Kommúnistaflokkur Víetnams

(Endurbeint frá Kommúnistaflokkur Víetnam)

Kommúnistaflokkur Víetnams (víetnamska: Đảng Cộng Sản Việt Nam) er kommúnískur og marx-lenínískur stjórnmálaflokkur í Víetnam. Flokkurinn er við stjórn flokksræðis í landinu og er eini löglegi stjórnmálaflokkurinn samkvæmt stjórnarskrá landsins.

Kommúnistaflokkur Víetnams
Đảng Cộng sản Việt Nam
Aðalritari Tô Lâm
Stofnár 3. febrúar 1930; fyrir 94 árum (1930-02-03)
Stofnandi Hồ Chí Minh
Höfuðstöðvar Hung Vuong-gata 1A, Ba Đình, Hanoí
Félagatal 5.200.000 (2019)
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Kommúnismi, marx-lenínismi, Ho Chi Minh-hugsun
Einkennislitur Rauður  
Sæti á þjóðþinginu
Vefsíða dangcongsan.vn

Söguágrip

breyta

Flokkurinn var stofnaður af Hồ Chí Minh og öðrum pólitískum útlögum í Hong Kong í febrúar árið 1930 og hét þá víetnamski kommúnistaflokkurinn.[1] Í október sama ár tók flokkurinn upp nafnið Indókínverski kommúnistaflokkurinn (PCI) samkvæmt fyrirmælum Alþjóðasambands kommúnista (Komintern) til þess að höfða til vopnaðra baráttumanna hvarvetna að af yfirráðasvæði franska Indókína; ekki bara Víetnama heldur einnig Laosa og Kambódíumanna. Þrátt fyrir þessa útvíkkun á skírskotun flokksins voru það áfram aðallega Víetnamar sem stýrðu honum.

Árið 1935 hélt flokkurinn fyrsta flokksþing sitt í Makaó. Um svipað leyti komst heimsþing Komintern að þeirri niðurstöðu að stefna skyldi að breiðfylkingu gegn uppgangi fasisma og að kommúnistaflokkar skyldu starfa með öðrum andfasistahreyfingum þótt þær væru ekki endilega sósíalískar. Það var samkvæmt þessum fyrirmælum sem kommúnistaflokkurinn tók þátt í stofnun sjálfstæðishreyfingarinnar Viet Minh eftir áttunda flokksþing sitt í maí 1941. Markmið þeirrar hreyfingar var að sameina þjóðernissinna þvert á pólitískar línur til að stuðla að sjálfstæði Víetnams.

Árið 1945 leysti indókínverski kommúnistaflokkurinn sig upp í samræmi við þessa stefnu. Í reynd viðhélt Hồ Chí Minh þó stjórn og hugmyndafræði kommúnista innan Viet Minh.

Flokkurinn var endurstofnaður árið 1951 en taldi í þetta sinn ekki til sín meðlimi frá Laos eða Kambódíu, sem stofnuðu sín eigin samtök (Kommúnistaflokk Kampútseu árið 1951 og Byltingarflokk laoskrar alþýðu árið 1955). Í Víetnam var flokkurinn nefndur Đảng lao động Việt Nam eða Verkalýðsflokkur Víetnams. Í opinberu minnisblaði áskildi víetnamski flokkurinn sér þó rétt til að hafa áfram umsjón með aðgerðum systurflokka sinna í Laos og Kambódíu.[2] Samtökin Viet Minh voru formlega leyst upp og nýi flokkurinn tók við mestallri starfsemi þeirra. Ný samtök undir nafninu Lien Viêt voru stofnuð til að vera opin þjóðernissinnum sem ekki voru kommúnistar en þau nutu lítilla áhrifa. Fyrri Indókínastyrjöldin gegn Frökkum entist þar til Víetnamar sigruðu Frakka í orrustunni við Dien Bien Phu árið 1954.[3][4]

Árið 1954 skrifaði Alþýðulýðveldið Víetnam, sem stýrt var af kommúnistaflokknum, undir sáttmála í Genf þar sem Frakkland viðurkenndi sjálfstæði Víetnams en einnig var samþykkt að landinu yrði tímabundið skipt í tvennt. Kommúnistar hlutu stjórn yfir norðurhlutanum en suðurhlutinn var settur undir stjórn Bảo Đại og brátt undir stjórn Lýðveldisins Víetnam (Suður-Víetnam) sem neitaði að viðurkenna Genfarsáttmálann og sameiningu landanna sem var fyrirhuguð árið 1956.

Á þriðja landsþingi kommúnistaflokksins í Hanoí árið 1960 staðfesti flokkurinn að markmið sín væru uppbygging kommúnisma í Norður-Víetnam og stuðningur við byltingu í Suður-Víetnam í því skyni að endursameina ríkin. Lê Duẩn varð aðalritari flokksins og gegndi þeirri stöðu í gegnum allt Víetnamstríðið og til dauðadags árið 1986.

Á fjórða landsþingi flokksins árið 1976, eftir endursameiningu Víetnams, tók flokkurinn formlega upp nafnið Kommúnistaflokkur Víetnams á ný.

Tilvísanir

breyta
  1. Kolko, Gabriel (1994). Anatomy of a War: Vietnam, the United States, and the Modern Historical Experience. New Press. bls. 27. ISBN 9781565842182.
  2. Stuart-Fox, Martin (1997). A History of Laos. Cambridge University Press. bls. 80-81. ISBN 9780521597463.
  3. Leifer, Michael (1994). Dictionary of the Modern Politics of South-East Asia. Taylor & Francis. bls. 175–176. ISBN 9780415042192.
  4. „THE STRUCTURE AND ORGANIZATION OF THE LAO DONG PARTY OF VIET NAM“. Central Intelligence Agency. 1. apríl 1956. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. maí 2017. Sótt 4. júlí 2021.