Old Etonians F.C. er enskt knattspyrnulið skipað leikmönnum sem útskrifast hafa úr Eton College í Birkshire. Félagið kom mjög við sögu í árdaga knattspyrnuíþróttarinnar í Englandi áður en atvinnumennska ruddi sér til rúms. Í seinni tíð keppir félagið einkum við önnur lið útskrifaðra stúdenta.

Saga breyta

Erfitt er að tiltaka stofnár Old Etonians með fullri vissu, en oft er miðað við árið 1871. Löng hefð var fyrir iðkun fótbolta og annarra skyldra boltaíþrótta í Eton-skólanum og snemma tók að bera á því að útskrifaðir nemendur héldu áfram að leggja stund á gömlu skólaíþróttirnar eftir útskrift. Þannig var fyrsti kappleikurinn sem fram fór eftir reglum hins nýstofnaða Enska knattspyrnusambands milli liða sem nefndust Old Etonians og Old Harrovians í nóvember 1862. Nöfnin vísa ekki til þess að um eiginleg knattspyrnufélög í nútímaskilningi hafi verið að ræða heldur einungis hópa sem útskrifaðir voru hvor úr sínum skólanum.

Kinnaird lávarður, einn áhrifamesti maður í sögu fótboltans og forseti Enska knattspyrnusambandsins til 33 ára, var Eton-maður í húð og hár og hóf að leika knattspyrnu um 1866 með gömnlum skólafélögum sínum. Hann var kominn í stjórn knattspyrnusambandsins tveimur árum síðar, 21 árs að aldri. Hann var því einn af skipuleggjendum bikarkeppninnar sem haldin var í fyrsta skipti veturinn 1871-72. Old Etonians skráðu sig fyrst til keppni tveimur árum síðar en drógu sig í hlé fyrir fyrsta leik. Keppnistímabilið 1874-75 mættu Old Etonians hins vegar ótrauðir og fóru alla leið í úrslitin þar sem þeir töpuðu með Kinnaird lávarð innan borðs. Mótherjarnir voru Royal Engineers.

Sama varð upp á teningnum árið eftir þar sem Old Etonians töpuðu í endurteknum úrslitaleik gegn The Wanderers. Segja má að lávarðurinn hafi þar verið beggja megin borðsins, því hann skipti í sífellu milli Old Etonians og The Wanderers. Hafði orðið bikarmeistari með síðarnefnda liðinu 1873 og varð það aftur 1877 og 1878. Árið 1879 var hann hins vegar kominn á ný í raðir Old Etonians sem fóru loksins alla leið og unnu Clapham Rovers í úrslitum.

Árið 1881 komust Old Etonians enn í úrslit bikarsins en töpuðu 3:0 fyrir Old Carthusians og komu þau úrslit verulega á óvart.

Enn átti Old Etonians eftir að komast í tvo bikarúrslitaleiki árin 1882 og 1883 og urðu þeir sögulegir, hvor á sinn hátt. Fram að þeim höfðu Old Etonians einkum keppt við lið skipuð aðalsmönnum og betri borgurum, skipuðum gömlum nemendum fínu einkaskólanna. Hjá þessum liðum var áhugamennskuhugsjónin í fyrirrúmi, enda meðlimirnir vellríkir. Í verksmiðjuborgunum í norðanverðu Englandi voru hins vegar að spretta upp félög skipuð leikmönnum úr alþýðustétt þar sem lítt dulbúin atvinnumennska var ríkjandi. Olli þetta miklum titringi og á stundum klofningi innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Mótherjar Old Etonians í úrslitunum 1882 var Blackburn Rovers, eitt af verksmiðjufélögunum úr norðrinu. Leiknum lauk með 1:0 sigri Old Etonians. Kinnaird lávarður varð þar með bikarmeistari í fimmta sinn og fagnaði titlinum með því að standa á haus fyrir framan áhorfendur. Viðureignin varð söguleg, þar sem þetta var í síðasta sinn sem einu af gömlu áhugamannaliðunum meða einkaskólatengingarnar tókst að vinna keppnina.

Árið eftir voru mótherjarnir annað Blackburn-lið, Blackburn Olympic. Þar áttust ekki aðeins við lið með ólíkan stéttabakgrunn heldur einnig mismunandi leikstíla. Norðanmenn léku knettinum hratt sín á milli á meðan yfirstéttaráhugamennirnir treystu á líkamsburði og einstaklingsframtak. Blackburn Olympics sigraði, 2:1 og nýr kafli hófst í sögu knattspyrnunnar.

Næstu árin tóku verkamannaliðin úr norðrinu öll völd í bikarkeppninni. Old Etonians tóku síðast þátt í henni 1887-88 og voru síðasta áhugamannaliðið til að gera það.

Titlar breyta

Bikarmeistarar

  • (2) 1878-79, 1881-82