María Aðalheiður af Lúxemborg

María Aðalheiður (14. júní 1894 – 24. janúar 1924) var stórhertogaynja Lúxemborgar frá 1912 til 1919.[1][2] Hún var fyrsta konan sem ríkti sem stórhertogaynja yfir Lúxemborg og fyrsti þjóðhöfðingi landsins frá því á 13. öld sem fæddist og ólst upp í landinu.[3]

Skjaldarmerki Nassá-Weilburg-ætt Stórhertogaynja Lúxemborgar
Nassá-Weilburg-ætt
María Aðalheiður af Lúxemborg
María Aðalheiður
Ríkisár 25. febrúar 191214. janúar 1919
SkírnarnafnMarie Adelheid Thérèse Hilda Wilhelmine
Fædd14. júní 1894
 Colmar-Berg, Lúxemborg
Dáin24. janúar 1924 (29 ára)
 Lenggries, Bæjaralandi, Þýskalandi
GröfMaríukirkjan í Lúxemborg
Konungsfjölskyldan
Faðir Vilhjálmur 4. af Lúxemborg
Móðir María Anna af Portúgal

María Aðalheiður var elsta dóttir Vilhjálms 4. stórhertoga af Lúxemborg og konu hans, Maríu Önnu af Portúgal. Hjónin eignuðust enga syni og því lét Vilhjálmur breyta erfðalögum stórhertogadæmisins svo dóttir hans gæti tekið við ríkinu eftir dauða hans. Vilhjálmur lést árið 1912 og María Aðalheiður varð stórhertogaynja, aðeins sautján ára gömul. Móðir hennar ríkti sem ríkisstjóri þar til stórhertogaynjan varð átján ára seinna sama ár.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 réðust Þjóðverjar inn í Lúxemborg og hertóku landið. Á hernámsárunum vingaðist María Aðalheiður við þýska hernámsliðið, bauð Vilhjálmi Þýskalandskeisara til veglegrar veislu í höll sinni[1] og leyfði syni hans, Vilhjálmi krónprinsi, að eiga höfuðstöðvar fyrir hersveit sína í höfuðborginni.[3] Vinahót hennar við Þjóðverja gerðu stórhertogaynjuna mjög óvinsæla meðal Lúxemborgara, sem óttuðust að Þjóðverjar myndu innlima Lúxemborg ef þeim tækist að vinna styrjöldina. María Aðalheiður styggði auk þess verulega frjálslynda Lúxemborgara þegar hún leysti upp þing til að leysa úr stjórnarkreppu árið 1916.[4] Stórhertogaynjan hafði stjórnarskrárbundinn rétt til að leysa upp þing á þessum tíma, en þetta var þó talið óvenjulegt og andstæðingar hennar líktu þingrofinu við valdarán.

Eftir að styrjöldinni lauk og hernáminu var aflétt reyndu frjálslyndir og vinstrisinnaðir þingmenn að setja Maríu Aðalheiði af og stofna lýðveldi í Lúxemborg. Stjórnvöldum tókst að bæla niður uppreisnina með hjálp franska hersins, en María Aðalheiður var þó tilneydd til að segja af sér. Systir hennar, Karlotta, varð ný stórhertogaynja í landinu en María Aðalheiður yfirgaf Lúxemborg og gekk í klaustur. Heilsu hennar hrakaði mjög á næstu árum og hún lést að endingu í Hohenburg-setri í Bæjaralandi árið 1924, aðeins 29 ára gömul.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 „Luxemburg“. Morgunblaðið. 1. nóvember 1919. Sótt 4. maí 2019.
  2. „María Aðalheiður“. Morgunblaðið. 14. nóvember 1915. Sótt 7. maí 2019.
  3. 3,0 3,1 „Marie-Adélaïde - Cour Grand-Ducale de Luxembourg - Les Souverains“ (franska). www.monarchie.lu. Sótt 7. maí 2019.
  4. Guy Thewes (2011). Les gouvernements du Grand-Duché de Luxembourg depuis 1848 (PDF). Service Information et Presse. bls. 65.


Fyrirrennari:
Vilhjálmur 4.
Stórhertogaynja Lúxemborgar
(25. febrúar 191214. janúar 1919)
Eftirmaður:
Karlotta