Karl-Theodor-brúin

Karl-Theodor-brúin er brú yfir ána Neckar í borginni Heidelberg í Þýskalandi. Hana prýðir 28 metra hátt gamalt borgarhlið (Altes Brückentor) og nokkrar styttur.

Karl-Theodor-brúin yfir Neckar. Við endann fjær sést gamla brúarhliðið. Styttan af Minervu er til vinstri. Fyrir ofan eru kastalarústirnar.

Saga brúarinnar

breyta
 
Brúin árið 1620. Apaturninn er enn á brúnni. Mynd eftir Matthäus Merian.

Níu sinnum hefur brú verið smíðuð yfir Neckar á þessum stað eftir að hafa eyðilagst átta sinnum af mannavöldum eða af náttúrunnar hendi. Núverandi brú er sú níunda á þessum stað. Fyrsta brúin var reist með stofnun borgarinnar sitthvoru megin við aldamótin 1200. Hún tengdi ekki tvo borgarhluta, heldur var hluti af þjóðvegi út úr borginni. Hinn bakkinn tilheyrði ekki lengur Pfalz, heldur kjörfustadæminu Mainz. Áin myndaði náttúruleg landamæri milli kjörfurstadæmanna. Af þessum sökum var ákveðið að reisa mikið borgarhlið við þann brúarsporð sem stóð borgarmegin. Brúin varð ekki langlíf. Á ísaárinu 1288 eyðilagði lagnaðarís brúna. Næstu fimm brýr voru allar skammlífar. Allar eyðilögðust þær í lagnaðarís, sú sjötta árið 1565. Sjöunda brúin var smíðuð í framhaldið af því. Hún var yfirbyggð alla leið í gegn. Nálægt bakkanum fjær var turn, svokallaður apaturn, sem notaður var sem tollahlið. Á bakkanum nær var nýtt hlið reist sem í dag heitir Altes Brückentor (Gamla brúarhliðið). Brú þessi skemmdist ekki í 30 ára stríðinu þegar Tilly hertók borgina og heldur ekki þegar Svíar tóku borgina til skamms tíma í sama stríði. En 1689 herjuðu Frakkar á borgina í erfðastríðinu í Pfalz og sprengdu brúna. Næstu 20 árin var notast við ferjur. Á árunum 1706-08 var svo áttunda brúin smíðuð. Notast var við sömu brúarsporðana og áður. Apaturninn var hins vegar ekki endurreistur og heldur ekkert hlið við bakkann fjær. Gamla brúarhliðið stóð enn en því var breytt í barokkstíl. Ýmsar styttur voru gerðar og settar upp á hina og þessa staði á brúnni og voru mikil prýði. Þegar kjörfurstinn flutti til Mannheim á svipuðum tíma vegna ósættis við borgarráðið, hótaði hann að rífa brúna og skilja borgina eftir í sárum. En hann lét það ógert. Hún stóð þó aðeins til 1784, er hún hrundi í flóði með íshröngli. Veturinn hafði verið óvenju kaldur og snjóþungur. Þegar hlánaði varð borgin fyrir versta flóð í sögu sinni. Gríðarlegar skemmdir urðu víða í borginni. Fyrir utan brúna eyðilögðust 39 hús. Þessu fylgdi mikil reikistefna um nýsmíði brúarinnar. Sumir vildu færa hana á betri stað, aðrir vildu smíða hana úr grjóti. Kjörfurstinn Karl Theodor ákvað að brúin yrði smíðuð á sama stað, en gerð úr grjóti til að standast flóð og ís. Brúarsporðarnir voru auk þess hækkaðir, þannig að næstu hugsanleg flóð næðu síður upp í brúna. Brúin var tvö ár í smíðum og varð að næstdýrasta mannvirki í Pfalz, á eftir kastalanum í Heidelberg. Til að fjármagna smíðina voru tekin lán og lagður sérskattur á borgarbúa. Brúin fékk heiti kjörfurstans. Eftir það var tvisvar barist á brúnni. Í fyrra skiptið reyndi 1000 manna franskur byltingarher að hertaka Heidelberg með því að komast yfir brúna. 300 Austurríkismenn voru til varnar og náðu að hrinda sjö árásum. Það dugði þó ekki. Næsta dag voru Frakkar komnir inn í borgina. Í seinna skiptið var barist á brúnni 1849 í framhaldi af byltingunni 1848. Byltingarmenn sátu í borginni og vissu að prússneskur her nálgaðist. Þeir settu því sprengjur á brúna og var ætlunin að sprengja hana ef Prússar reyndu að komast yfir. Borgarbúar reyndu hins vegar að fá byltingarmenn til að hlífa brúnni. Það virkaði. Byltingarmenn sáu að þeir áttu við ofurefli að etja og létu sig hverfa úr borginni við svo búið. Prússar fjarlægðu allar sprengjur og þrömmuðu inn í borgina. Brúin varð langlíf. Hún skemmdist ekki í heimstyrjöldinni síðari, þar sem Heidelberg varð ekki nema fyrir óverulegum loftárásum. En 29. mars 1945 ákváðu nasistar að sprengja allar brýr yfir Neckar í námunda við Heidelberg til að tefja fyrir Bandaríkin|bandarískum]] herjum sem nálguðust úr vestri. Karl-Theodor-brúin slapp þó við algera eyðileggingu. Nasistar sprengdu aðeins brúargólfið milli þriggja brúarstöpla og féll það í Neckar. Þar sem Heidelberg var auralaust eftir stríð, var hafist handa við að safna aurum hjá almenningi og fyrirtækjum til að hægt væri að gera við brúna. Viðgerðir hófust í mars 1946 og þeim lauk í júlí 1947. Síðustu breytingar á brúnni fóru fram 1969-70.

