Sikileysku aftansöngvarnir
Sikileysku aftansöngvarnir voru uppreisn íbúa Sikileyjar gegn franska konunginum Karli 1. af Napólí sem hófst að kvöldi annars í páskum 30. mars árið 1282. Uppreisnarmenn drápu um þrjú þúsund Frakka á eyjunni, þar á meðal konur og börn, á sex vikum. Uppreisnin markaði upphafið á Aftansöngvastríðinu milli Karls, með stuðningi Frakklands; og Aragóníu, með stuðningi Býsantíum. Niðurstaðan varð sú að Konungsríkið Sikiley klofnaði í tvennt: meginlandshluti ríkisins varð Konungsríkið Napólí undir stjórn Karls, en eyjan varð hluti af veldi Péturs 3. af Aragóníu.