Karl

fullorðinn karlkyns einstaklingur

Karl, karlmaður eða maður, er karlkyns maður, oftast fullorðinn einstaklingur. Karlkyns barn eða unglingur kallast drengur, strákur eða piltur.

Karlmaður.

Líkt og hjá flestum spendýrum erfir genamengi karlmanns yfirleitt X-litning frá móður og Y-litning frá föður. Kynákvörðun mannsfósturs ræðst af SRY-geni í Y-litningnum. Á kynþroskaskeiði valda karlhormónar þróun annars stigs kyneinkenna sem auka á muninn milli kynjanna. Meðal þessara einkenna eru aukinn vöðvamassi, vöxtur andlitshára og minni líkamsfita. Líkamsgerð karla greinist frá líkamsgerð kvenna annars vegar í æxlunarkerfinu, þar sem karlar eru með getnaðarlim, eistu, sáðrás, blöðruhálskirtil og eistnalyppur; og hins vegar með annars stigs kyneinkennum eins og mjórri mjaðmagrind, grennri mjöðmum og minni brjóstum.

Í mannkynssögunni hafa hefðbundin kynhlutverk oft afmarkað athafnir og tækifæri karlmanna. Dæmi um slíkt er þegar karlmenn eru skyldaðir í herþjónustu og önnur störf þar sem dánartíðni er mikil. Í mörgum trúarbrögðum gilda sérstakar reglur um karla og sum staðar eru drengir umskornir. Karlmenn eru í miklum meirihluta bæði gerenda og fórnarlamba ofbeldis.

Trans menn eru karlmenn sem fæddust með kvenkyns kynákvörðun en hafa karlkyns kynvitund. Intersex-karlar eru karlmenn með ódæmigerð kyneinkenni sem passa ekki við dæmigerða líkamsgerð karla.

  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.