Margrét Vigfúsdóttir

Margrét Vigfúsdóttir (um 14061486) var íslensk hefðarkona á 15. öld, húsfreyja á Möðruvöllum í Eyjafirði og bjó ekkja þar og á Hólum í Eyjafirði í fjóra áratugi eftir lát manns síns.

Margrét var dóttir Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra (d. 1420) og Guðríðar Ingimundardóttur (um 1374 - eftir 1436) sem var af auðugum norskum höfðingjaættum. Bróðir Margrétar, Ívar Vigfússon hólmur, bjó á Kirkjubóli á Miðnesi um 1430 og var Margrét þar hjá honum. Sagan segir að Magnús kæmeistari, foringi sveina Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, hafi beðið Margrétar en verið vísað á bug og til að hefna fyrir það hafi sveinarnir ráðist á bæinn á Kirkjubóli, borið eld að honum og drepið Ívar eða jafnvel alla heimilismenn, en Margrét hafi naumlega komist undan, flúið norður í land og heitið því að giftast þeim sem hefndi bróður hennar.

Hvað sem til er í þessu er víst að Margrét giftist Þorvarði Loftssyni á Möðruvöllum, sem átti harma að hefna á Jóni Gerrekssyni og var einn helsti foringi þeirra sem fóru að honum og drápu hann sumarið 1433. Gifting þeirra varð þó ekki fyrr en þremur árum síðar og því alls óvíst að hún hafi tengst drápi biskupsins. Þorvarður var sonur Lofts Guttormssonar og stórauðugur og Margrét hefur einnig verið mjög efnuð, enda voru þau talin ríkustu hjón á Íslandi á sinni tíð.

Þorvarður dó 1446, eftir aðeins tíu ára hjónaband, en Margrét bjó áfram, fyrst á Möðruvöllum en síðan á Hólum. Þau áttu þrjár dætur: Ingibjörgu konu Páls Brandssonar sýslumanns á Möðruvöllum, en þau og synir þeirra dóu öll í plágunni síðari 1494; Guðríði, konu Erlendar Erlendssonar sýslumanns á Hlíðarenda og móður Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra; og Ragnhildi, sem giftist Hákarla-Bjarna Marteinssyni á Ketilsstöðum á Völlum og síðar á Eiðum. Giftust dæturnar allar í einu á Möðruvöllum 1465 og var þar haldin mikil og rausnarleg veisla.

Heimildir í fornbréfum benda eindregið til þess að Margrét hafi verið skörungskona sem naut mikillar virðingar samtíðarmanna sinna. Hún annaðist sjálf öll fjármál sín og dætra sinna eftir lát manns síns og mun hafa aukið auð sinn fremur en hitt. Hún átti miklar eignir hérlendis og einnig jarðeignir í Noregi, sem hún hefur líklega erft eftir móður sína.

Heimildir

breyta
  • Brúðkaupið mikla á Möðruvöllum 1465. Sunnudagsblað Tímans, 1. október 1967“.
  • Höfuðbólið forna, Strönd í Selvogi. Vísir sunnudagsblað, 31. maí 1942“.