Málmfríður af Kænugarði
Málmfríður af Kænugarði (um 1105 – eftir 1137) var rússnesk prinsessa á 12. öld, drottning Noregs frá því fyrir 1120 til 1130 og síðan drottning Danmerkur 1134-1137.
Málmfríður var dóttir Mstislavs 1. stórhertoga af Kænugarði, sem kallaður er Haraldur í Heimskringlu, líklega eftir móðurafa sínum Haraldi Guðinasyni, og Kristínar Ingadóttur af Svíþjóð, dóttur Inga eldri Svíakonungs. Einhverntíma á árunum 1116-1120 giftist Málmfríður Sigurði Jórsalafara Noregskonungi og er sagt að hjónaband þeirra hafi ekki verið gott. Þau eignuðust eina dóttur, Kristínu, sem varð móðir Magnúsar konungs Erlingssonar.
Þegar Sigurður Jórsalafari dó 1130 fór Málmfríður til Danmerkur en Ingibjörg systir hennar var gift Knúti lávarði, bróðursyni Níelsar konungs. Magnús sterki, sonur Níelsar, myrti Knút raunar skömmu síðar. Málmfríður giftist Eiríki eymuna, hálfbróður Knúts og árið 1131 kom hún á hjúskap milli systurdóttur sinnar, Kristínar dóttur Knúts, og Magnúsar Noregskonungs, stjúpsonar síns. Þegar Eiríkur og Málmfríður hröktust frá Danmörku 1133 undan feðgunum Magnúsi og Níelsi fóru þau til Noregs og leituðu á náðir Magnúsar. Kristín drottning komst að því að maður hennar hugðist svíkja þau í tryggðum og varaði þau við. Þau gengu þá í staðinn í bandalag við Harald gilla, meðkonung Magnúsar, og Magnús sagði skilið við Kristínu.
Eiríkur varð konungur Danmerkur 1134 eftir fall Magnúsar og Níelsar og Málmfríður varð þá drottning. Það stóð þó ekki lengi því Eiríkur var myrtur 1137. Eftir það er Málmfríðar ekki getið. Þau Eiríkur voru barnlaus.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Malmfrid Mstislavsdatter“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 17. september 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Malmfred of Kiev“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 17. september 2010.