Maximilian von Baden

kanslari Þýskalands (1867-1929)
(Endurbeint frá Max von Baden)

Maximilian fursti af Baden (Maximilian Alexander Friedrich Wilhelm; 10. júlí 1867 – 6. nóvember 1929), oft kallaður Max von Baden, var þýskur aðalsmaður, herforingi og stjórnmálamaður. Hann var erfinginn að hertogadæminu Baden og var í stuttan tíma kanslari Þýskalands í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hann sótti um vopnahlé fyrir hönd Þjóðverja í lok styrjaldarinnar í samræmi við fjórtán punkta Woodrows Wilson Bandaríkjaforseta. Til að samræmast punktunum breytti hann þýsku ríkisstjórninni í þingræðisstjórn með því að veita leiðtoga Jafnaðarmanna, Friedrich Ebert, kanslaraembættið og lýsa síðan einhliða yfir afsögn Vilhjálms 2. Þýskalandskeisara þann 9. nóvember 1918. Með þessu var Weimar-lýðveldið stofnað.

Maximilian von Baden
Kanslari Þýskalands
Í embætti
3. október 1918 – 9. nóvember 1918
ÞjóðhöfðingiVilhjálmur 2.
ForveriGeorg von Hertling
EftirmaðurFriedrich Ebert
Persónulegar upplýsingar
Fæddur10. júlí 1867
Baden-Baden, stórhertogadæminu Baden
Látinn6. nóvember 1929 (62 ára) Salem, Þýskalandi
ÞjóðerniÞýskur
MakiMaría Lovísa af Hanover
BörnMaría Alexandra af Baden, Berthold af Baden
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Maximilian fæddist í Baden-Baden og var sonur prússneska furstans og herforingjans Vilhjálms af Baden og konu hans, Maríu von Leuchtenberg. Hann hlaut menntun í anda húmanisma og varð herliði í prússneska hernum á unga aldri. Hann giftist Maríu Lovísu af Hanover, prinsessu af Stóra-Bretlandi og Írlandi, hertogaynju af Braunschweig-Lüneburg, dóttur Þyrí Danaprinsessu og Ernst Ágústs hertoga af Cumberland, krónprinsins af Hanover. Maximilian hætti virkri herþjónustu árið 1911 sem majór-hershöfðingi.

Maximilian var frændi og síðar erfingi hins barnlausa lénsherra hertogadæmisins Baden, Friðriks 2. stórhertoga. Hann tók við af Friðrik sem ættarhöfuð Baden-fjölskyldunnar árið 1928.

Baden gerðist kanslari Þýskalands í stað Georgs von Hertling í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, í október árið 1918. Þjóðverjar höfðu í raun tapað stríðinu og hlutverk Badens var að semja um vopnahlé við bandamenn. Hann var ekki sammála þýsku herforingjunum um það hvernig skyldi staðið að friðarumræðunum en hann þáði þó kanslaraembættið og leiddi fyrstu þýsku ríkisstjórnina með þátttöku stærsta flokksins á ríkisþinginu, Jafnaðarmannaflokksins. Jafnaðarmennirnir Friedrich Ebert og Philipp Scheidemann voru ráðherrar í ríkisstjórn Badens.

Friðarviðræður Baden-stjórnarinnar voru truflaðar af byltingum sem brutust út í Þýskalandi árið 1918. Baden gerði sér grein fyrir því að keisarinn gæti ekki ríkt áfram og til þess að fyrirbyggja sósíalíska byltingu í Þýskalandi lýsti Baden einhliða yfir afsögn keisarans þann 9. nóvember 1918.[1] Eftir afsögn keisarans sagði Baden sjálfur af sér og leyfði Ebert að gerast kanslari í von um að hann myndi eiga auðveldara með að semja við bandamenn. Á sama tíma hafði Scheidemann lýst yfir stofnun lýðveldis í Þýskalandi.

Baden afþakkaði boð Eberts um að gerast ríkisstjóri nýju stjórnarinnar og tók ekki frekari þátt í þýskum stjórnmálum. Þótt hann þyki almennt ekki hafa verið merkilegur kanslari hefur honum stundum verið hrósað fyrir að hjálpa til við friðsamleg stjórnarskipti þegar keisaraveldið í Þýskalandi var að hruni komið.

Tilvísanir

breyta
  1. Haffner, Sebastian (2002). Die deutsche Revolution 1918/19 (Þýska). Kindler.

Tenglar

breyta


Fyrirrennari:
Georg von Hertling
Kanslari Þýskalands
(3. október 19189. nóvember 1918)
Eftirmaður:
Friedrich Ebert