2024.
- ↑ Freyr Rögnvaldsson (23. febrúar 2024). „Armenar fjarlægja sig enn frekar frá Moskvuvaldinu“. Samstöðin. Sótt 24. febrúar 2024.
Fyrirrennari: Karen Karapetjan (starfandi) |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |