Mateusz Morawiecki

Forsætisráðherra Póllands

Mateusz Jakub Morawiecki (f. 20. júní 1968) er pólskur hagfræðingur, sagnfræðingur og stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Póllands frá desember 2017 til desember 2023.[1] Morawiecki er meðlimur í íhaldsflokknum Lögum og réttlæti og var áður varaforsætisráðherra, þróunarráðherra og fjármálaráðherra í ríkisstjórn forvera síns, Beatu Szydło. Áður en hann hóf þátttöku í stjórnmálum átti Morawiecki að baki langan feril í viðskiptum.

Mateusz Morawiecki
Mateusz Morawiecki árið 2019.
Forsætisráðherra Póllands
Í embætti
11. desember 2017 – 13. desember 2023
ForsetiAndrzej Duda
ForveriBeata Szydło
EftirmaðurDonald Tusk
Persónulegar upplýsingar
Fæddur20. júní 1968 (1968-06-20) (56 ára)
Wrocław, Póllandi
ÞjóðerniPólskur
StjórnmálaflokkurLög og réttlæti
MakiIwona Morawiecka
Börn4
HáskóliHáskólinn í Wrocław (BA)
Vísinda- og tækniháskólinn í Wrocław
Hagfræðiháskólinn í Wrocław (MBA)
Hamborgarháskóli
Háskólinn í Basel (MAS)
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Mateusz Morawiecki ólst upp í Wrocław og er sonur eðlisfræðingsins Kornels Morawiecki, sem var andófsmaður gegn kommúnistastjórn Póllands. Kornel Morawiecki var stofnandi Baráttusamtaka Samstöðu (Solidarność Walcząca), róttækrar klofningshreyfingar úr verkalýðsfélaginu Samstöðu sem var ósamþykk viðræðum við kommúnistastjórnina. Mateusz Morawiecki tók sjálfur þátt í andófsaðgerðum gegn ríkisstjórninni og var handtekinn og barinn fyrir vikið.[2]

Morawiecki útskrifaðist árið 1992 með gráðu í sagnfræði frá Háskólanum í Wrocław og nam síðan viðskiptastjórnun við Vísinda- og tækniháskólann í Wrocław og Ríkisháskólann í Mið-Connecticut. Hann útskrifaðist árið 1995 með MBA-gráðu frá Hagfræðiháskólanum í Wrocław og með mastersgráðu í Evrópufræðum frá Háskólanum í Basel.[2]

Á tíunda áratugnum vann Morawiecki ýmis störf í fræða- og viðskiptageiranum en árið 1998 hóf hann störf fyrir Bank Zachodni WBK, pólskan banka í eigu spænsku fjármálasamsteypunnar Banco Santander, SA. Morawiecki vann hjá bankanum til ársins 2015 og var framkvæmdastjóri hans frá árinu 2007.[2]

Morawiecki var lengst af ekki tengdur við neinn stjórnmálaflokk en árið 2010 vann hann sem efnahagsráðgjafi Donalds Tusk, forsætisráðherra Póllands úr Borgaraflokknum. Þegar hægri-íhaldsflokkurinn Lög og réttlæti komst til valda eftir stórsigur sinn í þingkosningum árið 2015 var Morawiecki útnefndur fjármálaráðherra. Útnefning hans var víða álitin tilraun til þess að koma til móts við erlenda fjárfesta, sem óttuðust mögulegar afleiðingar þjóðernissinnaðrar fjármálastjórnunar Laga og réttlætis.[2]

Í desember árið 2017 lét Jarosław Kaczyński, formaður Laga og réttlætis, stokka upp pólsku ríkisstjórnina. Beatu Szydło forsætisráðherra var bolað úr embætti og Morawiecki tók við af henni auk þess sem hann viðhélt embætti fjármála- og þróunarráðherra. Talið er að Kaczyński hafi litið svo á að Morawiecki myndi eiga auðveldara en Szydło með að semja við Evrópusambandið.[2] Stjórn Morawiecki hefur átt í deilum við Evrópusambandið bæði um umdeildar breytingar á pólska dómkerfinu og um meginreglu rétthæðar ESB-löggjafar gagnvart pólskum lögum.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. „Komitet Polityczny PiS desygnował Mateusza Morawieckiego na Premiera“ (pólska). Prawo i Sprawiedliwość. 7. desember 2017. Sótt 13. nóvember 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Jeff Wallenfeldt, „Mateusz Morawiecki“ (enska), Encyclopaedia Britannica. Sótt 13. nóvember 2021.
  3. Þorvarður Pálsson (7. desember 2017). „Pólski for­sætis­ráð­herrann sakar ESB um kúgun“. Fréttablaðið. Sótt 19. október 2021.


Fyrirrennari:
Beata Szydło
Forsætisráðherra Póllands
(11. desember 201713. desember 2023)
Eftirmaður:
Donald Tusk


   Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.