Mehmed 5.

(Endurbeint frá Mehmed V)

Mehmed 5. Reşâd (محمد خامس Meḥmed-i ẖâmis á Ottómantyrknesku) (2. nóvember 1844 – 3. júlí 1918) var 35. og næstsíðasti soldán Tyrkjaveldis. Hann var sonur Abdúl Mejid 1. soldáns.[1] Á eftir honum gerðist hálfbróðir hans, Mehmed 6., Tyrkjasoldán. Á níu árum hans á valdastól glataði Tyrkjaveldi öllum landsvæðum sínum í Norður-Afríku og Tylftareyjum (þ. á m. Ródos) í stríði Tyrkja við Ítali og svo næstum öllu landsvæði veldisins í Evrópu vestan við Konstantínópel í fyrra Balkanstríðinu og fyrri heimsstyrjöldinni, sem átti eftir að leiða til hruns Tyrkjaveldisins fáeinum árum eftir að Mehmed lést.[2]

Skjaldarmerki Ósman-ætt Tyrkjasoldán
Ósman-ætt
Mehmed 5.
Mehmed 5.
محمد خامس
Ríkisár 27. apríl 19093. júlí 1918
SkírnarnafnBeşinci Mehmet Reşat
Fæddur2. nóvember 1844
 Topkapı-höll, Istanbúl
Dáinn3. júlí 1918 (73 ára)
 Yıldız-höll, Istanbúl
GröfGrafhýsi Reşad soldáns, Eyüp, Istanbúl
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Abdúl Mejid 1.
Móðir Gülcemal Kadın
BörnŞehzade Mehmed Ziyaeddin, Şehzade Mahmud Necmeddin, Şehzade Ömer Hilmi, Refia Sultan

Æviágrip

breyta

Mehmed fæddist í Topkapıhöll í Konstantínópel.[3] Líkt og aðrir hugsanlegir ríkiserfingjar var hann alinn upp í kvennabúri hallarinnar fyrstu þrjátíu ár ævi sinnar. Í níu af þessum árum var hann alveg einangraður. Á þessum tíma fræddi hann sig um gamla persneska ljóðlist og varð sjálfur virt ljóðskáld. Á níunda afmælisdegi sínum var hann umskorinn við athöfn í sérstöku umskurðarherbergi í Topkapıhöll.

Valdatíð

breyta

Mehmed varð soldán þann 27. apríl árið 1909 en aðeins sem táknrænn leiðtogi án verulegra valda vegna breytinga sem komið hafði verið á eftir Ungtyrkjabyltingina árið 1908 og valdarán „pasjanna þriggja“ árið 1913.

Í valdatíð Mehmeds glataði Tyrkjaveldi öllum landsvæðum sem það átti eftir í Norður-Afríku (Tripolitaniu, Kýrenæku og Fezzan) til ítalska konungdæmisins í stríði við Ítali og nærri öllum evrópskum landsvæðum sínum (fyrir utan landskika vestan við Konstantínópel) í fyrra Balkanstríðinu.

Það mikilvægasta sem Mehmed gerði í stjórnmálum var að lýsa yfir jihadi gegn Bandamönnum þann 14. nóvember 1914 eftir að stjórn Tyrkjaveldis ákvað að ganga inn í fyrri heimsstyrjöldina í bandalagi við Miðveldin.[4] Þó var sagt að Mehmed væri sjálfur ekki hrifinn af vinahótum Enver Pasja hermálaráðherra við Þjóðverja.[5]

Þetta var í síðasta sinn sem viðurkenndur kalífi lýsti yfir jihadi, en kalífadæmi Tyrkjaveldis entist til ársins 1924. Yfirlýsing Mehmed hafði engin sýnileg áhrif á stríðið þótt fjölmargir múslimar byggju á þeim svæðum þar sem barist var. Múslimar tóku lítt alvarlega þá hugmynd að þátttaka í stríði kristinna þjóða gæti talist heilagt stríð. Arabar gengu jafnvel til liðs við Breta í stríðinu gegn Tyrkjum í uppreisn árið 1916.

Mehmed 5. var gestgjafi bandamanns síns, Vilhjálms 2. Þýskalandskeisara, í Konstantínópel þann 15. október árið 1917. Hann var gerður marskálkur Prússlands þann 27. janúar 1916 og þýska keisaradæmisins þann 1. febrúar 1916.

Dauði

breyta

Mehmed 5. lést í Yıldız-höll þann 3. júlí 1918, þá 73 ára að aldri, aðeins fjórum mánuðum áður en heimsstyrjöldinni lauk.[6] Hann lifði því ekki nógu lengi til að sjá hrun Tyrkjaveldisins. Hann varði meirihluta lífs síns í Dolmabahçe-höll og Yıldız-höll í Istanbúl. Hann er grafinn í Eyüp-hverfi borgarinnar.

Tenglar

breyta

Heimildir

breyta
  1. Abdulmecid, Coskun Cakir, Encyclopedia of the Ottoman Empire, ed. Gábor Ágoston, Bruce Alan Masters, (Infobase Publishing, 2009), 9.
  2. „Rusya Fransa ve İngiltere devletleriyle hal-i harb ilanı hakkında irade-i seniyye [Keisaraleg stríðsyfirlýsing á hendur Rússlandi, Frakklandi og Bretlandi], 11. nóvember, 1914 (29 Teşrin-i Evvel 1330), Takvim-i Vekayi, Nov. 12, 1914 (30 Teşrin-i Evvel 1330)“ (PDF).
  3. The Encyclopædia Britannica, 7. bindi, ritstjóri Hugh Chisholm, (1911), 3; „Constantinople, the capital of the Turkish Empire“.
  4. Lawrence Sondhaus, World War One: The Global Revolution, (Cambridge University Press, 2011), 91.
  5. Chisholm, Hugh, ritstj. (1922).Mahommed V[óvirkur tengill] Encyclopædia Britannica (12. útgáfa). London & New York.
  6. Mehmed V, Selcuk Aksin Somel, Encyclopedia of the Ottoman Empire, 371.


Fyrirrennari:
Abdúl Hamid 2.
Tyrkjasoldán
(1909 – 1918)
Eftirmaður:
Mehmed 6.