Knattspyrnufélagið Valur/Austri
Knattspyrnubandalag Vals og Austra eða KVA var samsteypufélag tveggja gamalgróinna austfirskra félaga: Austra Eskifirði og Vals Reyðarfirði og keppti á Íslandsmóti karla í knattspyrnu á árunum 1994-2000. Það var um skeið sterkasta fótboltalið fjórðungsins og varð árangurinn kveikja að frekari sameiningum, fyrst í Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar og síðar Knattspyrnufélag Austfjarða.
Saga
breytaSumarið 1993 höfnuðu Austri og Valur í næstneðsta og þriðja neðsta sæti Austurlandsriðils 4. deildar. Nágrannar þeirra og erkifjendur í Þrótti Neskaupstað voru á sama tíma tveimur deildum ofar. Í kjölfarið var ákveðið að láta reyna á sameiningu karlaflokka liðanna tveggja, en kvennaflokkarnir höfðu teflt fram sameiginlegu liði þá um sumarið undir heitinu KVA, þótt árangurinn væri ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Skjótar framfarir
breytaHið sameinaða karlalið kom sér í efri hlutann strax á fyrsta tímabili og hafnaði í fjórða sæti í sjö liða Austurlandsriðli. Heimaleikir liðsins fóru fram ýmist á Reyðarfirði eða Eskifirði. Árni Ólason þjálfaði meistaraflokkinn fyrsta árið en Birkir Sveinsson tók við keflinu sumarið 1995. Unglingalandsliðsmaðurinn Stefán Gíslason var í veigamiklu hlutverki hjá KVA sem náði öðru sæti í riðlinum á eftir Hetti en féll úr leik í fjórðungsúrslitum gegn Knattspyrnufélagi Siglufjarðar. Stuðningsmenn fengu viðbótar krydd í tilveruna þegar efstudeildarlið ÍBV kom í heimsókn í 32-liða úrslitum bikarsins. Heimamenn fengu óskabyrjun og komust yfir eftir tæpar fimm mínútur en gestirnir skoruðu síðan sex sinnum.
Allt gekk að óskum hjá Austfjarðaliðunum leiktíðina 1996. Miroslav Nikolic stýrði liði KVA sem vann sinn riðil með miklum yfirburðum og tapaði bara einu stigi, gegn Sindra frá Höfn sem fylgdi liðinu upp um deild. KVA vann úrslitakeppnina með fullu húsi stiga og unnu m.a. Bolvíkinga 8:2 í öðrum undanúrslitaleiknum. Stefán Gíslason lék ekki nema þrjá leiki þar sem hann gekk í raðir stórliðsins Arsenal snemmsumars. Eini „tapleikur“ sumarsins var í bikarkeppni KSÍ þar sem KVA vann Leikni Fáskrúðsfirði en reyndist hafa notað ólöglegan leikmann.
Aftur upp um deild
breytaFjögur lið bitust um toppsætin tvö í þriðju efstu deild sumarið 1997. HK, Selfoss, Víðir Garði og KVA. Víðisliðið dróst aftur úr á lokasprettinum. HK tryggði sér toppsætið og KVA náði öðru sætinu eftir 3:5 sigur á Selfossi í næstsíðustu umferð. Sama sumar féll Þróttur Neskaupstað niður í neðstu deild, svo rækileg valdaskipti höfðu átt sér stað eystra.
Sumarið 1998 varð minnisstætt. KVA var spáð langneðsta sæti af forráðamönnum 1. deildar félaganna. Liðið hafði þó bætt við sig nokkrum leikmönnum, þar á meðal ungum markverði úr Fylki, Róbert Gunnarssyni sem síðar átti eftir að verða kunnari sem handknattleiksmaður. Þrír sigrar KVA í röð undir mitt mót fóru langt með að tryggja sætið í deildinni, einkum þar sem HK og Þór áttu afleitt tímabil. Eftir tíu umferðir voru austfirðingarnir komnir með sautján stig, aðeins þremur minna en Víkingar í öðru sætinu. Liðin mættust á Eskifirði í næstu umferð og voru einhverjir mögulega farnir að gæla við að KVA gæti óvænt skotist upp í efstu deild. Við tók sex leikja hrina þar sem KVA náði ekki nema í tvö stig. Liðið endaði að lokum einu sæti ofar en fallliðin, en þó með sextán stigum meira en Þórsarar. Ótrúleg úrslit litu dagsins ljós í lokaumferðinni þar sem KVA sigraði Þór 11:5.
Í bikarkeppninni 1998 kom KVA ekki síður á óvart með því að slá efstudeildarlið Keflvíkinga út í 32-liða úrslitum, en Leiftursmenn reyndust of stór biti í næstu umferð.
Tankurinn á þrotum
breytaAftur spáðu sérfræðingarnir KVA falli fyrir sumarið 1999 og þá rættist spáin. KVA skoraði talsvert en fékk á sig langflest mörk allra liða. Þegar komið var fram í seinni umferðina soguðust Austfirðingarnir niður á botninn og enduðu nokkuð á eftir næstu liðum.
Árin tvö í 1. deildinni virtust hafa dregið úr KVA allan mátt. Liðið sá aldrei til sólar 2. deildinni og endaði á botninum með tólf stig eftir að hafa bara nælt í þrjú stig í sex síðustu leikjunum. KVA var komið í neðstu deild á ný og bjó sig undir að hitta þar Þrótt frá Neskaupstað. Þar sem sveitarfélögin þrjú: Reyðarfjörður, Eskifjörður og Neskaupstaður höfðu sameinast nokkru fyrr lá beint við að taka upp umræður um sameiningu á fótboltasviðinu og var nýtt lið, Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar sent til leiks sumarið 2001.