Magnús blindi eða Magnús 4. Sigurðsson (um 111512. nóvember 1139) var konungur Noregs 1130-1135 með Haraldi gilla og aftur að nafninu til 1137-1139.

Menn Haraldar gilla limlesta Magnús blinda.

Magnús var sonur Sigurðar Jórsalafara og frillu hans Borghildar Ólafsdóttur. Þegar faðir hans dó 1130 var hann um 15 ára að aldri en hafði að sögn þegar tekist að gera sig óvinsælan hjá hirðinni með hroka sínum og yfirgangi. Sigurður ætlaðist til að hann tæki einn við konungdæminu og hafði tekið loforð af Haraldi gilla, (meintum) hálfbróður sínum um að hann mundi ekki krefjast konungsnafnbótar meðan þeir feðgar lifðu en um leið og Sigurður dó rauf Haraldur heit sitt og lét taka sig til konungs á Haugaþingi, en Magnús hafði áður verið kjörinn konungur í Víkinni. Seinna sama ár voru þeir kjörnir samkonungar á Eyraþingi í Þrændalögum.

Samkomulag þeirra konunganna var ekki gott og veturinn ll33-1134 var nærri komið til átaka. Sumarið eftir reyndi Magnús að hrekja Harald úr landi og kom til bardaga þar sem Magnús hafði betur en Haraldur naut stuðning Eiríks eimuna Danakonungs, sneri aftur og tókst að ná Magnúsi á sitt vald í Björgvin snemma árs 1135. Hann var geltur, fóthöggvinn og augun stungin úr honum og síðan var honum komið fyrir í Munkahólmaklaustri við Björgvin.

Tveimur árum síðar var Magnús blindi aftur dreginn inn í innanlandsátökin. Þá hafði Sigurður slembidjákn drepið Harald gilla og barðist um völdin við lið barnakonunganna Sigurðar munns og Inga krypplings. Þá sótti hann Magnús í klaustrið og hafði hann með sér. Þeir féllu báðir í bardaga síðla árs 1139.

Magnús hafði árið 1133 gengið að eiga Kristínu Knútsdóttur, bróðurdóttur Eiríks eimuna, en rak hana fljótlega frá sér vegna deilna við ættingja hennar. Hann átti engin börn.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Sigurður Jórsalafari
Noregskonungur
með Haraldi gilla
(1130 – 1135)
Eftirmaður:
Haraldur gilli