Maltöl
Maltöl er sætt, svotil óáfengt öl sem bruggað er úr malti líkt og annar bjór en með viðbættum sykri og lakkrís. Maltöl inniheldur gersveppi, en hefur þó ekki undirgengist alkohólmyndandi gerjun að neinu marki, því gerinu er sáð í ölmeskið við 0°C eða þar um bil. Malt er því óáfengt, eða svo lítið áfengt að það er ekki skylt að tilgreina það á flöskunum.
Óáfengt maltextrakt-öl varð vinsælt sem heilsudrykkur í Danmörku undir lok 19. aldar. Yfirburðastaða brugghúsanna Carlsberg og Tuborg á markaði með ljósan lagerbjór, umræða um óhollustu áfengisdrykkju og væntanlegur ölskattur, setti allt þrýsting á minni brugghús að finna nýjar leiðir í framleiðslu á vöru úr maltextrakti. Meðal þess sem þau tóku upp á að framleiða voru maltbrjóstsykur og ýmsar tegundir af sósubæti. Maltölið var markaðssett sem heilsudrykkur og allra meina bót í samkeppni við ýmsa aðra drykki og elixíra sem þá voru auglýstir. Brugghúsin lögðu mikið upp úr því að auglýsa hve mikið sjúkrahús keyptu af drykknum og hve hollur hann væri sjúklingum og börnum. Maltölið var meðal annars auglýst sem næringarríkt og taugastyrkjandi.
Þegar Tómas Tómasson stofnaði Ölgerð Egils Skallagrímssonar árið 1913 lá fyrir að áfengisbannið gengi í gildi í ársbyrjun 1915. Tómas hóf í upphafi framleiðslu á óáfengu maltöli og hvítöli en Egils mjöður og Egils pilsner bættust síðar við vörulínu fyrirtækisins. Maltölið hefur alla tíð síðan verið mjög vinsæll drykkur á Íslandi.
Annað
breyta- Flosi Ólafsson lék í maltauglýsingu og mælti þar orðin „Vantar allt malt í þig“. Setningin varð nokkuð vinsæl og er stundum mælt af gárungum þegar færi gefst.
- Malt er einnig til í öðrum löndum, t.d. er það kallað Malzbier í Þýskalandi.