Mykines er vestust Færeyja og er um 11 km² að flatarmáli. Á eyjunni er samnefnt þorp þar sem hafa búið flestir um 180 manns árið 1925, en nú aðeins um tíu. Sundið á milli Mykiness og Vága kallast Mykinesfjörður. Ferja siglir milli Mykiness og Vága.

Mykinesþorp.
Kort af Mykinesi.
Kort af Færeyjum sem sýnir staðsetningu Mykiness.
Kort af Færeyjum sem sýnir staðsetningu Mykiness.

Byggð breyta

Mykines er fyrst nefnt í heimildum um 1400 en grasafræðingurinn Jóhannes Jóhansen telur að ræktun hafra hafi byrjað í Mykinesi um miðja 7. öld og hafi þar keltneskir einsetumenn og munkar verið að verki. Um 200 árum síðar virðist ræktun byggs hafa hafist með komu norrænna landnámsmanna. Annars voru fiskveiðar og sauðfjárrækt atvinnuvegir eyjarskegga og eitt sinn voru yfir þúsund kindur á eynni. Í Mykinesi hefur orðið mikil fólksfækkun eins og í öðrum úteyjum Færeyja. 61 íbúi var þar árið 1769, 100 árið 1850, 179 árið 1925 og voru þá 27 börn í skólanum, en 1970 hafði íbúum fækkað í um 60 og voru flestir við aldur. Í apríl 1595 herma sagnir að um fimmtíu bátar frá Mykinesi hafi farist í óveðri og með þeim allir uppkomnir karlmenn á eynni.

Byggðin í eynni er öll í einu þorpi, Mykinesi, og hefur svo líklega alltaf verið nema þegar byggð var í Mykineshólma. Í þorpinu eru um fjörutíu hús en aðeins er búið í örfáum að staðaldri og eru íbúarnir nú um tíu talsins. Hin eru þó mörg hver nýtt á sumrin því þá fjölgar íbúum eyjarinnar til muna. Í þorpinu er skólahús, reist 1894, og kirkja sem byggð var 1879. Fyrsta sundlaug í Færeyjum var gerð í Mykinesi 1927 með því að gera stíflu neðan við hyl í á sem rennur gegnum byggðina.

Myndlistarmaðurinn Mikines fæddist í Mykinesi árið 1906 og bjó þar. Vinnustofa hans er nú gistihús, Kristianshús.

Mykineshólmur breyta

Vestur af aðaleynni er hólmi sem heitir Mykineshólmur og er næststærsti hólmur Færeyja, skilinn frá eynni af mjórri gjá, Hólmgjógv. Í hólmanum er geysimikið fuglalíf eins og raunar á allri eynni og er þar eini varpstaður súlu í Færeyjum. Sagt er að ef súlan fyrirfinnst á einni af hinum eyjunum sé hún feig. Súlan kemur til hólmsins þann 25. janúar og dvelur þangað til ungviðið er flugfært, þann 11. nóvember. Á hólminum er einnig lundavarp. Göngubrú er út í hólmann og þar er viti, byggður 1909. Þá hófst byggð í Mykineshólma og voru þar mest 22 íbúar en þeir síðustu fluttu þaðan 1970, þegar vitinn varð sjálfvirkur. Vitinn er 14 metra hár og stendur á 113 metra háu bjargi.

Flugslysið 1970 breyta

Austan til á eynni er fjallið Knúkur (560 m). Þar fórst Fokker F27-flugvél Flugfélags Íslands 26. september 1970 og með henni átta manns, þar á meðal flugstjórinn, en 26 björguðust, sumir illa slasaðir. Þrír færeyskir farþegar sem sluppu lítt meiddir gengu klukkutíma leið um óbyggt fjallendi að Mykinesþorpi til að gera viðvart. Fóru þá flestir íbúar þorpsins á slysstað til að liðsinna slösuðum en björgunarþyrla komst ekki strax á vettvang vegna þoku.[1][2][3][4][5]

Heimildir breyta

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Mykines“ á færeysku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. apríl 2011.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Mykineshólmur“ á færeysku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. apríl 2011.
  • „Brot úr søgu Mykinesar. Á heimasíðu Kristianshúss, skoðað 6. apríl 2011“.

Tilvísanir breyta