Mandsjúkó

fyrrum leppríki Japans í Mansjúríu

Mandsjúkó, (kínverska: 滿洲國; rómönskun: Mǎnzhōuguó), var opinberlega ríki í Mansjúríu á árunum 1932-1934 og keisaraveldi Mansjúríu frá 1934 til 1945, en var í raun leppríki Japans í Norðaustur-Kína og Innri Mongólíu. Mandsjúkó var stofnað árið 1932 úr þremur héruðum Mansjúríu eftir innrás Japana, og árið 1934 varð það gert að stjórnarskrárbundnu keisaraveldi. Það var ætíð undir raunverulegri stjórn Japans og naut takmarkaðrar alþjóðlegrar viðurkenningar.

Mandsjúkó
滿洲國
Mǎnzhōuguó
Mynd af Þjóðfána Mandsjúkó 1932-1945. Sinnepsguli liturinn táknaði Mansjú þjóðina, rauði liturinn stóð fyrir japönsku þjóðina, sá blái stóð fyrir Han kínverja, hvíti stóð fyrir mongólsku þjóðina og sá svarti stóð fyrir kóresku þjóðina.
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Fimm kynþættir í einu bandalagi.
Þjóðsöngur:
Þjóðsöngur Mandsjúkó
(frá 1933–1942)
(frá 1942–1945)
Mynd sem sýnir Mandsjúkó ríki (dökkrautt). Önnur landsvæði undir Japanska keisaradæminu sýnd ljósrauð.
Höfuðborg Xinjing (Changchun) (til 9. ágúst 1945)
Tonghua (frá 9. ágúst 1945)
Opinbert tungumál Japanska, mansjú
Stjórnarfar Einingarríki, þingbundin konungsstjórn með flokksræði, einræði og herforingjastjórn (1934–1945)

Keisari Puyi
Forsætisráðherra Zheng Xiaoxu (1932–1935)
Zhang Jinghui (1935–1945)
Leppríki innan Japanska keisaradæmisins
 • Innrás Japana í Mansjúríu 18. september 1931 
 • Stofnun 1. mars 1932 
 • Keisaradæmi stofnað 1. mars 1934 
 • Upplausn 17. ágúst 1945 
Flatarmál
 • Samtals

984.195 km²
Gjaldmiðill Mandsjúkó-júan
Mynd af Puyi keisara Mandsjúkó (1934 –1945) í Hsinking borg (nú Changchun borg í Jilin héraði).
Puyi keisari Mandsjúkó (1934 –1945).
Mynd sem sýnir keisarahöll Puyi í Hsinking borg í Mandsjúkó (nú Changchun í Jilin héraði).
Keisarahöll Puyi í Hsinking borg í Mandsjúkó (Changchun borg í Jilin héraði).

Söguágrip

breyta

Á árunum 1896 til 1903 byggðu Rússar Suður- Mansjúríu járnbrautina sem tengdi höfn Dalian borg við Changchun borg í Jilin héraði, sem og Harbin í Heilongjiang héraði, og einnig við Trans-Síberíu lestarkerfið.

Eftir rússneska - japanska stríðið (1904–05) náði Japan, sem vaxandi heimsveldi, yfirráðum yfir rússnesk járnbrautar-, hafnar- og landhelgisréttindi. Frá þeim tíma styrkti Japan stöðugt ítök sín á efnahag Mansjúríu, að hluta til með harðstjórn en einnig með árangursríkri fjárfestingarstefnu og og efnahagslegri útþenslu. Þeir komu fyrir japönskum herjum á svæðinu.

Fyrir var landsvæðið Kwantung á Liaodong-skaga sem Japansveldi hafði verið tekið á leigu af Tjingveldinu árið 1895 eftir sigur í fyrsta kínverska-japanska stríðinu. Þeir misstu það landsvæði um skamma stund til Rússa en náðu aftur yfirráðum með endurnýjaðri leigutöku frá 1905 allt til 1945. Hið japanska Kwantung svæði var suðurodda Liaodong-skaga við Bóhaíhaf hafði mikla hernaðarlega og efnahagslega þýðingu.

Landsvæði Mansjúríu var heimaland mansjúa þjóðarbrotsins, þar á meðal voru keisarar Tjingveldisins sem ríktu yfir Kína á árunum 1644–1912. Mansjúþjóðin var þó í minnihluta í Mandsjúkó ríkinu, en Han kínverjar langfjölmennasta þjóðarbrotið. Kóreumönnum fjölgaði á Mandsjúkó-tímabilinu og þar voru einnig Japanir, Mongólar, Hvít-Rússar og aðrir minnihlutahópar. Margir Japanir settust að í hinni nýju „nýlendunni“ en eftir ósigur Japans árið 1945 voru landnemarnir fluttir til síns heima.

Mongólsku héruðin í vesturhluta Mansjúríu var stjórnað með aðeins öðru kerfi, til að viðurkenna þar mongólskar hefðir. Kwantung leigu-landsvæðið á suðurhluti Liaodong-skaga (nú Dalian) var áfram undir beinni stjórn Japans sem þar til síðari heimsstyrjöldinni lauk.

Árið 1931 fann japanska herliðið af Kwantung leigusvæðinu tilefni til að ráðast á kínverska hermenn og við hertöku Japana á Mansjúríu árið 1932, var lýst yfir stofnun Mandsjúkó sem „sjálfstæðs“ ríkis. Þeir settu Puyi fyrrum keisara Tjingveldisins þar yfir, fyrst sem stjórnanda en síðar lýstur sem „Kangde-keisarinn“. Áður hafði hann notið japanskrar verndar í japanska hluta Tianjin borgar (1925–1931).

Mandsjúkó ríki var í raun að fullu stjórnað af Japönum, sem notuðu aðstöðuna til frekari útrásar og landvinninga í Asíu. Japanir gáfu borginni Changchun (nú í Jilin héraði) nýtt nafn, Hsinking („ný höfuðborg“), og varð hún höfuðborg Mandsjúkó.

Mandsjúkó mætti mikili andspyrnu. Hópar skæruliða sem samanstóðu af mansjúrískum hermönnum, óbreyttum borgurum og kínverskum kommúnistum börðust gegn hernámi Japana. Að lokum lögðu herir Sovétríkjanna hald á land Mandsjúkó í ágúst 1945.Höfuðborgin Hsinking var stórskemmd og rænd af sovéskum herafla á síðustu dögum stríðsins og einnig í átökum kínverskra kommúnista og þjóðernissinna. Ríkisstjórn Mandsjúkó var leyst upp árið 1945 eftir uppgjöf Japanska keisaraveldisins í lok síðari heimsstyrjaldar. Ári síðar tóku kínversk stjórnvöld formlega við völdum á svæðinu.

Frá 1945 til 1950 var Puyi, fyrrum „Kangde-keisari“ Mandsjúkó, stríðsfangi Sovétríkjanna í Síberíu. Síðar var hann 10 ár í haldi í Liaoning héraði sem stríðsglæpamaður. Að lokum flutti hann til Beijing þar sem hann starfaði meðal annars sem garðyrkjumaður. Hann dó 61 árs gamall árið 1967.

Sjá einnig

breyta

Heimildir

breyta