Martin Waldseemüller
Martin Waldseemüller (1470/71 í Freiburg – 1522 í Saint Dié í Frakklandi) var þýskur kortagerðarmaður og sá sem stakk fyrstur upp á heitinu Ameríka ásamt Matthias Ringmann.
Æviágrip
breytaMartin Waldseemüller fæddist í kringum 1470 til 72 í Freiburg í Þýskalandi. Þar nam hann stærðfræði og landafræði í háskólanum. Eftir nám sitt þar fór hann til klaustursins í Saint Dié í Alsace í Frakklandi þar sem hann fékk stöðu prófessors í heimsfræðum (Kosmólógíu). Samfara því starfaði hann sem kortagerðarmaður og gaf út nokkur þekkt kort og hnattlíkan. Ein afdrifaríkasta ákvörðun hans var að setja inn orðið America í einu af kortunum sínum. Heiti þetta festist í fyrstu við Suður-Ameríku, en fljótlega var svo farið að nota þetta heiti yfir heimsálfuna alla. Waldseemüller starfaði allan sinn aldur í Saint Dié og lést þar 1522.
Verk
breytaHylacomylus
breytaMeðan Waldseemüller var enn í námi í Freiburg sigldi Kólumbus í fyrsta sinn til Vesturheims. Í kjölfarið fóru ýmsir sæfarar þangað í hina ýmsu könnunarleiðangra. Einn þeirra var ítalski sæfarinn Americo Vespucci. Fyrsta ritið sem Waldseemüller samdi hét Hylacomylus og fjallaði einmitt um ferð Vespuccis til Vesturheims. Á þeim tíma töldu menn enn að hér væri um Asíu (Indland, Kína, Japan) að ræða, en ekki nýtt meginland. Ferð þessi var farin árið 1497, aðeins fimm árum eftir fyrstu ferð Kólumbusar.
Heimskort
breytaEitt þekktasta verk Waldseemüllers var heimskortið frá 1507. Þetta heimskort sýnir austurströnd Ameríku (bæði norður og suður) nokkurn vegin rétt. Hins vegar var ekkert kunnugt um landið inn frá ströndinni nema á örfáum stöðum. Mikið af upplýsingunum fékk hann frá Vespucci, sem þá hafði alls farið í þrjár ferðir vestur. Hann hafði skrifað bréf heim þar sem fram koma sterkar efasemdir um að þetta væri virkilega sú Asía (Indland) sem Kólumbus hafði sagst fundið. Kólumbus dó 1506, á árinu á undan, í þeirri góðu trú að hafa fundið siglingaleið til Indlands. Vespucci hins vegar vekur upp þá spurningu hvort hér sé ekki um annað land að ræða. Ferðalýsing Vespuccis heitir Mundus Novus (Nýr heimur). Waldseemüller gerir sér fyrstur manna grein fyrir mikilvægi þessara orða. Hann er sannfærður um það að hér sé um nýtt meginland að ræða, ekki Asíu. Á kortið sitt ritar hann orðið America nokkurn veginn þar sem Suður-Ameríka er í dag, enda kannaði Vespucci aðallega strandlengju Suður-Ameríku. Ekki er ljóst hvort Waldseemüller gerði þetta með eða án vitundar Vespuccis. En Waldseemüller ritaði America sem kvenkynsorð, enda vissi hann að hinar heimsálfurnar (Asía, Evrópa og Afríka) eru allar kvenkyns. Með þessu orsakaði Waldseemüller ekki aðeins að menn áttuðu sig á að hér væri um nýja heimsálfu að ræða, heldur gerði hann nafn Amerigo Vespuccis ódauðlegt. Heimsálfan Ameríka er stærsta landsvæði heims sem nefnt er eftir manni. Heimskortið sjálft er búið til úr 12 bútum, sem hver um sig er 46x62 cm að stærð. Samtals er kortið 1,38 x 2,48 m að stærð. Kort þetta dreifðist mikið um alla Evrópu. Það var afritað í hundruðum eintaka. Talið er að næstu árin hafi 1000 afrit verið gerð. Í dag er aðeins eitt einasta enn til. Það var lengi vel í einkaeigu í Þýskalandi en var selt 2007 til Library of Congress í Washington fyrir 10 milljónir dollara. Þetta er langhæsta verð sem greitt hefur verið fyrir landakort. Kortið er almenningi til sýnis í Washington. Það er á heimsminjaskrá UNESCO.
Hnattlíkan
breytaWaldseemüller bjó til hnattlíkan í formi kúlu 1507, á sama ári og hann gerði heimskortið. Líkanið sýnir einnig Ameríku sem nýja heimsálfu. Hnattlíkanið er ónýtt í dag. Til eru hins vegar fjögur afrit af korti þess. Eitt uppgötvaðist 1993 í söguskjalasafni í Offenburg í Þýskalandi. Eitt er í eigu Landsbókasafnsins í München. Eitt er í eigu James Ford Bell Library í háskólanum í Minnesota í Minneapolis. Það síðasta var selt á uppboði hjá Christie’s árið 2005. Kaupandi og geymslustaður kortsins eru óþekkt.
Evrópukort
breytaWaldseemüller bjó til kort af Evrópu 1520, aðeins tveimur árum fyrir andlát sitt. Kortið vísar til suðurs, en merkingar eru þó stundum á hvolfi og stundum ekki. Á spássíunum eru skjaldarmerki allra ríkja Evrópu og landsvæða innan þýska ríkisins. Keisari var þá Karl V og var kortið gert honum til heiðurs.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Martin Waldseemüller“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.