Tafla yfir brýrnar

breyta
 
Gamla brúarhliðið
 
Mínerva
 
Brúarapinn er með holt höfuð
Röð Ár Efniviður Eyðing
1 ca. 1200 Viður Hrundi í lagnaðarís 1288
2 Lok 13. aldar Viður Hrundi í lagnaðarís 1308
3 14. öld Viður Hrundi í lagnaðarís 1340
4 14. öld Viður Hrundi í lagnaðarís 1400
5 14. öld Viður Hrundi í lagnaðarís 1470
6 15. öld Viður Hrundi í lagnaðarís 1565
7 16. öld Viður Sprengd af Frökkum 1689
8 1706-08 Viður Hrundi í flóði 1784
9 1786-88 Grjót Hluti sprengdur af nasistum 1945

Brúarhliðið

breyta

Brückentor er heiti á gamla borgarhliðinu við enda brúarinnar sem næst borginni stendur. Elstu hlutar þess eru frá 15. öld en því var breytt í barokkstíl 1709-1711. Við það tækifæri fékk hliðið bogaþökin yfir turnunum. Í hliðinu var skattur greiddur af vöru en auðvitað var hliðinu rammlega lokað á ófriðartímum. Í vesturturninum eru nokkrar dýflissur. Í austurturninum er íbúð hliðvarðarins. Í þessa íbúð flutti arkítektinn Rudolf Steinbach sem sá um endurbyggingu brúarinnar sem nasistar sprengdu örfáum dögum fyrir komu bandarískra hersveita í stríðslok 1945.

Styttur

breyta

Mýmargar styttur voru á brúnni áður fyrr. Í dag eru þær aðeins tvær. Við suðurendann, nær miðborginni, er stytta af kjörfurstanum Karl Theodor. Hún er nokkuð stærri en kjörfurstinn og vísar í átt að kastalarústinni. Þegar Karl Theodor gekk í fyrsta yfir brúna, þótti honum sem styttann af sér skekkti mynd brúarinnar. Hann bað því um að önnur stytta yrði reist á brúnni við norðurendann. Því var gerð stytta af rómversku gyðjunni Mínervu, sem var verndari handiðnaðarmanna og kaupmanna. Karli Theodor þótti mikið til um Minervu komið og átti hof henni til heiðurs í einum garði sínum. Báðar stytturnar eru eftirmyndir. Originölin eru í safni í borginni.

Brúarapinn

breyta

Áður fyrr var turn á brúnni, ekki fjarri bakkanum fjær. Hann var kallaður apaturninn, þar sem myndarleg stytta af apa stóð þar. Styttuapinn snerti afturendann á sér með annarri hendi, en í hinni hélt hann á spegli. Þetta var háð sem ferðamenn áttu að verða fyrir, en fyrir neðan styttuna var háðvísa. Bæði turninn og apinn eyðilögðust þegar Frakkar sprengdu brúna 1689. Árið 1977 var haldin samkeppni um að hanna nýjan apa. Apinn er í mannshæð og er með holt höfuð. Ferðamenn geta sett eigið höfuð inn í apahöfuðið og í því felst háðið í dag.

Heimildir

breyta