Stórisandur er landflæmi í óbyggðum norðan við Langjökul, gróðurlítið og mishæðótt. Sandurinn er í 700-800 metra hæð yfir sjávarmáli. Um hann lá fyrr á öldum Skagfirðingavegur, þjóðleið milli Norður- og Vesturlands, en oft var einfaldlega talað um að fara Stórasand. Leiðin var fremur greiðfær þótt sumstaðar lægi hún um stórgrýtt hraun og var vel vörðuð.

Þegar Stórisandur var farinn úr Skagafirði var haldið upp Mælifellsdal og yfir húnvetnsku heiðarnar, þvert á Kjalveg norðan Seyðisár. Við Sauðafell, skammt frá Kjalvegi, taka við melöldur með grunnum dölum á milli. Þær þóttu leiðigjarnar yfirferðar eins og gamall vísuhelmingur bendir til: „Átján öldur undir Sand / eru frá Sauðafelli.“ Þá tók Stórisandur við og af honum var svo komið á Arnarvatnsheiði og þaðan ýmist haldið niður með Hvítá til Borgarfjarðar eða suður Kaldadal.

Sunnan við sandinn er fjallið Krákur, sem er 1167 m á hæð og sést víða að. Grettishæð heitir strýta á sandinum og er stundum sagt að þar hafi Þorbjörn öngull grafið höfuð Grettis Ásmundarsonar.