Þágufallssýki
Þágufallssýki eða þágufallshneigð (eða méranir sem hlýst af því að nota persónufornafnið mér í stað mig) nefnist sú tilhneiging í íslensku að hafa orð í þágufalli sem ætti samkvæmt viðurkenndri íslenskri málvenju að vera í þolfalli eða nefnifalli.[1]
Dæmi eru um þágufallssýki í fornritunum.[1] Hún er útbreidd um allt Ísland og er mjög algeng meðal yngra fólks.[2][1]
Lengi hefur verið litið á þágufallssýki sem örgustu málvillu,[1] en sumir (líkt og málfræðingurinn Eiríkur Rögnvaldsson) hvetja til þess að litið sé á hana sem eðlilega málbreytingu.[1]
Uppruni
breytaFinna má dæmi um þágufallssýki í Grágás og fleiri fornum ritum en hún fer þó ekki að vera áberandi fyrr en um miðja 19. öld.[heimild vantar]
Orðið þágufallssýki kemur fyrst fyrir í grein eftir Helga Pjeturss í Vísi 1929: „Hvergi hefi eg séð minst á ískyggilega málspillingu, sem er þó orðin svo mögnuð að hún gerir vart við sig hjá vel ritfærum mönnum. Málspillingu þessa mætti kalla þágufallssýki (dativitis), því að hún lýsir sér þannig, að menn nota mjög þágufall orða þar sem á að vera þolfall.“[3] Sumir málfræðingar kjósa þó fremur að nota orðið þágufallshneigð, þar sem það sé ekki eins gildishlaðið og þágufallssýki.
Landsmenn hafa stundum tengt þágufallsýkina við Reykvíkinga,[1] en hún er útbreidd um allt land[1] og er meðal annars mjög algeng meðal Vestur-Íslendinga.[4]
Guðmundur G. Hagalín skrifaði í Alþýðublaðinu 1944:
„Um hina hvimleiðu „þágufallssýki“ er það að segja, að hún mun ekki vera sér-vestfirzkt fyrirbæri. Þegar ég var að alast upp notuðu Vestfirðingar ekki þágufall ranglega svo að ég muni, nema í tveim samböndum. Þeir sögðu: „Ég þori því ekki,“ og „ég vil taka því fram.“ Þágufallssýkinni kynntist ég fyrst á Suðurlandi, en nú er hún víst orðin eins og landafjandi um allar byggðir og þorpagrundir, og mér dreymir og henni langar jafnt í dagblöðunum eins og á götum Reykjavíkur, Ísafjarðar og Siglufjarðar.“[5]
Útbreiðsla
breytaÞágufallssýki er útbreidd meðal Íslendinga og hafa nær öll 11 ára börn á Íslandi einhverja þágufallssýki, eða um 90%. Hún er samt fátíðari á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, en algengust mældist hún á Austfjörðum samkvæmt könnun sem gerð var haustið 2001. Í þeirri könnun var úrtakshópurinn um 900 ellefu ára börn um land allt. Þetta var aukning samanborið við fyrri áratugi.[6] Könnunin leiddi í ljós fylgni á milli þágufallssýki og menntunar móður. Aðeins 15% ellefu ára barna sögðu „ég hlakka til“, en alls notuðu 40% barnanna þolfall með sögninni og sögðu „mig hlakkar til“. 43% notuðu þágufall og sögðu „mér hlakkar til“.[6][7]
Algeng dæmi
breyta- „Mér hlakkar til morgundagsins“ þegar samkvæmt viðurkenndari málhefð hefði maður sagt „Ég hlakka til morgundagsins“.
- „Mér langar til Japans“ þegar samkvæmt viðurkenndari málhefð hefði maður sagt „Mig langar til Japans“.
- „Mér vantar kjól“ þegar samkvæmt viðurkenndari málhefð hefði maður sagt „Mig vantar kjól“.
- „Mér kvíðir fyrir prófinu“ þegar samkvæmt viðurkenndari málhefð hefði maður sagt „Ég kvíði fyrir prófinu“.
Tengt efni
breytaTilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 Eiríkur Rögnvaldsson (6. september 2020). „Þjóðarsátt um „þágufallssýki"“. Sótt 29. nóvember 2020.
- ↑ Jóhannes Gísli Jónsson; Þórhallur Eyþórsson (2003). „Breytingar í frumlagsfalli í íslensku“. Íslenskt mál og almenn málfræði. 25.
- ↑ Helgi Pjeturss (7. mars 1929). „Málsýking“. Vísir. 65. tölublað.
- ↑ „Um sögurnar“. Árnastofnun. Sótt 29. nóvember 2020.
- ↑ Guðmundur G. Hagalín (23. janúar 1944). „Um málvöndun“. Alþýðublaðið. 18. tölublað.
- ↑ 6,0 6,1 Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson. „Breytingar í frumlagsfalli í íslensku.“ Íslenskt mál og almenn málfræði, 2003.
- ↑ „Yfir 90% ellefu ára barna með þágufallssýki“. Morgunblaðið. 13. maí 2004.