Georg von Hertling

Kanslari Þýskalands (1843-1919)

Georg Friedrich, Graf von Hertling (31. ágúst 1843 – 4. janúar 1919), var bæverskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Bæjaralands frá 1912 til 1917 og síðan forsætisráðherra Prússlands og kanslari Þýskalands frá 1917 til 1918. Hann var fyrsti stjórnmálamaðurinn úr skipulögðum stjórnmálaflokki sem gegndi kanslaraembættinu.

Georg von Hertling
Kanslari Þýskalands
Í embætti
1. nóvember 1917 – 30. september 1918
ÞjóðhöfðingiVilhjálmur 2.
ForveriGeorg Michaelis
EftirmaðurMaximilian von Baden
Persónulegar upplýsingar
Fæddur31. ágúst 1843
Darmstadt, Hesse, þýska ríkjasambandinu
Látinn4. janúar 1919 (76 ára) Ruhpolding, Bæjaralandi, Þýskalandi
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurMiðflokkurinn (Zentrum)
MakiAnna von Biegeleben
AtvinnaHeimspekikennari, stjórnmálamaður
Undirskrift

Æviágrip breyta

Hertling varð heimspekikennari í Háskólanum í München og samdi bækur um Aristóteles (1871) og Albertus Magnus (1880). Frá 1875 til 1890 og frá 1893 til 1912 sat hann á þýska ríkisþinginu og frá 1909 til 1912 var hann leiðtogi þýska Miðflokksins á þinginu. Árið 1891 gerði ríkisstjóri Bæjaralands Hertling að þingmanni til lífstíðar í efri deild bæverska héraðsþingsins.[1]

Sem leiðtogi stærsta flokksins á bæverska héraðsþinginu var Hertling árið 1912 útnefndur forsætisráðherra og utanríkisráðherra Bæjaralands. Hann var fyrsti forsætisráðherrann sem var útnefndur í embættið í valdi meirihluta á þingi. Lúðvík 3. konungur Bæjaralands gaf honum síðar greifanafnbót.[1] Eftir að fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 studdi Hertling ríkisstjórn Theobalds von Bethmann-Hollweg kanslara en afþakkaði boð um að taka við kanslaraembættinu þegar Bethman-Hollweg neyddist til að segja af sér árið 1917. Eftir að Georg Michaelis féll úr embættinu í nóvember sama ár féllst Hertling á að taka við kanslaraembættinu og gerðist jafnframt forsætisráðherra Prússlands. Hertling var fyrsti stjórnmálamaðurinn sem gegndi þessum embættum; forverar hans höfðu verið stjórnsýslumenn eða hermenn.

Hertling var íhaldsmaður sem vildi stefna að algerum sigri Þýskalands. Vegna aldurs síns og íhaldssemi var hann illa í stakk búinn til að keppast um völdin við yfirstjórn hersins sem laut forystu hershöfðingjanna Pauls von Hindenburg og Erichs Ludendorff. Líkt og Michaelis á undan honum var í síauknum mæli litið á Hertling sem strengjabrúðu Hindenburgs og Ludendorffs, sem höfðu á síðasta kafla styrjaldarinnar í raun breytt Þýskalandi í herforingjastjórn. Á stjórnartíð Hertlings fór allt út um þúfur fyrir þýska herinn á vesturvígstöðvunum. Þar sem Hertling tókst ekki að leysa úr kreppunni neyddist hann í lok ársins 1918 til að segja af sér svo furstinn Maximilian von Baden gæti gerst kanslari og samið um frið við bandamenn.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 Chisholm, Hugh, ed. (1922). "Hertling, Georg, Count von". Encyclopædia Britannica (12. útgáfa). London & New York.

Tenglar breyta

  • Erinnerungen aus meinen Leben "Æviminningar mínar" 1. bindi á archive.org. Á þýsku
  • Erinnerungen aus meinen Leben "Æviminningar mínar" 2. bindi á archive.org. Á þýsku
  • Georg Hertling, Graf von Georg Hertling (1893). Naturrecht und Socialpolitik. J. P. Bachem.


Fyrirrennari:
Georg Michaelis
Kanslari Þýskalands
(1. nóvember 191730. september 1918)
Eftirmaður:
Maximilian von Baden