Kvikuinnskot
Kvikuinnskot er hugtak í jarðfræði sem haft er um bergkviku sem kemur úr iðrum jarðar og þrengir sér inn í sprungur í jarðskorpunni eða inn á milli jarðlaga tiltölulega nærri yfirborði. Þau geta verið afar misstór. Lítil kvikuinnskot mynda mjóar og efnislitlar æðar og eitla í jarðlagastaflanum. Efnismikil kvikuinnskot geta myndað berghleifa sem eru margir rúmkílómetrar að stærð. Kvikuinnskotum fylgja oft jarðskjálftar og landris.


