Karlotta af Lúxemborg

Karlotta (23. janúar 1896 – 9. júlí 1985) var stórhertogaynja Lúxemborgar frá 1919 til 1964.

Skjaldarmerki Nassá-Weilburg-ætt Stórhertogaynja Lúxemborgar
Nassá-Weilburg-ætt
Karlotta af Lúxemborg
Karlotta
Ríkisár 14. janúar 191912. nóvember 1964
SkírnarnafnCharlotte Adelgonde Elisabeth Marie Wilhelmine
Fædd23. janúar 1896
 Berg-kastala, Lúxemborg
Dáin9. júlí 1985 (89 ára)
 Fischbach, Lúxemborg
GröfMaríukirkjan í Lúxemborg
Konungsfjölskyldan
Faðir Vilhjálmur 4. af Lúxemborg
Móðir María Anna af Portúgal
EiginmaðurFelix prins af Bourbon-Parma
BörnJóhann, Elísabet, María Aðalheiður, María Gabríella, Karl, Alix

Karlotta var næstelsta dóttir Vilhjálms 4. stórhertoga Lúxemborgar. Hún komst til ríkis þann 14. janúar árið 1919 þegar eldri systir hennar, María Aðalheiður stórhertogaynja, sagði af sér. María Aðalheiður hafði orðið umdeild meðal Lúxemborgara eftir að Þjóðverjar hertóku landið í fyrri heimsstyrjöldinni þar sem margir landsmenn töldu hana hafa verið of vingjarnlega í garð hernámsliðsins.[1] Í kjölfarið kusu Lúxemborgarar í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þeir vildu leyfa Karlottu að ríkja sem stórhertogaynju eða leggja niður einveldið og stofna lýðveldi í Lúxemborg. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var sú að um 66 prósent landsmanna kusu að leyfa Karlottu að ríkja áfram.[2]

Sama ár og hún tók við völdum hafði Karlotta gifst Felix prinsi af Búrbon-Parma, afkomanda frönsku konungsættarinnar.[3] Hjónin eignuðust sex börn saman og urðu mjög vinsæl meðal lúxemborgsku þjóðarinnar.

Þegar Þjóðverjar réðust á ný inn í Lúxemborg í seinni heimsstyrjöldinni þann 10. maí árið 1940 flúði Karlotta landið ásamt fjölskyldu sinni. Hún hélt fyrst til Bretlands. Árið 1942 fór fjölskyldan til Bandaríkjanna og Kanada og hlaut hæli í Montreal.[4] Í London starfaði útlagastjórn á meðan Lúxemborg var hernumin. Á meðan hernámið varði ávarpaði hún oft þjóð sína í gegnum útvarpsþjónustu BBC og hvatti til andspyrnu gegn Þjóðverjum.[3]

Karlotta sneri aftur til Lúxemborgar ásamt fjölskyldu sinni við mikinn fögnuð í apríl árið 1945, þegar herir bandamanna sóttu inn í Evrópu og frelsuðu ríkin sem Þjóðverjar höfðu hernumið. Á næstu árum tók hún virkari þátt í því að greiða veg Lúxemborgar á alþjóðasviðinu og fór í fjölda opinberra heimsókna til erlendra þjóðhöfðingja.[5]

Karlotta ákvað að segja af sér árið 1964 og leyfa syni sínum, Jóhanni, að taka við völdum sem nýr stórfursti Lúxemborgar. Hún var þá 68 ára og hugðist einbeita sér að einu helsta áhugamáli sínu, rósarækt.[6]

Tilvísanir

breyta
  1. „Luxemburg“. Morgunblaðið. 1. nóvember 1919. Sótt 4. maí 2019.
  2. Dieter Nohlen & Philip Stöver (2010) Elections in Europe: A data handbook, bls. 1244 ISBN 978-3-8329-5609-7
  3. 3,0 3,1 „Stórhertoginn af Lúxemborg og fjölskylda hans“. Morgunblaðið. 8. júní 1986. Sótt 4. maí 2019.
  4. Bernier Arcand, Philippe (2010). „L'exil québécois du gouvernement du Luxembourg“. Histoire Québec (franska). 15 (3): 19–26. ISSN 1201-4710.
  5. Kreins, Jean-Marie. Histoire du Luxembourg. Paris: Presses Universitaires de France, 2010. 5. útgáfa, bls. 105.
  6. „Jean, stórhertogi, tekur við völdum í Luxemburg af móður sinni“. Morgunblaðið. 17. nóvember 1964. Sótt 3. maí 2019.


Fyrirrennari:
María Aðalheiður
Stórhertogaynja Lúxemborgar
(14. janúar 191912. nóvember 1964)
Eftirmaður:
Jóhann