Kinnaird lávarður

Arthur Fitzgerald Kinnaird, ellefti lávarður Kinnaird (16. febrúar 184730. janúar 1923) var breskur aðalsmaður, knattspyrnumaður og forseti Enska knattspyrnusambandsins í meira en þrjá áratugi. Hann hefur verið kallaður fyrsta stórstjarnan í sögu fótboltans. Kinnaird lávarður lék níu úrslitaleiki Ensku bikarkeppninnar, meira en nokkur annar. Þar af fór hann fimm sinnum með sigur af hólmi. Í viðurkenningarskyni fyrir afrek sín var honum færður fyrsti verðlaunagripur keppninnar að gjöf árið 1911 þegar nýr bikar var kynntur til sögunnar.

Kinnaird lávarður
Arthur Kinnaird um 1908.
Fæddur16. febrúar 1847
Dáinn30. janúar 1923 (75 ára)
ÞjóðerniEnskur/skoskur
StörfÍþróttaforkólfur
Þekktur fyrirað vera forseti Enska knattspyrnusambandsins

Líf og störf

breyta

Arthur Fitzgerald Kinnaird fæddist í Kensington, sonur bankamannsins og stjórnmálamannsins Arthur Kinnaird tíunda lávarðar Kinnaird. Þeir voru af skoskri aðalsætt sem stofnuð var á sautjándu öld, en titillinn hvarf úr sögunni við dauða þrettánda lávarðarins árið 1997.

Kinnaird nam við Cambridge og útskrifaðist þaðan tvítugur að aldri. Eftir það hóf hann störf við banka fjölskyldunnar, Ransom, Bouverie & Co. og varð fljótlega yfirstjórnandi hans. Banki þessi sameinaðist síðar öðrum í Barclays-banka sem Kinnaird veitti forstöðu til dauðadags. Hann átti sjö börn.

Knattspyrnuferill

breyta
 
Skopmynd af Kinnaird lávarði frá 1912.

Kinnaird hóf snemma fótboltaiðkun og var orðinn fyrirliði skólaliðsins tólf ára að aldri árið 1859. Hans fyrstu kynni af fótbolta eftir reglum Enska knattspyrnusambandsins, sem settar höfðu verið árið 1863, voru þó ekki fyrr en árið 1866. Á þessum árum keppti hann í fjölda annarra íþrótta, s.s. sundi, tennis, spretthlaupum og róðri.

Sem leikmaður átti Kinnaird að baki magnaðan feril. Hann keppti níu sinnum til úrslita í Ensku bikarkeppninni og varð þrisvar sinnum meistari með Wanderers og tvisvar með Old Etonians. Varð víðfrægt þegar hann fagnaði fimmta og síðasta titlinum með því að standa á höfði fyrir framan áhorfendastúkuna. Kinnaird lék allar stöður á vellinum, frá markverði til fremsta framherja.

Þrátt fyrir að hafa fæðst og alist upp í Lundúnum var Kinnaird lávarði annt um skosk ætterni sitt og keppti því fyrir Skotland gegn Englandi, bæði í þremur leikjum sem í dag eru ekki viðurkenndir sem fullgildir landsleikir og í öðrum opinbera landsleik Skotlands og Englands þann 8. mars 1873.

Kinnaird lávarður var talinn sérlega harður í tæklingum, sem bakaði honum miklar vinsældir áhorfenda. Hann var einnig auðþekkjanlegur á velli, mikill að burðum og með sítt alskegg og einatt klæddur í síðbuxur. Hefur honum verið lýst sem fyrstu stórstjörnu fótboltans, enda vinsælt myndefni fyrir skopmyndateiknara blaðanna.

Íþróttaforkólfur

breyta

Kinnaird tók sæti í stjórn Enska knattspyrnusambandsins aðeins 21 árs gamall. Hann sinnti gjaldkerastarfinu um tíma og varð forseti árið 1890, sem hann gegndi næstu 33 árin. Hann lést skömmu áður en Wembley-leikvangurinn var tekinn í notkun, en bygging hans hafði verið risavaxið úrlausnarefni fyrir sambandið.

Auk starfa að knattspyrnumálum var Kinnaird lávarður virkur í kirkjustarfi og stýrði meðal annars YMCA-hreyfingunni um árabil.

Heimildir

breyta